Brauð, rósir og húsnæði

Formanni Eflingar finnst það fyrir neðan allar hellur að forseti lýðveldisins sé leigusali í Reykjavík, á þeim gróðavædda og grimmilega húsnæðismarkaði sem ráði ríkjum. Henni finnst það til marks um mikla stéttablindu.

Auglýsing

„No more the drudge and idler, ten that toil where one reposes,

But a sharing of life's glories, bread and roses, bread and roses.“

James Oppenheim, innblásinn af orðum baráttukonunnar Helen Todd.

Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er fjallað um þá staðreynd að íslensku forsetahjónin eru þátttakendur á reykvískum leigumarkaði en þau leigja út nýkeypta íbúð sína í Vesturbæ borgarinnar á 265.000 krónur á mánuði, auk húsgjalda sem eru 24.000 krónur til viðbótar. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að þau sjálf hafa enga skoðun á upphæð leigunnar aðra en að vilja fá „markaðsverð“. Meðalleiguverð sambærilegra íbúða er 217.000 krónur. Í umfjöllun Stundarinnar kemur einnig fram að laun forseta eru 3.173.055 krónur á mánuð sem jafngildir níföldum lágmarkslaunum þeim sem greidd eru á Íslandi. Forsetinn gefur svo 300.000 krónur á mánuði af launum sínum í ölmusu.

Í nýju yfirliti sviðs stefnumótunar og greiningar hjá Alþýðusambandi Íslands, sem birtist sama dag og umfjöllun Stundarinnar um forsetahjónin sem leigusala, er fjallað um þróun húsnæðismarkaðar á Íslandi. Þar kemur fram að ekkert dregur úr hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Nú er svo komið að 85 fermetra íbúð kostar 12-föld árslaun þeirra sem strita fyrir lægstu launin í lýðveldinu (til dæmis fólkið sem starfar við umönnun barna og aldraðra, að langstærstum meirihluta konur).

Einnig kemur fram að íslenskur húsnæðismarkaður tók miklum breytingum í kjölfar þess atburðar sem kallaður hefur verið Hrunið; verulega hefur fjölgað í hópi leigjenda, sérstaklega af fólki með lág laun en nú er tæpur helmingur heimila í neðsta tekjufimmtungi í leiguhúsnæði. Það hlutfall hefur nær tvöfaldast á einum áratug. Á árunum 2013 til 2019 hækkaði leiguverð um 57% sem er með því mesta sem orðið hefur innan ríkja sem tilheyra OECD, og fyrst OECD er hér nefnt má geta þess að stofnunin hefur áhyggjur af þróun húsnæðismála, til að mynda því að sífellt fleiri búa við svokallað þröngbýli. Í reykvískum samtíma er það svo að mest aukning hefur orðið í þröngbýli hjá þeim heimilum sem tilheyra neðsta tekjufimmtungi. Þetta kemur fram í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem vitnað er til í yfirlitinu frá ASÍ. Í yfirliti ASÍ segir jafnframt frá því að hópur fólks búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað, þ.e. þegar meira en 40% af ráðstöfunartekjum fara í að tryggja þak yfir höfuðið. Ljóst er að félagsfólk Eflingar á lægstu launum sem leigir er að borga miklu meira en 40% af ráðstöfunartekjum í leigu. Það veit ég bæði vegna þess að ég get dregið þá ályktun með því að skoða þau gögn sem liggja fyrir um laun annarsvegar og leiguverð hinsvegar, og einnig vegna þess að ég hef talað við fjölda fólks sem hefur sagt mér hvernig það er að hafa tæplega 300.000 krónur í ráðstöfunartekjur og þurfa að greiða ríflega 200.000 krónur á mánuði í leigu.

Auglýsing

Samdráttur er í byggingu íbúðarhúsnæðis; samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins er hann 20% á síðustu 12 mánuðum. Hagstofan spáir því að enn dragi saman á árinu (á síðustu 12 mánuðum hefur líka dregið mjög úr framboði á eignum til sölu á höfuðborgarsvæðinu, eða um 58,4%). Þetta eru slæmar fréttir (fyrir þau sem selja aðgang að vinnuaflinu sínu til að komast af, ekki fyrir fjárfesta, spákaupmenn og eignafólk); þegar búa 5000 – 7000 manneskjur, m.a. hátt í 1000 börn í svokölluðum óleyfisíbúðum, húsnæði sem ekki er ætlað sem heimili en er skipulagt fyrir atvinnustarfsemi, vegna þess skorts á húsnæði sem til staðar er á höfuðborgarsvæðinu. Svo býr hópur fólks í húsnæði sem er löngu ónýtt og ætti að vera ólöglegt að leigja, líkt og húsinu á Bræðraborgarstíg þar sem 3 ungar manneskjur, aðflutt verkafólk, missti líf sitt í eldsvoðanum síðasta sumar og annað fólk slasaðist hræðilega og/eða missti aleiguna.

