Dirfska, skynsemi eða móðgun við vísindin? – Ný loftslagsstefna Evrópusambandsins

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB varða Ísland miklu enda á það ásamt Noregi aðild að loftslagsstefnu sambandsins, skrifar formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Lagabreytingar sem ráðast verði í til að ná 55 prósent samdrætti þurfi að innleiða hér.

Auglýsing

Fyrr í þessari viku kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagafrumvarp um aðgerðir í loftslagsmálum; aðgerðir til að ná markmiðum Parísarsamningsins fyrir 2030. Tillagan byggist á nýjum lögum um loftslagsmál sem samþykkt voru í vor. Megininntak þeirra er að losun gróðurhúsalofttegunda skal minnka um 55% að meðaltali í aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2030 miðað við 1990. Það er lögbundið markmið. Um er að ræða tillögur að lagabreytingum sem þurfa að fara í gegnum nálarauga samninga við Evrópuþingið og ráðherraráðið (fulltrúar aðildarríkjanna)

Fram kemur að losun gróðurhúsalofttegunda innan sambandsins hafi þegar minnkað um 24% miðað við 1990.

Hlýnun um 1,5 °C

Umhverfisverndarsamtök og vísindamenn benda á að hið raunverulega markmið Parísarsamningsins sé ekki að draga úr losun um 55% heldur að takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 gráður á Celsíus. Í því ljósi dugi ekki samdráttur um 55%. Samdráttur um 65% væri nær lagi. Á síðasta ári samþykkti Evrópuþingið ályktun um að draga verði úr losun um 60% í ríkjum Evrópusambandsins miðað við 1990. Greta Thunberg þreytist ekki á að minna heimsleiðtogana á að fara að ráðum vísindamanna; þau ráð sem sem langflestir stjórnmálamenn segjast taka fullt mark á. Í því ljósi duga ekki 55%. Ekki heldur til að stöðva súrnun sjávar ef út í það er farið.

Auglýsing

Tillagan nær einnig til Íslands og Noregs

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar varða Ísland miklu enda á Ísland ásamt Noregi aðild að loftslagsstefnu Evrópusambandsins. Lagabreytingar sem ráðast verður í til að ná 55% samdrætti þarf einnig að innleiða hér á landi.

Þátttaka Íslands og Noregs í loftslagsstefnu ESB má kalla eins konar auka-aðild að Evrópusambandinu enda tekur hin nýja tillaga framkvæmdastjórnarinnar til margra geira efnahagslífs bæði hér á landi og í Noregi.

Í Noregi brást loftslags- og umhverfisráðherrann, Sveinung Rotevatn, snöfurmannlega við og fagnaði tillögum framkvæmdastjórnarinnar. Hann sagði Noreg í engu myndu verða eftirbátur Danmerkur eða Svíþjóðar.

Í viðtali við NRK sagði Sveinung Rotevatn: „Þegar við fáum að sjá hversu mikill samdrátturinn verður í Danmörku og Svíþjóð má treysta því að Noregur mun að lágmarki draga jafnmikið úr losun.“ Ráðherrann upplýsti að norsk stjórnvöld hefðu átt fjölda funda með æðstu ráðamönnum ESB til að koma sjónarmiðum Norðmanna á framfæri.

Þögn stjórnarráðsins

Íslensk stjórnvöld virðast utanveltu. Engin viðbrögð hafa komið fram af hálfu stjórnarráðsins. Fullvíst má telja að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi átt í samtölum við framkvæmdastjórnina í Brussel – eins og norskir framámenn – en engum sögum fer af gangi mála. Slík þögn er ekki góðs viti.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur upplýst að ákveðið hafi verið að auka samdrátt í losun hér á landi: „Úr núverandi markmiði um 40% samdrátt m.v. árið 1990 í 55% eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi“. Vísbendingar eru um að Ísland verði að auka samdrátt í losun um a.m.k. 11 prósentustig, úr 29% samdrætti árið 2030 miðað við 1990 í 40%. En ekki í 55%, hvað þá 65%.

Hafa ber í huga að tillaga framkvæmdastjórnarinnar felur í sér miklar breytingar á gildandi lögum og því erfitt að segja fyrir um hver áhrifin verði hér á landi. Það afsakar þó ekki þokukennd ummæli ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Stærsta breytingin

Stærsta breytingin verður að sá sem mengar borgar – mun meira. Það skal gert með útvíkkun á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS), sem hefur að markmiði að losunarheimildum á markaði fækki ár frá ári. Þar með eykst kostnaðurinn fyrir að menga. Þau fyrirtæki sem geta dregið úr þessum kostnaði hagnast en þau sem ekki geta minnkað sína losun verða að greiða sífellt meira.

