Í Íslandsheimsókn sinni kom Bill Gates við í Múlakaffi. Hann snæddi þar hádegisverð ásamt lögreglumönnum, hjúkrunarkonum og öðrum úr íslenskri alþýðustétt. Af tilviljun fór þá fram launakönnun meðal matargestanna. Hún var gerð á vegum atvinnurekenda.
Meðaltalið sýndi að kaupmáttur almúgans á Íslandi var einn sá besti á byggðu bóli. Matarkostnaður var óverulegur hluti af ráðstöfunartekjum.
Glöggir lesendur átta sig á að ofanverð atburðarás er uppdiktuð dæmisaga. Þeir vita að lögreglumaður með 284.000 kr. í veskið á mánuði, eða íslensk hjúkrunarkona borða ekki úti í hádeginu. Hjá þeim breyta örbylgjur afgöngum gærdagsins í hádegismat. Borinn fram í endurnýttu ísboxi frá síðustu jólum.
Fréttatilkynning greiningardeildar Landsbankans frá júlí í fyrra er hins vegar ekki uppdiktuð dæmisaga.
„Húsnæðiskostnaður ekki hár hér á landi“ er yfirskriftin. Fram kemur að hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum á Íslandi er sá næstlægsti á Norðurlöndum. Hæstur er húsnæðiskostnaður í Danmörku, eða um fjórðungur ráðstöfunartekna. Á íslandi er meðaltal húsnæðiskostnaðar 16,5 prósent af ráðstöfunartekjum.
Niðurstaða markaðskorna Arion banka er á sömu nótum. Bankinn telur húsnæðiskostnað á Íslandi talinn vera á pari við Evrópulönd, eða ívið lægri. Þessi kostnaður hefur farið minnkandi, og var kominn niður í 21,4% af ráðstöfunartekjum á Íslandi árið 2014.
Ályktun Landsbankans endar á þessa leið : „húsnæðisbyrði leigjenda hefur hins vegar aukist töluvert á þessum tíma, eða um 5 % af ráðstöfunartekjum“. Ekki fylgir sögunni frá, og upp í hvaða prósentu af ráðstöfunartekjum „húsnæðisbyrðin“ (leigan) er komin.
Niðurstaða Arion er svohljóðandi : húsnæðiskostnaður, (sem hlutfall af ráðstöfunartekjum) „kallar alls ekki á sérstaka íhlutun hins opinbera á leigumarkaði.“ Svo mörg voru þau orð.
Athyglisvert er að í glerhvelfingum greiningardeildanna virðist leiga ekki skilgreind sem húsnæðiskostnaður. Heldur „húsnæðisbyrði“. Hvernig er í þennan (húsnæðislána)pott búið? Sem bankarnir byggja niðurstöður sínar á?
Ef löggan úr dæmisögunni er einhleyp í Reykjavík, hefur hún samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins efni á húsnæði sem kostar 47.419 kr á mánuði. (ráðstöfunartekjur - framfærsla án húsnæðsiskostnaðar; 284.000- 236.581 = 47.419 kr.) Er erfitt að finna leiguíbúð fyrir þessa upphæð í Reykjavík?
Ekki ef meðaltals tölfræði Landsbankans stemmir. Og við leyfum okkur að setja samasemmerki milli húsnæðiskostnaðar og leigu. 16,5% húsnæðiskostnaður af 284.00 tekjum er mjög nálægt ofangreindri upphæð.
Hinn kosturinn er að viðkomandi taki lán og kaupi íbúð. Til að eiga fyrir afborgunum þarf hinn sami líklega að betla matarafganga í Múlakaffi.
Afborganir slaga langt upp í útborguð laun.
Hvernig fá greiningardeildir svona útkomur? Að íslenskur húsnæðiskostnaður sé ekki hár, almennt 17 til 21% af ráðstöfunartekjum? Taka þær allar húsnæðisafborganir landsins og hella þeim í einn pott? Líka skuldlausar eignir? Og „húsnæðisbyrði“ leigjenda í sér pott? Með þannig Múlakaffismælingum fæst flott útkoma. Þá verður „húsnæðiskostnaður“ ekki hár á Íslandi. þá eru aðgerðir í húsnæðismálum líka óþarfar.
Bill Gates „faktor“ í húsnæðisjöfnu bankanna eru húsnæðislán verðbólguáranna upp úr 1970 og fram að verðtryggingu. Á þessu tímabili greip um sig gullæði í húsbyggingum. Allir sem vettlingi gátu valdið byggðu eða keyptu húsnæði. Vextir voru í raun negatívir, Bankar breyttu andvirði lambs sparifjáreigandans í lambalæri á nokkrum misserum. Húsbyggjandinn borgaði andvirði eins herbergis eða svo af einbýlishúsaláninu þegar veislan var gerð upp. Fórnarlömbin voru eldra fólk sem horfði á eftir ævisparnaði sínum í þessa hít.
Talið er að vel á fimmta hundruð miljarða (núvirt) hafi færst milli kynslóða á þessu tímabili. Næsta kynslóð tók síðan við skröltandi tómum lánastofnunum. Og beisku meðali (verðtryggingunni) sem er stundum hættulegri en sjúkdómurinn. Sumir kalla þetta gjöf eða rán á ævisparnaði einnar kynlóðar. Þessi ránsfengur er svo notaður sem reiknigrunnur fyrir hvað allt er glerfínt í húsnæðismálum landsins.
Þessi atburðarás er líka skýringin á hvers vegna hlutfall séreignarformins rauk upp úr öllu valdi á Íslandi. Og varð að trúarbrögðum. Sem ásamt skorti á nonprofit leigumarkaði er aftur skýringin á rússíbanareið húsnæðismarkaðsins á Íslandi. Bólurnar springa á 7 til 10 ára fresti.
Í hvert sinn sem þessi öfugi pýramídi hrynur endurbyggja stjórnvöld hann. Stein fyrir stein. Skuldaleiðréttingin er bara eitt dæmi um það klassíska ferli.
Hlufall séreignar á fasteignamarkaði (%)
Þýskaland 42
Danmörk 51
Svíþjóð 60
Bandarikin 70
Ísland 85
Út frá þessum Múlakaffismælingum álykta svo greiningardeildirnar: Það er allt í þessu fína í húsnæðismálum. 'Oþarfi að breyta því sem virkar vel. Leigjendur geta borið „húsnæðisbyrðar“ sínar sjálfir. Á þessum grunni byggja stjórnvöld svo aðgerðir sínar, eða öllu heldur aðgerðarleysi í húsnæðismálum. Það er jú óþarfi að breyta því sem virkar vel. Það er svo ódýrt að búa og lifa á Íslandi.
Máltíð í Múlakaffi er samkvæmt mælingum einn tíumiljónasti hluti af mánaðarlaunum verkamanns.
Ekki satt ?