Íslenskt atvinnulíf hefur löngum einkennst af fábreytni sem hefur leitt til þess að hagur okkar hefur um of ráðist af árferði til sjávar og sveita. Hagkerfið er auðlindadrifið. Sjávarútvegur, orkufrekur iðnaður og nú síðast ferðaþjónusta hafa verið hinar stóru greinar. Gallinn við þetta er sá að sveiflur og áföll í þessum greinum hafa víðtæk áhrif og valda á víxl upp- og niðursveiflum í greinunum sjálfum en ekki síður í hag heimila landsins með gengissveiflum, verðbólgu, kaupmáttarskerðingum og sveiflum í atvinnuþátttöku og atvinnuleysi.
Sagan endurtekur sig
Þegar vel árar virðist þetta ágætt og allir vilja meira af því sama. Þegar illa árar opnast hins vegar augu flestra fyrir því að samsetning atvinnulífsins er ekki eins og best verður á kosið. Þá er byrjað að tala um að auka fjölbreytni, skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og töfraorðin nýsköpun, tækni og vísindi verða á hvers manns vörum. Þetta hefur endurtekið sig margsinnis, m.a. í kjölfar bankahrunsins og nú síðast þegar Covid reið yfir.
Skortur á framsýni
Gott dæmi um þetta eru viðbrögð núverandi ríkisstjórnar í tengslum við efnahagsvandann sem Covid hefur skapað. Nú skyldi nýsköpun og sprotastarfsemi bjarga málunum. Sá hængur er þó á að allar úrbætur voru gerðar til bráðabirgða, ekki til langs tíma. Gripið var til nokkurra ráða:
- Hækkun á endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunar
- til skamms tíma! - Hækkun á heimildum lífeyrissjóða til að fjárfesta í nýsköpunarsjóðum
- til skamms tíma! - Sjóðurinn Kría stofnaður eftir langa meðgöngu
- með of litlu fé! - Stuðnings Kría sett á laggirnar til hjálpar sprotafyrirtækjum í vanda
- með of litlu fé og of ströngum skilyrðum!
Viðreisn vill aðrar leiðir
Nýsköpun þarfnast margvíslegra næringarefna, bæði efnislegra og huglægra. Horfa verður á nýsköpun sem viðvarandi viðfangsefni en ekki skammtímaúrræði til að grípa til þegar að kreppir. Móta þarf stuðningsumhverfi til langs tíma. Þetta á ekki síst við um fjármögnun, styrki, framlag til vísisjóða og skattalegra hvata. Þannig fæst nauðsynleg festa sem er grundvallaratriði í uppbyggingu útflutningsdrifinna hugvitsfyrirtækja.
Viðreisn vill ekki skammtímalausnir. Viðreisn vill lausnir sem eru sniðnar þannig að raunverulegar breytingar verði meiri og hraðari. Þau fyrirtæki og frumkvöðlar sem leggja út í óvissuna til þess að skapa eitthvað nýtt verða að geta treyst því þegar lagt er af stað að starfsumhverfi þeirra og stuðningur sé eins stöðugt og unnt er og muni haldast að minnsta kosti áratug frá þeim tíma að lagt er af stað. Stuðninginn þarf að sjálfsögðu sífellt að endurskoða, laga og bæta en það á ekki að gerast með þeim hætti að honum sé kollvarpað í miðri á. Ekki er betra að hann dugi ekki þegar í upphafi nema út í miðja á eins og hefur verið raunin í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Til viðbótar vitum við öll að krónan, háir vextir og verðbólga valda sveiflum sem reynast öllum fyrirtækjum skeinuhættar, ekki síst þeim sem fást við nýsköpun og ætla sér landvinninga á erlendum mörkuðum. Besta lausnin er auðvitað að tengja gengi krónunnar strax við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu og taka síðan upp evru þegar Ísland gengur í Evrópusambandið.
Gefðu framtíðinni tækifæri - kjóstu Viðreisn.
Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti í Reykjavík norður á lista Viðreisnar.