Ríkisútgjöld eru í mörgum tilfellum bæði réttlát og velferðaraukandi. En þau eru ekki ókeypis. Ein mesta framför sem orðið hefur í stjórnmálahugsun er viðurkenningin á þessu. Einhver þarf að borga fyrir þjónustu ríkisins á endanum. Víðast hvar hefur stjórnmálafólki, bæði til hægri og vinstri, tekist að sameinast um þennan skilning. Í dag snúast stjórnmálin um það hvaða ríkisútgjöld séu réttlætanleg þrátt fyrir tilkostnaðinn. Ekki um hvort þau séu ókeypis. Enn eru þeir þó til sem halda að „hádegisverðurinn sé ókeypis.“ Sá hugsunarháttur er gegnumgangandi í skýrslu Frosta Sigurjónssonar um þjóðpeningakerfi.
Um verðbólguskattinn
Eins og fram hefur komið er einn helsti tilgangur þjóðpeningakerfis að þjóðnýta peningaútgáfuna í landinu og færa svonefndan myntsláttuhagnað til seðlabankans. Frosti telur ekki að peningaútgáfa í slíku kerfi feli í sér skattlagningu. Peningaútgáfan fjármagnar hins vegar ríkisútgjöld. Hér hefur hann því fundið ókeypis hádegisverð. Lífsgæði án tilkostnaðar, eða hvað?
Í íslenskri samantekt skýrslu sinnar (bls. 111) skrifar Frosti: „Ef Seðlabankinn býr til svo mikla peninga að verðbólga geri vart við sig myndast tap hjá þeim sem eiga peninga. En ef Seðlabankinn býr aðeins til nægilegt magn peninga til að mæta þörf vaxandi hagkerfis þá tapar enginn.“
Þetta er rangt. Í vaxandi hagkerfi með fast peningamagn hafa peningar tilhneigingu til að ávaxtast að raungildi. Það kallast verðhjöðnun. Verð vöru og þjónustu, mælt í peningum, fer þá lækkandi. Kaupmáttur hverrar krónu eykst. Með reglulegum inngripum, peningaprentun, er þó hægt að halda raunvirði peninga niðri og svipta eigendurna þessari ávöxtun. Í þessu felst skattlagning, líka þegar verðbólga mælist engin. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Engu máli skiptir, í þessu samhengi, hvort eigendur peninga taka eftir því að verið er að skattleggja þá. Samt er verið að því.
Lítum á grundvallaratriðin: Þjóðpeningarnir í kerfinu hans Frosta hafa ekkert virði í sjálfu sér, ekkert innra virði. Þeir eru aðeins rafrænar færslur í tölvukerfi. Við útgáfu þeirra skapast engin verðmæti. Samt getur ríkið notað þá til að fjármagna kaup sín á vörum og þjónustu. Einhvers staðar í þessu ferli hlýtur að verða tilfærsla á verðmætum. Annað er ómögulegt.
Tillaga Frosta er líka að aftengja peningaframboðið fjárfestingum, en beintengja það þess í stað við ríkissjóð. Slík breyting, í bland við trúna á „ókeypis hádegisverð“, er varhugaverð. Meira má lesa um það í annarri grein.
400 milljarða króna ókeypis hádegishlaðborð
Upptöku þjóðpeningakerfis er sögð fylgja skuldalækkun í þjóðfélaginu, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Í skýrslu Frosta kemur fram að 300-400 milljarða króna einskiptislækkun verði á skuldum, þegar peningaframboðinu verði breytt úr skuldbindingum einkarekinna banka, yfir í „þjóðpeninga“ útgefna af Seðlabanka Íslands.
Þetta hljómar vel. Fyrir 400 milljarða króna væri hægt að byggja nýjan Landspítala og reka hann í meira en áratug. Þetta hljómar næstum því of gott til að vera satt. Enda er þetta alls ekki satt. Þessi meinta skuldalækkun kemur ekki til vegna aukins sparnaðar, eignasöfnunar og niðurgreiðslu skulda. Nei, hún er aðeins sjónhverfing, sem framkölluð er með bókhaldsbrellu. Skoðum málið, eins og því er lýst í skýrslunni hans Frosta.
