Velferð okkar í daglegu lífi byggir á samkomulagi. Í umferðinni, vináttunni, hjónabandinu, í lagasetningum, á vinnumarkaði og á vinnustöðum, reynir fólk almennt að haga málum þannig að ekki sé vísvitandi verið að kynda undir einhverju ófriðarbáli. Farsælt samfélag reynir að virða þá samskipasáttmála sem almennt eru viðurkenndir. Sú afstaða lágmarkar árekstra og skaða sem hlýst af yfirgangi og óvönduðum samskiptum.
Vorið 2020 voru fjölmargir kjarasamningar gerðir milli stéttarfélaga og atvinnurekenda á opinberum vinnumarkaði. Þar á meðal gerði Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu kjarasamninga við ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin. Í samningagerðinni náðist sátt um nýtt ákvæði og nýja launategund að kröfu atvinnurekenda þar um. Sú launategund sem sátt náðist um er nefnd önnur laun. Megin rökin fyrir hinu nýja ákvæði voru þau að með því yrði einfaldara fyrir atvinnurekendur að umbuna starfsmönnum umfram grunnlaunasetningu. Atvinnurekendur fylgdu kröfu sinni fast eftir og rök þeirra fyrir nýrri launategund voru þau að á vinnumarkaði sem er í stöðugri þróun með fjölbreyttum verkefnum, væri mikilvægt að geta verið með fjölbreytta ábyrgðar- og álagsþætti í einni launategund. Önnur laun yrðu þannig rammi utan um launaauka vegna fjölbreytileika í störfum og var samþykkt inn í kjarasamninginn sem heimildarákvæði. Auðvitað hafa launaaukar tíðkast hjá opinberum launagreiðendum og hefur það helst verið gert í formi óunninnar yfirvinnu. Nýja heimildarákvæðið var útfært í texta þar sem sagði; „Önnur laun geta verið vegna reglubundinnar yfirvinnu og starfstengds álags sem ekki verður mælt í tíma. ... Önnur laun taka ekki sjálfkrafa breytingum og með því er hvatt til samtals milli starfsmanna og stjórnenda“. Þannig var hugmyndin útfærð og þær forsendur gefnar að önnur laun væri niðurstaða úr reglubundnu launasamtali milli starfsmanns og stjórnanda, þar sem fram færi mat á ábyrgðarsviði og breytilegum verkefnum. Milli samningsaðila var þetta heimildarákvæði því skýrt í texta þannig að enginn misskilningur væri um tilgang þess og framkvæmd.
Við gerð kjarasamninga þurfa viðsemjendur einatt að komast að samkomulagi um merkingu einstakra samningsgreina, inntak þeirra og ekki síst framkvæmd. Þegar upp er staðið frá samningaborði og undirritaðir kjarasamningar liggja fyrir, verða samningsaðilar að geta farið með samningana í sitt bakland, útskýrt þá og rökstutt af hverju álitlegt sé að samþykkja þá. Til þess að þetta sé hægt þá verður að ríkja traust milli aðila og fullvissa um að hlutum sé ekki snúið á haus um leið og samningar eru samþykktir og komnir í framkvæmd. Samkomulagið sem gert er hverju sinni verður að halda og með því tryggt að sæmilegur friður haldist á vinnumarkaði eftir að samningar eru undirritaðir. Nú hefur Reykjavíkurborg ákveðið að fara fram með einhliða ákvörðun gagnvart starfsmönnum sínum og viðsemjendum, sem er andstætt öllum góðum samskiptavenjum milli aðila.
Það getur verið heppilegt að hafa skynsemi að leiðarljósi í samskiptum atvinnurekenda annars vegar launafólks og stéttarfélaga þeirra hins vegar. Til að svo geti orðið þurfa samningsaðilar að byggja brýr sín í millum, og þær brýr smíðaðar úr efni sem endist. Þar er traust aðal byggingarefnið. Efnið sem Reykjavíkurborg er nú að draga að sér er því miður ekki ætlað til að smíða brýr milli aðila. Líklegra er að borgin sé að safna í bálköst.
Höfundur er framkvæmdastjóri Sameykis.