Þann 24. apríl næstkomandi munu Frakkar kjósa forseta sinn til næstu fimm ára. Í fyrri umferðinni sem fór fram 10. apríl voru Emmanuel Macron og Marine Le Pen atkvæðamest meðal tólf frambjóðenda og munu því endurtaka leikinn frá því fyrir fimm árum þegar þau tvö mættust í seinni umferð kosninganna. Það væri þó hæpið að segja að lítið hafi breyst síðan þá, en í fyrri umferð yfirstandandi kosninga hlutu öfgaöfl af hægri og vinstri væng stjórnmálanna, þar með talinn flokkur Le Pen, samanlagt 58% atkvæða – úr tæpum helming árið 2017. Gömlu stórflokkarnir tveir, sósíalistar og repúblikanar, biðu sögulegt afhroð er þeir hlutu samanlagt tæp 8% atkvæða. Öfgavæðing stjórnmálanna virðist komin til að vera.
Macron hlaut góða kosningu í fyrri umferð og fékk 28% atkvæða gegn 23% Le Pen. Er það fjórum prósentustigum meira en hann hlaut árið 2017 og hæsta hlutfall sitjandi forseta síðan 1988. Þessi góða útkoma kann að skýrast af bættri stöðu efnahagsmála á kjörtímabilinu, með aukinni framleiðni og minnkandi atvinnuleysi í landinu. Þá hefur Macron tekist ágætlega að fylla það tómarúm sem Angela Merkel skildi eftir sig sem eiginlegur leiðtogi Evrópusambandsins á alþjóðasviði.
Emmanuel Macron hefur hins vegar ekki verið óumdeildur forseti. Eftir sannfærandi sigur árið 2017 voru miklar væntingar til hans og ætlaði hann sér að umbylta frönskum stjórnmálum og endurvekja trú almennings á þeim með sínum nýja „hvorki vinstri né hægri“ flokki, La République en Marche. Það átti þó alltaf eftir að verða brött brekka fyrir Macron sem er mótaður í því umhverfi sem alið hefur af sér franska stjórnmálamenn um langa hríð. Eftir menntaskólapróf úr hinum virta Lycée IV lá leiðin í háskólana Sciences Po og ENA, þar sem sex af átta forsetum fimmta lýðveldisins hafa stundað nám. Við tók starfsferill hjá fjármálaráðuneytinu og Rothschild bankanum þangað til hann tók við ýmsum embættum í ríkisstjórn François Hollande, þar á meðal embætti fjármálaráðherra.
Í ljósi þessa vilja margir meina að forsetinn sé haldinn ákveðinni forréttindablindu. Með fyrstu fjárlögum hans var auðlegðarskattur sem lagður hafði verið á þá tekjuhæstu lagður niður, og eftir einungis eitt ár á forsetastóli hófu gulvestungar að mótmæla ákvörðun hans um að skattleggja eldsneyti – en það kom einkar illa niður á fólki utan stórborga þar sem almenningssamgöngur eru af skornum skammti. Þá sætti það gagnrýni þegar Macron sagðist hyggjast „gera óbólusettum lífið leitt“ í tengslum við bólusetningarátak í heimsfaraldrinum og þóttu þau ummæli bera merki um yfirlæti forsetans. Einnig vakti það athygli þegar hann las yfir táningi á opinberum viðburði eftir að sá síðarnefndi hafði kallað forsetann „Manu“ (algeng stytting á nafninu Emmanuel): „Þetta mátt þú ekki. Þú kallar mig herra forseta,“ svaraði hann um hæl í ákveðnum tón. Eru þetta einungis fáein dæmi um óheppileg ummæli sem forsetinn hefur látið falla og hafa orðið tilefni umræðu um að hann sé fjarlægur fólkinu og jafnvel hrokafullur.
