Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, stendur í ströngu þessa dagana vegna deilnanna á vinnumarkaði. Engin lausn er í sjónmáli, og verkfallsaðgerðir þegar í gangi og víðtækustu verkföll í áratugi eru handan við hornið. Sigmundur Davíð segir stjórnvöld ekki ætla að setja eldivið á verðbólgubálið, og má segja honum það til hróss að þetta er auðvitað gott innlegg. Innistæðulausir samningar, sem eyða kaupmætti fólks í gegnum verðbólguna, er gjörsamlega óásættanleg niðurstaða.
En þetta er nú kannski svolítið seint í rassinn gripið hjá Sigmundi Davíð. Hin svokallaða leiðrétting hefur ýtt undir fasteignaverð, að mati sérfræðinga sem vinna við að fylgjast með fasteignamarkaðnum. Þetta er algjörlega í takt við spár um hvað gæti gerst, ef 80 milljarðar króna yrðu gefnir úr ríkissjóði til sumra. Í ljósi þessa séríslenska veruleika að húsnæðisliðurinn er inn í vísitölu neysluverðs, þá hefur þetta bein áhrif á verðbólguna til hækkunar. Fasteignaverð hefur sjaldan eða aldrei hækkað hraðar en að undanförnu, eða um tæplega fimm prósent á síðustu fjórum mánuðum.
Að þessu leyti eru stjórnvöld þegar búin að gera sitt til að kynda undir verðbólgunni, og um leið senda út skilaboð um að það sé hægt að leiðrétta þróun sem þegar er orðin, eins og verðbólguþróun. Það er ekki hægt, og hin svokallaða leiðrétting, sem ekki er neitt annað en millifærsla á peningum úr ríkissjóði til sumra, hefur lítið annað gert en að kynda undir verðbólgunni.