Bókhaldsbrellan
Skuldalækkun þessi gerist þannig að svo til öll peningaeign landsmanna í bankakerfinu, um 400 milljarðar króna, er gerð upptæk og felld niður. Í staðinn fá landsmenn nýútgefna „þjóðpeninga“ á reikningum hjá seðlabankanum. Hafi Jón Jónsson átt 500.000 krónur á debetreikningi hjá Arion banka er sú krafa tekin af honum en í staðinn fær hann 500.000 krónur á þjóðpeningareikningi.
Í þessu felst líka að skuldir Arion banka minnka um 500.000 krónur. Þegar allt er saman tekið minnka skuldir bankakerfisins sem nemur þessum 400 milljörðum. Tilgangurinn er hins vegar ekki að aflétta skuldum af bönkum, heldur að ríkið endurheimti afturvirkt allan hagnað af útgáfu peninga í hagkerfinu. Bankarnir eru því skyldaðir til að gefa út eitt skuldabréf hver, sem samanlagt nema 400 milljörðum króna og borga þau niður á tíu árum. Með vöxtum, það er sérstaklega tekið fram. Þessi skuldabréf eru kölluð „umbreytingarkrafan“ (e. conversion liability).
Í stuttu máli: Landsmenn missa eina eign (óbundin innlán hjá bönkum) en fá aðra í staðinn (þjóðpeninga). Bankarnir losna við skuldir (óbundin innlán) en taka á sig aðra í staðinn (umbreytingarkröfuna). Hvar verður þá skuldalækkunin?
Jú, hjá Seðlabankanum. Í fyrsta lagi eignast hann fyrrnefnda umbreytingarkröfu, sem nemur 400 milljörðum. Samkvæmt viðteknum venjum ætti hann einnig að skrá hjá sér 400 milljarða skuldbindingu vegna hinna nýútgefnu þjóðpeninga. En tillaga Frosta er að Seðlabankinn sleppi þeim hluta. Peningarnir verði utan efnahagsreiknings hans og aðeins skráðir sem eign handhafa hverju sinni. „Fiat“-peningar sem ekki hafa neitt innra virði verði semsagt skráðir sem hrein eign fyrir hagkerfið. Aukning bókfærðs eigin fjár seðlabankans um 400 milljarða gerist því með bókhaldslegri ákvörðun, sem stríðir bæði gegn góðum reikningsskilavenjum og almennri skynsemi. 400 milljarða króna ókeypis hádegisverður.
Fiat-peningar eru alltaf skuldbindingar
Þetta er ótrúlegt, en svona er þetta svart á hvítu í skýrslu Frosta. Hugmyndin um „skuldlausa peninga“ (e. debt free money) er m.a. fengin úr bók bresku samtakanna Positive Money frá árinu 2013, Modernising Money. Hugmyndin byggist á því að fiat-peningar útgefnir af seðlabönkum séu ekki skuldir. Þeir hafi ótilgreindan líftíma, engar afborganir, enga nafnvexti og feli ekki í sér loforð um greiðslu neins nema annarra peninga af sömu gerð. Þar sem seðlabanki geti gefið slíka peninga út svo til kostnaðarlaust hafi þeir enga þá eiginleika sem skuldir hafa. Því sé rangt að bókfæra peningaútgáfu sem skuldir seðlabanka. Frosti tekur þetta ómengað upp á bls. 27-28 í skýrslu sinni.
Þetta stenst ekki. Í fyrsta lagi geta komið upp margvíslegar aðstæður þar sem handhafar peninga vilja fá þeim skipt í eitthvað annað og það kemur í hlut seðlabanka að verða við þeim óskum. Til dæmis ef til myntbreytingar kemur. Sama hvort það væri breyting yfir í nýja gerð af krónum, einhliða upptaka erlends gjaldmiðils, innganga í myntbandalag eða bara fastgengisstefna gagnvart gjaldmiðli annars ríkis. Í öllum tilvikum væri seðlabankinn skuldbundinn til að skipta krónum yfir í hina nýju mynt, eða yfir í hina erlendu mynt á tilteknu gengi.