Hér er kannski tímabært að segja frá því að einungis 50,6% félagsfólks Eflingar býr í eigin húsnæði.

Fyrir ekki svo löngu síðan var í samfélagi okkar einhverskonar samþykki um að bjóða skyldi vinnuaflinu upp á möguleika á húsnæði sem um giltu félagsleg lögmál, en ekki grimmileg lögmál markaðarins. Fyrstu lögin um Verkamannabústaði voru samþykkt árið 1929, 15 árum áður en lýðveldið Ísland varð til. Uppbygging félagslegs húsnæðis var séð sem hvorutveggja mikilvæg aðgerð til að koma fjölskyldum í öruggt, mannsæmandi húsnæði og sem atvinnuskapandi aðgerð fyrir verkamenn. Á tuttugustu öldinni var félagslegt húsnæði hluti af innviðum í þeim löndum sem kenndu sig við velferð (ég er alin í upp í verkamannabústöðum ásamt fjölda annars fólk sem löngu er komið til vits og ára í þessu frjálsa og fullvalda ríki). Árið 1998 rústuðu Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur verkamannabústaðakerfinu og fyrir þau okkar sem eru áhugafólk um íslenska samtímasögu er merkilegt að lesa lokaorð Jóhönnu Sigurðardóttur þegar frumvarp Páls Péturssonar félagsmálaráðherra Framsóknar var samþykkt á Alþingi. Hún sagði m.a. þetta: „Orrustan er töpuð en stríðið ekki. Þó flagg félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum láglaunafólks verði nú fellt í þessari atkvæðagreiðslu mun það rísa á nýjan leik þegar jafnaðarmenn komast til valda. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem með svo ómannúðlegum, grimmum og miskunnarlausum hætti ræðst á húsnæðisöryggi þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu. Ég segi nei.“

En þeir sem réðu hlustuðu ekki á Jóhönnu sem sannarlega vissi sínu viti í þessu máli, og sögðu já. Möguleikinn á því að komast í mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði hafði verið fjarlægður frá stórum hópi fólks og markaðsöflin tóku við að vöru og gróðavæða allt húsnæði, algjörlega óhindrað. Hin einbeitta gróðavæðing hefur auðvitað haft miklar afleiðingar og ein af þeim er sú að frá upphafi fyrsta áratugar þessarar aldar hefur húsnæðiskaupmáttur fólks á þrítugsaldri lækkað um 46%.

Síðan að Jóhanna fordæmdi aðgerð útsendara alræðis auðstéttanna á þingi hafa liðið mörg ár. Íslenskt samfélag hefur breyst ótrúlega mikið. Nú er svo komið að sú skoðun að fráleitt sé að allt húsnæði verði undirselt markaðslögmálunum vegna þess að þak yfir höfuðið sé grunnþörf mannfólks virðist jaðarskoðun; sópur nýfrjálshyggjunnar feykti sannleikanum um að verka og láglaunafólk ætti sama rétt á því að upplifa öryggi þegar kemur að þaki yfir höfuðið og þau sem ofarlega dvelja í stigveldi stéttskiptingarinnar á öskuhauga sögunnar. Með sigurför lögmála nýfrjálshyggjunnar yfir tilveru okkar hefur pólitísk valdastétt fyrir löngu gefið upp á bátinn þá hugmynd að þau sem strita fyrir launum eigi mannréttinda-legt tilkall til húsnæðis. Og fjármagnseigendur nota vöruvæddan húsnæðismarkaðinn sem eina af sínum mikilvægustu spákaupmennsku gróðauppsprettum. (Hér hef ég ekki rekið siðferðilega og pólitísk óverjandi aðkomu kapítalískra félaga eins og GAMMA að húsnæðismarkaði, en þeir sem þeim stýrðu höfðu það beinlínis sem markmið sitt að sjá hversu langt þeir gætu komist með að hækka leigu).

