Að undanförnu, eins og svo oft undanfarin tvö ár, hafa sögur af samskiptum notenda og aðstandenda við heilbrigðiskerfið verið plássfrekar í fjölmiðlum hér á landi. Iðulega er ákall notenda og aðstandenda um betri þjónustu rauður þráður í þessum sögum. Þær eru persónulegar og snerta við samkennd okkar. Við upplifum ekki sömu líðan en finnum til með þeim sem um ræðir og látum okkur annt um og viljum gera það sem í okkar valdi stendur til að breyta og bæta líðan þeirra.
Heilbrigðiskerfið hefur á grunni okkar göfugu samtryggingarhugsjónar staðið frammi fyrir áskorunum allt frá lýðveldisstofnun. Það er verkefni fulltrúa okkar, þeirra sem þjóna fyrir okkar hönd innan löggjafans, að vega og meta almannaheill við frjálsan vilja einstaklingsins og í kjölfarið takmarka það frelsi svo almannaheill sé tryggð. Þetta mat endurspeglast svo í löggjöf okkar, reglugerðum, stefnum, áætlunum og leikreglum almannaþjónustunnar.
Það virðist erfitt að breyta og jafnvel hafa áhrif á stjórn- og þjónustukerfi almannaþjónustunnar. Þau eru um of margt bundin í margar skipulagsheildar; stofnanir og sveitarfélög. Menning þeirra heilda litast iðulega af gildum „öryggis“ og „reglu“ sem getur þýtt að heildin á erfitt með að bregðast hratt við breytingum og starfsfólk er bundið umboði til athafna frá stjórnendum. Stjórnendurnir sem kunna að eiga erfitt með að deila umboði og hafa e.t.v. sjálfir ríka stjórnunarþörf.
Mig langar að vekja athygli fulltrúa okkar, sérstaklega þeirra sem fara fyrir meirihluta, leiða samfélagið og almannaþjónustuna, á fjórum grundvallarþáttum þegar kemur að því að bæta geð-heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Grundvallarþáttum sem þarf að endurskoða og taka ætti tillit til við gerð opinberrar geðheilbrigðisstefnu fyrir Ísland árin 2022-2030.
Fyrsti þáttur: Að endurskilgreina hver veitir þjónustuna og hver greiðir fyrir hana?
Ferhyrningur þjónustu og fjármögnunar (mynd 1.) er þekktur þegar kemur að því að meta hvar almannaþjónustu skuli komið fyrir. Hver á að veita þjónustuna og hver á að greiða fyrir hana? Þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustunni er bráða- og sjúkrahúsþjónusta hennar öll innan opinbera kerfisins en lengri tíma- og viðhaldsmeðferð er skipt á milli opinbera- og einkakerfisins. Þegar kemur að endurhæfingu koma allir þrír hlutar kerfisins, hinn opinberi (e. public), einka (e. private) og borgaralegt samfélag (e. civil society), að framkvæmd þjónustunnar. Í nýrri geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda þarf að endurspeglast hvernig framtíð og útfærslu við sjáum fyrir okkur þegar kemur að því hver á að veita þjónustuna og hver að greiða fyrir hana. Viljum við t.a.m. að frjáls félagasamtök veiti heilbrigðisþjónustu sem er fjármögnuð af almannafé? Hvaða hluta eiga sveitarfélögin að sjá af þjónustu hins opinbera? Geta þau tekið við auknum hluta af opinberri nærþjónustu? Nú er skipting opinberrar þjónustu á Íslandi 27% hjá sveitarfélögum og 73% hjá ríki á meðan meðaltal sömu skiptingar í Evrópuríkjum er nær 50/50.