Í öðru lagi yrðu þjóðpeningar sem fyrr segir fiat-peningar án innra virðis. Eigi seðlabankinn að vinna eftir verðbólgumarkmiði eða markmiði um fast verðlag, eins og Frosti virðist leggja til, þá felst vitanlega í því að hann ábyrgist að tryggja jákvætt virði fyrirbæris sem hefur ekkert eiginlegt virði. Í því felst skuldbinding, rétt eins og þegar hvers kyns sölutrygging er veitt í viðskiptum. Slík sölutrygging er skuldbinding. Þar sem peningarnir hafa ekkert sjálfstætt virði, þá á bókfært virði sölutryggingarinnar í þessu tilviki að nema öllu nafnvirði þeirra. Einni krónu fyrir hverja krónu. Annað væri villandi gagnvart lesendum ársreikninga seðlabankans.
Höfundar fyrrnefndrar bókar, Modernising Money, segja enga ástæðu til að láta eignir koma á móti peningum á efnahagsreikningi seðlabanka því að peningar fái virði sitt úr vilja fólks til að nota þá í viðskiptum. Þeir hafi þannig sjálfstætt virði, óháð eignastöðu stofnunarinnar sem gaf þá út (bls. 210).
Þar snúa höfundarnir hlutunum rækilega á haus. Þessu er öfugt farið. Vilji fólks til að nota fiat-peninga sprettur af (tiltölulega) öruggu virði þeirra, sem aftur er framkallað með valdboði ríkisins og trúverðugri skuldbindingu seðlabanka til þess að viðhalda því virði til einhvers tíma. Neiti seðlabanki að viðurkenna þessa skuldbindingu sína er trúverðugleiki gjaldmiðilsins og bankans sjálfs augljóslega hverfandi.
Rökvillur Positive Money eru fleiri
Helstu fjármálalegu eignir seðlabanka eru yfirleitt innlend og erlend ríkisskuldabréf og -víxlar. Með kaupum og sölu á slíkum bréfum geta seðlabankar m.a. haft áhrif á magn grunnfjár í umferð og vaxtastig.
Höfundar Modernising Money segja að þótt virði peninga sýnist „baktryggt“ af ríkisskuldabréfaeign seðlabanka, þá kalli það á spurninguna um hvað baktryggi virði ríkisskuldabréfa? Svarið segja þeir að ríkisskuldabréf séu baktryggð með getu ríkisvaldsins til að heimta skatta, þ.e. peninga, af almenningi með valdi. Það sé því rökvilla, hringsönnun, að segja að peningar séu baktryggðir af ríkisskuldabréfum. Ríkisskuldabréf séu sjálf baktryggð af peningum. Samkvæmt þessu séu peningar óbeint baktryggðir af sjálfum sér. Það geti ekki staðist (bls. 313).
Þetta er hugsanavilla. Höfundarnir gera ekki nægilegan greinarmun á nafnstærðum og raunstærðum. Allar rökvillur sem af því hljótast sýnist mér hafa gengið í arf til skýrslunnar hans Frosta. Ríki með peningaprentunarvald, sem gefur skuldir sínar út í eigin gjaldmiðli, er alltaf fært um að standa við nafnvirði skuldanna. Sá hluti sögunnar sem vantar í frásögn höfunda er að slíkt ríki getur ekki alltaf staðið skil á raunvirði þess sem það fékk upphaflega lánað.