Marine Le Pen, leiðtogi öfgahægriflokksins Rassemblement National, er talin eiga raunhæfa möguleika á að sigra í kosningunum – en þó minni en Macron. Hún hefur síðastliðin fimm ár reynt að hrista af sér það neó-fasíska orðspor sem faðir hennar kom á flokkinn sem stofnandi og leiðtogi hans til margra ára. Til að höfða til breiðari hóps hefur harðlínustefnu flokksins gegn ESB aðild verið snúið upp í vilja til að fara í yfirgripsmiklar umbætur á sambandinu. Flokkurinn aðhyllist þó enn harðlínustefnu í innflytjendamálum og vill til að mynda binda enda á rétt þeirra sem fæðast í Frakklandi til að öðlast sjálfkrafa ríkisborgararétt. Þá vill hún banna andlitsblæjur múslima og gefa frönskum ríkisborgurum forgang að félagslegum úrræðum og atvinnutækifærum. Augljóst er að slíkar ívilnanir fyrir eina útvalda þjóð innan ESB stangast á við jafnræðisreglu sambandsins og aðrar grunnhugsjónir þess.
Á næstu dögum munu báðir frambjóðendur reyna að höfða til þeirra sem ekki kusu þá í fyrstu umferð. Bæði eiga þau það sameiginlegt að ná ekki sérstaklega vel til vinstri sinnaðs fólks, ungs fólks og umhverfissinna. Það var róttæki vinstrimaðurinn Jean-Luc Mélenchon sem tók þessi atkvæði til sín í fyrri umferð en hann hlaut flest atkvæði meðal unga fólksins og tæp 22% í heildina, og var því rúmu einu prósentustigi frá því að fella út Le Pen sem mótframbjóðanda Macron í seinni umferð. Le Pen hefur nú þegar hafist handa við að vísa á bug ásökunum um að hún sé efasemdarmanneskja í loftslagsmálum, og Macron hyggst nú leggja aukna áherslu á loftslagsmál með því að færa málaflokkinn yfir til forsætisráðuneytisins.
Hvort þessi breytta taktík muni sannfæra ungt fólk, eða fá það yfir höfuð til að mæta á kjörstað, er ekki víst. Mélenchon hefur hvatt kjósendur sína til að kjósa ekki Le Pen, en hefur á hinn bóginn ekki lýst yfir stuðningi við Macron. Slík ákvörðun hefur áður reynst örlagarík í franskri stjórnmálasögu. Árið 1981 neitaði Jacques Chirac, sem endað hafði í þriðja sæti, að lýsa yfir stuðningi við sitjandi forseta og félaga sinn úr hægri samsteypustjórninni, Valéry Giscard d‘Estaing; með þeim afleiðingum að sósíalistinn François Mitterrand bar óvænt sigur úr býtum með 52% gegn 48% atkvæðum d‘Estaing.
Hlutfall þeirra sem sátu heima í fyrri umferðinni þann 10. apríl síðastliðinn er það hæsta síðan 2002, þegar faðir Marine, Jean-Marie Le Pen, komst óvænt í aðra umferð kosninganna. Sú kosning vakti óhug meðal margra og franska þjóðin svaraði með því að mynda svokallaðan lýðræðisskjöld – front républicain – til að koma í veg fyrir að öfgahægrið næði völdum. Úr varð svo að Chirac, þá sitjandi forseti, hlaut sannfærandi endurkjör með 82% atkvæða. Ekki er víst að fólk muni fylkjast á sama hátt á kjörstað þann 24. apríl næstkomandi, en fyrir marga á vinstri vængnum yrði það stór biti að kyngja að halda út fimm ár í viðbót af Macron.
Ljóst er að kjósendur í Frakklandi hafa á milli tveggja valkosta að velja. Annar talar fyrir frjálslyndi, hinn fyrir þjóðernishyggju. Annar fyrir alþjóðasamvinnu, hinn fyrir einangrunarstefnu. Annar hefur talað fyrir og leitt samstillt svar Evrópuþjóða gegn ofríki Pútíns, hinn leiðir flokk sem stendur í skuld við rússneska ríkið um níu milljón evra lán sem hann þáði til að há kosningabaráttu. Takist Macron að sigra í kosningunum í annað sinn mun hans bíða það flókna hlutverk að draga úr því stigmagnandi vantrausti sem þjóðin hefur á stjórnmálum í landinu. Nái hann því ekki er ekki víst að þjóðin leyfi frjálslyndinu að njóta vafans að fimm árum liðnum.
Höfundur stundar meistaranám í Evrópufræðum við Sciences Po og er starfsnemi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París.