Annar þáttur: Að auðvelda samstarf á milli þjónustustiga og starfrækja þjónustu á forsendum notenda
Í Heilbrigðisstefnu stjórnvalda til 2030 er lögð áhersla á „rétta þjónustu á réttum stað“ sem hluta af framtíðarsýn stefnunnar. Þar er heilsugæslan skilgreind sem fyrsta stigs, sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa annars stigs og sjúkrahúsþjónusta sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta. Þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustunni er mikilvægt að endurskoða þjónustuna í heild sinni og á hvaða stigi eigi að veita hana og í umboði hverra. Markmið þessarar endurskoðunar er að brjóta niður veggi og auðvelda samstarf með það að leiðarljósi að þjónustan sé fyrst og fremst starfrækt fyrir notendur og aðstandendur þeirra en þróist ekki eingöngu á forsendum þjónustuveitenda.
Þriðji þáttur: Að jafna hlut geðheilbrigðis (~ 12%) í heildarfjármögnunar heilbrigðismála og hlutfall geðheilbrigðis (~ 30%) í heildarumfangi heilbrigðisþjónustu
Það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að um langt árabil hafa geðheilbrigðismál verið undirfjármögnuð á Íslandi. Umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins er áætlað um 30% en fjármagnið sem veitt er til hans er á sama tíma áætlað í kringum 12% af heildarfjármagni sem rennur til heilbrigðismála. Þegar búið er við slíka undirfjármögnun í ár og jafnvel áratugi er ljóst að eitthvað lætur undan. Þess ber að geta að þessi staða var uppi áður en Covid faraldurinn skall á fyrir tveimur árum. Ef ráðast á í að breyta og ná framförum hvað viðvíkur hugmyndafræði, strúktúr og menningu geðheilbrigðiskerfisins umfram hefðbundið viðbragð þarf að endurskoða fjármögnun og jafna hlutfall umfangs og fjármögnunar.
Fjórði þáttur: Að taka ákvörðun um að breyta hugmynda- og aðferðafræði meðferða
Hugmynda- og aðferðafræði um meðferðir í geðheilbrigðismálum þarfnast endurskoðunar. Við ættum að vera opin fyrir nýjungum við meðferðum sem eru vel þekktar í löndunum í kringum okkur. Má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (e. open dialogue), skjólshús o.fl. Það ætti í raun að heyra til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild, en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin. Framtíð þar sem saman koma nýsköpun, aukið vægi notenda, stóraukin samfélagsgeðþjónusta og endurskoðuð og umfangsminni sjúkrahúsþjónusta, samhliða endurskoðuðum greiningarviðmiðum og stóraukinni áherslu á geðrækt og styrkleikaþætti mannsins. Við eigum markvisst að láta heilbrigðismál snúast meira um heilbrigði en veikindi, frávik og raskanir. Færa áhersluna frá vandanum, hvað sé að, og nær orsökum um hvað hafi komið fyrir.
Við eigum að þjónusta sem flesta í samfélaginu á fyrsta stigi, í heilsugæslunni og á öðru stigi, sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa. Á milli þessara stiga á að vera öflugt samstarf, þannig er framþróun samfélagsgeðþjónustu. Þessi nálgun hefur svo áhrif á það hversu stórar byggingar þarf fyrir þriðja hluta þjónustunnar.
Niðurstaða: Breytingar eru forsenda framþróunar
Geðheilbrigðisþjónusta hefur að mínu mati dregist aftur úr annarri heilbrigðisþjónustu hér á landi, hún byggir enn að hluta á gamaldags aðferðum og líður fyrir að ekki er skýrt hver á að veita hana. Þau sem glíma við geðheilbrigðisáskoranir eigi líkt og allir aðrir sjúklingar að geta leitað til sinnar heilsugæslu eftir meðferð. Sömuleiðis má það ekki vera þannig að þau sem þurfi á sálfræði- eða geðþjónustu að halda, geti þurft að láta eigin efnahag stýra því hvort þau hafi efni á aðstoð eður ei.
Við þurfum breytta og endurbætta almannaþjónustu þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Nú er tíminn til að móta stefnu næsta áratugar saman.
Höfundur er formaður Geðhjálpar.