Við verðlagningu ríkisskuldabréfa er yfirleitt miðað við núvirði tekjustraumsins sem þau kveða á um. Við núvirðinguna er notast við ávöxtunarkröfu sem byggist m.a. á verðbólguvæntingum. Skuldsetji ríkið sig svo mikið að augljóst þyki að aðeins verði staðin skil á skuldunum með umfangsmikilli peningaprentun, þá aukast verðbólguvæntingar. Það hækkar ávöxtunarkröfuna, sem lækkar verðmatið á ríkisskuldabréfum. Þau geta hrapað í verði. Jafnt bréf á eftirmarkaði sem hugsanleg ný skuldabréfaútgáfa ríkisins. Ríkisskuldabréf eru því ekki „baktryggð af peningum“. Peningaprentunarvald er ekki ávísun á óendanlega getu ríkisins til að skuldsetja sig.
Sé öll sagan sögð er hún svona: Peningaútgáfa seðlabanka er „baktryggð“ með ríkisskuldabréfaeign. Ríkisskuldabréf eru „baktryggð“ af raunverulegri framleiðslugetu þess hagkerfis sem ríkið hefur skattlagningarvald yfir, þ.e. getu ríkisins til að skattleggja verðmæti (raunvirði) úr hagkerfinu, en ekki bara peninga (nafnvirði).
Meðal annars þess vegna ætti að skrá svonefnt grunnfé sem skuldbindingar á efnahagsreikningi seðlabanka og láta ríkisskuldabréf koma á móti sem eignir. Hægt er að prenta takmarkalaust magn af fiat-peningum, ef vilji stendur til þess. Til að hindra það er sett skilyrði um að traustar eignir, helst ríkisskuldabréf, þurfi að koma á móti á efnahagsreikningi seðlabanka. Vilji ríkið gæta að lánshæfi sínu og halda uppi verði útistandandi skulda sinna á markaði, þarf það að gæta að sér í skuldasöfnun sinni. Það takmarkar framboð ríkisskuldabréfa. Þar með þarf seðlabankinn að gæta hófs í peningaprentun sinni, vilji hann forðast sitt eigið tæknilega gjaldþrot.
Brellan yrði leiðrétt utan frá
Látum nú sem svo að þjóðpeningar yrðu meðhöndlaðir sem „skuldlausir“ (e. debt free) í breyttu peningakerfi. Seðlabanki Íslands yrði þá eini seðlabanki heimsins sem neitaði að viðurkenna skuldbindingar sínar vegna peningaútgáfu. Utanaðkomandi aðilar myndu þá neyðast til að taka upp sérstakt mat á stöðu og afkomu hans. Þeir myndu líta á útgefinn efnahagsreikning hans, bæta svo við skuldbindingum sem nemur útgefnum þjóðpeningum og fá út hið raunverulega eigið fé bankans skv. þeim reikningsskilaaðferðum sem allir aðrir seðlabankar heimsins nota.
Jákvæð áhrif á lántökukostnað og lánstraust yrðu því engin. Líklega yrðu þau neikvæð vegna þess að Seðlabanki Íslands væri orðinn undarleg stofnun sem færir ekki skuldbindingar sínar til bókar og falsar þannig eiginfjárstöðu sína.
Skrattinn hittir ömmu sína
Hjá Samtökum um betra peningakerfi fylgjast menn spenntir með kæru Hagsmunasamtaka heimilanna sem ásaka stjórnendur allra banka og sparisjóða í landinu um refsiverða peningafölsun. Kæran, sem byggð er á misskilningi, gengur út á að með útgáfu óbundinna innstæðureikninga hafi allir bankar og sparisjóðir falsað peninga sem nemur um 400 milljörðum króna.
Með sanni má segja að skrattinn hafi hér hitt ömmu sína. Frosti Sigurjónsson og Samtök um betra peningakerfi mæla nefnilega á sama tíma fyrir því að bókfært eigið fé Seðlabanka Íslands verði „fiffað“ með ótækum bókhaldsaðferðum, sem nemur nákvæmlega sömu upphæð. 400 milljörðum króna.
Ég trúi því að ásetningur Frosta með ritun skýrslunnar hafi verið góður. Hún er hins vegar svo uppfull af misskilningi, hálfsannleik og rökvillum að réttast væri að draga hana til baka.
Höfundur er meistaranemi í þjóðhagfræði.