Nú er ætlunin að ETS-kerfið eða ný sams konar viðskiptakerfi nái til mun fleiri geira atvinnulífsins, svo sem vegasamgangna, skipaumferðar og orkunotkunar í fasteignum. ETS-kerfið starfar þvert á landamæri, þannig að losun sem það nær til telst ekki með losun sem ríkin bera ábyrgð á hvert um sig.

ETS-kerfið hefur virkað vel við að draga úr losun frá orkuframleiðslu með kolum, sem hefur minnkað um þriðjung. Á hinn bóginn hafa fyrirtæki sem framleiða sement, stál og ál fengið umtalsverðan afslátt í formi ókeypis losunarheimilda, með þeim rökum að ella yrði framleiðslan flutt til Kína, sem kallað hefur verið kolefnisleki. Í þessum geirum hefur losunin ekki minnkað að ráði.

Markmiðið fyrir ETS-kerfið verður hækkað úr 43% samdrátt árið 2030 í 61% minni losun sama ár. Umhverfisverndarsamtök segja að 70% samdráttur sé lágmark.

Ríki bera áfram ábyrgð

Í núverandi kerfi eru samgöngur á landi stærsti þátturinn í þeirri losun sem Ísland ber beina ábyrgð á, en samgöngur munu að hluta fara undir kvótakerfi. Hvernig ábyrgð ríkja verður er ekki ljóst. Dýrara verður að aka mengandi bílum – er hugsunin.

Jafnframt leggur framkvæmdastjórnin til að flugfyrirtæki greiði gjald fyrir eldsneytisnotkun sína. Bent hefur verið á að ekki gangi að farþegi greiði orkuskatt af lestarmiða en ekki af flugmiða.

Losun frá landi

Í frumvarpi framkvæmdastjórnarinnar er kveðið á um að ríkin beri sameiginlega ábyrgð á minnkun losunar eða aukinni bindingu kolefnis. Sett verður almennt markmið um samdrátt í losun frá landi sem nemur 310 milljón tonnum af koltvísýringi næstu 10 árin. Evrópusambandið stefnir að kolefnishlutleysi árið 2035 í þeim geirum sem heyra undir landnotkun, skóghirðu og landbúnað.

Á tímabilinu 2026 – 2030 verður aðildarríkjunm heimilt að draga frá bindingu / minnkun í losun vegna breyttrar landnotkunar en einungis upp að vissu marki. E.t.v. það numið 2,5 prósentustigum af þeim 55 prósentum sem stefnt er að.

Þrír milljarðar trjáa

Það kom nokkuð á óvart að framkvæmdastjórnin lagði til að plantað verði þremur milljónum trjáa fyrir árið 2030. Skilyrði er þó sett um verndun upprunalegra skóga og endurheimt vistkerfa. Hér á landi gæti það þýtt verndun birkiskóga, t.d. Teigsskógar. Þá má einnig minna á það sem stendur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá júní í fyrra:

Samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar

Tryggja að við undirbúning og framkvæmd aðgerða sé tekið mið af lagalega bindandi alþjóðasamningum, s.s. Samningi Sameinuðu þjóðanna um vernd líffræðilegrar fjölbreytni, Bernarsamningnum, Ramsarsamningnum, auk leiðbeinandi samninga. Í því ljósi verða ekki notaðar ágengar framandi tegundir.

Fullyrða má að verði plantað hér á landi einhverjum hluta þeirra þriggja milljarða trjáa sem framkvæmdastjórn ESB vill stinga niður í Evrópu, þá verður stafafura ekki fyrir valinu, sbr. málsgreinina hér að ofan.

Orkuskipti í orkuframleiðslu

Orkuframleiðsla veldur 75% losunar í ríkjum Evrópusambandsins. Gefur auga leið að orkuskiptum verður að hraða umtalsvert. Markmiðið er þó ekki meira en að árið 2030 verði 40% orkunnar framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú er hlutfallið 23%. Hér á landi er hlutfallið nær 100% og í Noregi eru 98 prósent rafmagnsframleiðslu frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Mengandi bílar bannaðir árið 2035

Verði frumvarp framkvæmdastjórnarinnar að lögum að loknum samningum við Evrópuþingið og einstök aðildarríki verða nýir bílar knúnir jarðefnaeldsneyti bannaðir frá og með árinu 2035. Raunar er bann árið 2035 ekki mjög róttækt því æ fleiri lönd og einstakar borgir hafa ákveðið að banna slíka bíla frá 2030 og sum jafnvel enn fyrr, t.d. Noregur árið 2025. Ísland ætti tvímælalaust að fara að fordæmi Noregs.

Vaxandi stuðningur er meðal almennings við bann við mengandi bílum innan borgarmarka. Árlega deyja um 467.000 manns ótímabærum dauðdaga í Evrópu vegna loftmengunar. Á Íslandi er talan 60 fyrir ótímabær dauðsföll árlega vegna „fíns svifryks“.

Áfall fyrir bílaiðnaðinn

Hinar nýju reglur fela í sér að rafbílar verða ódýrari en bensín- og dísilbílar þegar árið 2025. Rafbílar eru mun einfaldari í sniðum. Til dæmis þarf ekki gírkassa eða sjálfskiptingu fyrir rafbíla, sem er mikill iðnaður í Þýskalandi

og viðhald á rafbílum er minna og einfaldara.

Allir bílaframleiðendur í Evrópu þróa nú nýja rafbíla í harðri samkeppni við Tesla. Tímabundið er haldið áfram framleiðslu hefðbundinna mengandi bíla sem einnig ganga fyrir rafmagni, svo kallaðra tengiltvinnbíla, en það er álitinn gálgafrestur. Á þriðjudaginn fullyrti talsmaður hagsmunasamtaka þýskra bílaframleiðenda, VDA, í viðtali við Financial Times, að nýjar kröfur Evrópusambandsins (Evró 7 – staðbundin mengun) myndu kosta um 205.000 störf í iðnaði. Öfugt við fyrri tíð viðurkennir bílaiðnaðurinn hins vegar að ekki verður aftur snúið. Neytendur – að minnsta kosti þeir sem hafa efni á að kaupa nýja bíla – vilja rafbíla.

Til viðbótar þeim kröfum sem fylgja Evró 7 vill framkvæmdastjórnin þrengja verulega að losun koltvísýrings frá bílum. Fyrra markmiðið fyrir árið 2030 var 37,5 prósent minni mengun borið saman við 2019 en verður nú hækkað í 55% minnkun.

Stærsta breytingin er að árið 2035 verður framleiðsla nýrra mengandi bíla bönnuð. Tengiltvinnbílar meðtaldir. Þá skal hafa í huga að í fyrra voru rafbílar einungis 3% af sölu bílarisans Volkswagen. Og – að þessu sinni – sjá bílaframleiðendur hag sinn í því að spila með í stað þess að mótmæla hástöfum. Hamfarahlýnun er staðreynd.

Skýrsla Alþjóða-orkumálastofnunarinnar

Í maí gaf Alþjóða-orkumálastofnunin út skýrslu um hvernig unnt væri að ná kolefnishlutleysi árið 2050. Ein tillagan var að banna skyldi dísil- og bensínbíla frá og með árinu 2030 og að árið 2035 yrðu 60% allra seldra bíla vera knúnir rafmagni. Sviðsljós markaðarins beinist nú að bílaframleiðendum sem hafa trúverðug áform um framleiðslu rafbíla. Tesla er sigurvegarinn sem stendur. Volvo segist einungis munu framleiða rafbíla árið 2025 og Opel þegar árið 2028.

Volkswagen stendur í stað og segist ekki geta framleitt meira en helming sinna bíla með rafmótor árið 2030. Samdægurs lækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um 1,3%. Næststærsti bílaframleiðandi heims stendur þó betur en sá stærsti, Toyota, sem enn í dag hefur ekki framleitt rafbíla. Vandinn er að stóru jepparnir með kraftmiklum og mengandi vélum gefa mikið í aðra hönd. Þessir bílar eru nú að verða bílaframleiðendum fjötur um fót. Hið sama má segja um íslensku bílaumboðin, sem græða langmest á sölu stórra mengandi jeppa.

Framleiðsla mengandi bíla er ekki náttúrulögmál

Daimler, sem framleiðir Mercedes Benz, hafði áform um að hætta að framleiða mengandi bíla árið 2039. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar um bann við nýjum bensín- og dísilbílium fellur því mun nær áformum Mercedes Benz en árinu 2025. Elon Musk, eigandi Tesla, hefur ótvírætt sannað að framleiðsla rafbíla gefur vel í aðra hönd.

Gulu vestin – réttlát umskipti

Hitaveituvæðingin hér á landi, sem hófst á fyrri hluta síðustu aldar, er dæmi um mjög dýra fjárfestingu sem síðar borgaði sig – margfalt. Almenningur þarf að lokum að bera kostnaðinn af breyttri loftslagsstefnu ESB og því telur framkvæmdastjórnin afar brýnt að auðvelda tekjulægri hópum að takast á við hinar hröðu breytingar; breytingar sem öðru fremur byggjast á að losun kosti mun meira en nú – og dragist því saman. Góð hugsun – því breytingarnar misheppnast ef almenningur eða mikilvægir hópar gera uppreisn líkt og varð í Frakklandi síðla hausts 2018 þegar fólk búið gulum vestum neyddi Macron Frakklandsforseta til að draga í land með kolefnisgjald sem bitnaði óþægilega á þeim hluta láglaunafólks sem treysti á bílinn sem samgöngutæki og hafði jafnvel enga aðra valkosti.

Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að jafna byrðarnar. Gulu vestin voru dýrkeypt lexía.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar