Ég bý í borg í Evrópu þar sem neysluhyggjan er ríkjandi líkt og víðast hvar í heiminum. Í borginni er auðvelt að breytast í „gráðugt jólafífl“, einsog poppdívan Leoncie lýsti á sinn einstaka máta. Á hverju götuhorni má kaupa mat af öllum stærðum og gerðum, hvort sem það eru ferskir ávextir á markaðnum, unnin matvara úr sjoppunni, ennþá unnari skyndibiti á skyndibitakeðjunum eða lífrænt úr búðinni sem selur einungis lífrænt. Og allt þar á milli. Sem sagt, hvert sem maður snýr sér blasir við matur. Framboðið er svo mikið að það getur vel talist ofgnótt. Þetta er gengið svo langt að McDonalds-keðjan er búin að setja upp sjálfsafgreiðsluframtíðarkassa á veitingastöðum sínum, til að gráðugar skyndibitaætur geti komist sem allra hraðast í staðlaða kjötslorið sem aldrei rotnar. Og til að bæta gráu ofan á svart er skyndibitinn ódýr, alveg hræódýr.
Vegna þessa offramboðs getur verið gríðarlega erfitt fyrir neytendur að velja rétt; þetta er ógreiðfær frumskógur og óhollar freistingar eru á hverju strái.
Gleypt við öllu
Yfirleitt á markaðssetning stóran þátt í að móta skoðanir almennings á vöruflokkum. Með réttri markaðssetningu er hægt að selja allt (sbr. Framsókn náði á þing, útvítt er komið aftur í tísku og þynnkupésar hópast ennþá í röðum á KFC á sunnudagsmorgnum).
En hvað hefur áhrif á valið? Yfirleitt á markaðssetning stóran þátt í að móta skoðanir almennings á vöruflokkum. Með réttri markaðssetningu er hægt að selja allt (sbr. Framsókn náði á þing, útvítt er komið aftur í tísku og þynnkupésar hópast ennþá í röðum á KFC á sunnudagsmorgnum). Fjöldi megrunarkúra sem poppa upp hver á fætur öðrum er orðinn meiri en blekkingar Mjólkursamsölunnar og væmnar auglýsingar dömubindaframleiðenda til samans. Alltaf gleypir fólk samt við nýjum kúrum. „Nei, nú er loksins komin töfralausnin,“ hugsa margir með sér þegar nýr kúr kemst í sviðsljósið. „Ég trúi því sko alveg að ef ég borða bara ótrúlega mikið af beikoni og rjóma en ekkert brauð og sleppi líka alveg ávöxtunum, þá verð ég ógeðslega mjó/mjór.“ (Þú grennist kannski tímabundið en hey, heilinn þarf líka kolvetni til að virka).
Fólk er í gríð og erg að baka gervikökur eða „flöff“ eins og það er kallað og nöfnin á efnunum sem notuð eru í uppskriftirnar eru svo flókin að enginn kann að bera þau fram. Ég tala nú ekki um fæðubótaefnin sem seljast í gríð og erg. Þetta kom glöggt fram í rannsókn framkvæmdri í New York sem RÚV geindi frá fyrir skömmu. Virku efnin sem sögð eru í umræddum vörum eru alls ekki alltaf til staðar, auk þess sem þau eru yfirleitt óþörf. Fólk fær undir venjulegum kringumstæðum öll nauðsynleg næringarefni úr fæðunni og líkaminn vinnur mun betur úr þeim fengnum úr fæðu en töflum og dufti. En þessi milljarða blekkingaiðnaður blæs samt út ár eftir ár.
Forvarnir gegn offitu
Stjórnlaus þrá almennings í töfralausnir til að spyrna gegn fitusöfnun sprettur vitaskuld ekki af engu. Eitt af stærstu heilsufarsvandamálum í heiminum er offita og þeir sjúkdómar sem henni fylgja. Tæpur þriðjungur allra jarðarbúa þjáist af offitu. Kostnaður vegna hennar er næstum sá sami og kostnaður vegna allra stríðsátaka í heiminum og afleiðinga reykinga til samans. Sumir fullyrða að offita annarra komi manni ekki við, en það er algjör fásinna að mínu viti. Í dag er kostnaður á Íslandi vegna offitu 5 – 10 milljarðar króna á ári, sem skattborgarar þurfa að greiða. Mataræðið, meðal annars, skiptir því sköpum fyrir þá sem vilja langlífi, fyrirbyggja hjartasjúkdóma og spara í heilbrigðiskerfinu. (Eitthvað sem þungavigtarmenn í ríkisstjórninni heima virðist ekki átta sig á). Þetta er þó flestum augljóst en fólk er tilbúið að leggja mismikið á sig og hinar ótal mörgu freistingar eru mörgum þungur baggi. Sjálfsafgreiðslukassarnir í draslmatinn leynast víðar en á McDonalds.
Með þessu er ég þó engan veginn að gera lítið úr erfiðleikum þeirra sem líða fyrir offitu, heldur aðeins að benda á að að offita er neyslutengt samfélagsmein sem unnt er að vinna bug á með aukinni meðvitund og margvíslegum aðgerðum.
Því þarf öflugt og markvisst forvarnarstarf gegn offitu alveg eins og vímuefnum og tóbaki. Sykur og skyndibiti ætti líka að vera dýr, alveg eins og tóbak og áfengi er dýrt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur hvatt til þess að dregið verði úr sykurneyslu og talar þar helst um sykur sem er falinn í matvörum og er stofnunin nú í átaki gegn offitu. Það er nefnilega svoleiðis að sykur heitir ekki bara sykur og það sem merkt er hollt er ekki alltaf hollt. Það er mikilvægt að vera gagnrýninn á umhverfið og ekki síst matarvalið. Notum almenna skynsemi, höldum vöku okkar og lesum vel innihaldslýsingar.
Höfundur er menntaður lífefnafræðingur og er með MA gráðu í markaðsfræði og Alþjóðaviðskiptum.