Á íslenska COVID-árinu hefur eitt komið í ljós með skýrum hætti og hægt er að hugsa sér: Stéttskiptingin sem fengið hefur að vaxa og dafna óáreitt á Íslandi á síðustu árum og áratugum hefur náð að festa svo djúpar rætur að þau sem komið hafa sér fyrir efst í stigveldinu þurfa ekki einu sinni lengur að láta eins og hún sé eitthvað til að ræða. Hvað þá að berjast gegn. Stéttskiptingin er orðin svo sjálfsögð og eðlileg að hún er einfaldlega viðurkenndur hluti af íslensku samfélagi. Á höfuðborgarsvæðinu vita öll sem eitthvað vita að ekkert lýsir stéttastöðu fólks betur en húsnæðiskostur. Og þegar slæm staða stórs hóps félagsfólks Eflingarfólks er skoðuð leikur enginn vafi á því að reykvískur húsnæðismarkaður er það risavaxinn orsakavaldur. 41,4% Eflingarkvenna meta andlega heilsu sína slæma; ég er tilbúin til að fullyrða að það skelfilega álag sem fylgir því að þurfa að sjá á eftir nær öllum sínum ráðstöfunartekjum í það verkefni að njóta þaks yfir höfuðið gerir þessir konur veikar á sálinni af áhyggjum. Þær eru fastar, fangar daganna sem líða í endalausri sölu á vinnuaflinu þeirra fyrir laun sem þær og fjölskyldur þeirra fá samt ekki að njóta.

Þau sem óumdeilanlega skapa verðmæti þjóðfélagsins með vinnu sinni og þau sem sinna grundvallarhlutverki í samfélagi okkar sem ómissandi starfsfólk í umönnunarstörfum hafa verið gerð að töpurum reykvísks húsnæðismarkaðar. Þau hafa verið sett í þessa stöðu af fólki sem sjálft skapar engin raunveruleg verðmæti, en telur sig þó þess umkomið að ráða öllu, eiga allt, njóta alls. Þetta fólk lætur eins og þeim komi aðstæður verka og láglaunafólks einfaldlega ekki við. Þetta fólk lætur eins og tryggð þeirra við lögmál markaðarins sé ekkert annað en eðlileg viðurkenning á tilvist náttúrulögmála. En fyrir okkur sem búum utan við speglasalinn er augljóst að trú þeirra á „náttúrulögmál“ arðránskerfisins er einfaldlega tilkomin vegna þess að þau eru sigurvegarar kerfisins; líkt og franskir kóngar ráfa þau um hallargarðinn; það er náttúrulögmál ef það lætur mér líða vel.

Ég veit að þegar kemur að forsetanum í hlutverki leigusala á ég að vera „skynsöm“ og halda kjafti. En í mínum huga er ekkert óskynsamlegra en að viðurkenna kröfuna um meðvirkni með ruglinu sem viðgengst í íslensku þjóðfélagi sem réttmæta og hlýða henni. Í mínum huga er ekkert óskynsamlegra en að viðurkenna ekki hið augljósa: Vinnuaflið sem heldur uppi samfélaginu með vinnu sinni hefur verið dæmt til að tapa í leik svindlara sem samið hafa leikreglurnar með þeim hætti að fyrirfram er ákveðið hverjir tapa og hverjir vinna. Fórnarkostnaðurinn sem fólki er gert að greiða eftir að hafa tapað er raunverulegur og hefur grafalvarlegar afleiðingar. Og það er viðurkenna ekki sjúkleika kerfisins, og benda ekki á þá við öll tækifæri er krafa um hugleysi. Og ég ætla ekki verða við henni.

Í síðasta áramótaávarpi sagði forsetinn þetta: „Senn fær þjóðarskútan vind í seglin, um það er ég handviss.“

Eflaust er þetta rétt hjá honum. Um leið og landamæri opnast og ferðamenn byrja að streyma hingað á ný verður byrjað að kynda ofnana og leggjast á árarnar um borð í þjóðarskútunni. Og þau sem það munu gera er sama fólkið og dvelur á þriðja farrými skútunnar, á meðan þau sem njóta afraksturs áraslaganna dvelja á fyrsta farrými, með bókstaflega allt til alls og engar peningaáhyggjur, ekkert þröngbýli, enga nagandi vissu um að svona sé lífið einfaldlega; „æviárin hverfa út á tímans gráa rökkurveg“ við strit og erfiðleika, og algjört og ískalt vanþakklæti þeirra sem allt eiga og öllu ráða.

Þetta er mín skoðun: Mér finnst það fyrir neðan allar hellur að forseti lýðveldisins sé jafnframt leigusali í Reykjavík, á þeim gróðavædda og grimmilega húsnæðismarkaði sem hér ræður ríkjum. Mér finnst það til marks um mikla stéttablindu. Ástæður mínar fyrir þeirri skoðun eru málefnalegar og byggja á staðreyndum úr reykvískum samtíma. Þær byggja á staðreyndum úr lífi félagsfólks Eflingar. Ekkert fær mig til að breyta þessari skoðun. En ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að breyta þessu samfélagi, svo að ræðarar þjóðarskútunnar, hér fædd og hingað flutt, fái loksins það sem þau eiga inni, meðal annars og ekki síst mannsæmandi húsnæði á sanngjörnum kjörum.

Höfundur er formaður Eflingar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar