Til hvers eru ársreikningar? Einhver myndi segja að meginhlutverk þeirra væri að skapa traust í viðskiptum. Þeir eru upplýsingaveita sem lýsir því sem kemur út úr drifhjólum hagkerfisins betur en nokkuð annað og eru notaðir af ýmsum aðilum, t.d. lánadrottnum, fjárfestum og skattyfirvöldum. Með lögum og starfsaðferðum sem mótast hafa á löngum tíma hafa verið í gildi býsna formfastar viðmiðanir um þær upplýsingar sem eiga að koma fram í ársreikningum. Skyndilega hefur Hæstiréttur að sjá í svonefndum Fonsdómi, sem nýlega er gengin, umturnað þeim sjónarmiðum sem gilt hafa í áraraðir um nauðsynlegar upplýsingar sem bera að birta í ársreikningum.
Aðalsteinn Hákonarson
fv. endurskoðandi.
Margir fylgdust með því í fjölmiðlum þegar Bílabúð Benna neitaði að skila ársreikningum til ársreikningaskrár og hlaut dóm fyrir. Ef ég ætlaði að kaupa bíl á 10 milljónir af Bílabúð Benna og mér yrði gert að greiða t.d. 5 milljónir inn á væntanleg kaup, vegna þess að bíllinn væri ekki til í landinu, þá myndi ég vilja fá að skoða síðasta ársreikning félagsins til þess að ganga úr skugga um að það væri nógu stöndugt til að geta staðið við að afhenda mér bílinn. Ég kærði mig ekki um að lána félaginu 5 milljónir króna ef það stæði illa, heldur keypti ég mér bíl annars staðar þar sem ég teldi öryggi mínu betur borgið.
Svona eru ársreikningar m.a. notaðir til að skapa traust í viðskiptum, oftast þar sem miklu meiri hagsmunir eru í húfi en í venjulegum bílaviðskiptum. Bankar fylgjast með skuldunautum sínum í gegnum ársreikninga þeirra, verkkaupar með ársreikningum verksala o.s.frv.
Í nýlegum dómi Hæstaréttar í svonefndu Fonsmáli er allt í einu vikið frá áður viðurkenndum kröfum um að nauðsynlegar upplýsingar sem þurfi að koma fram í ársreikningi til að hægt sé að leggja mat á fjárhagsstöðuna.
Í nýlegum dómi Hæstaréttar í svonefndu Fonsmáli er allt í einu vikið frá áður viðurkenndum kröfum um að nauðsynlegar upplýsingar sem þurfi að koma fram í ársreikningi til að hægt sé að leggja mat á fjárhagsstöðuna. Menn horfa fram á nýtt landslag þar sem gildi ársreikninga hefur verið gjaldfellt verulega og spurningar vakna um tilgang ársreikningaskrár.
Í 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga segir:
Í skýrslu stjórnar með ársreikningi skal upplýsa um:
1. aðalstarfsemi félagsins,
2. atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu félagsins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í efnahagsreikningi eða rekstrarreikningi eða skýringum með þeim,
3. mögulega óvissu við mat eða óvenjulegar aðstæður sem kunna að hafa áhrif á það og, eftir því sem við á, tilgreina fjárhæðir,
4. þróunina í starfsemi félagsins og fjárhagslegri stöðu þess …,1)
5. markverða atburði sem hafa gerst eftir að reikningsárinu lauk,
[6. fjölda ársverka á reikningsári.]1)
Í skýrslunni skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á síðasta reikningsári.
Í 76. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög segir jafnframt (og sambærlegt ákvæði er að finna í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög):
Hluthafafundur tekur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hefur lagt fram tillögur um það efni. Ekki má ákveða að úthluta meiri arði en félagsstjórn leggur til eða samþykkir.
Hvers vegna skyldu nú þessi ákvæði, sem hér hafa verið feitletruð, vera í lögunum um ársreikninga og lögunum um einkahlutafélög og hlutafélög? Jú það er einkum vegna þess að notanda ársreiknings er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um hvort til standi að breyta þeirri stöðumynd sem ársreikningurinn gefur honum. Hluthafar geta t.d. haft uppi áform um að tæma félagið og skilja það eftir í miklum skuldum og þá bæri þeim að upplýsa um slíkar fyrirætlanir einkum vegna hagsmuna lánadrottna. Þess vegna ber stjórn að gera grein fyrir í skýrslunni hvort og hve mikinn arð hún leggi til að verði greiddur til hluthafa. Eins og sjá má af framangreindum lagaákvæðum mega einkahlutafélög hlutafélög ekki greiða hærri arð en lagt er til í skýrslu stjórnar. Þannig á notandi ársreiknings að geta séð fyrir hvort að til standi að breyta fjárhagsstöðunni sem birt er í ársreikningi með ákvörðunum hluthafa. Komi þær upplýsingar ekki fram er upplýsingagildi ársreikningsins verulega takmarkað.
Í umræddum Fonsdómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki hafi þurft að upplýsa um það í skýrslu stjórnar, sem er lögboðinn hluti ársreiknings, að greiða hafi átt út arð.
Í umræddum Fonsdómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki hafi þurft að upplýsa um það í skýrslu stjórnar, sem er lögboðinn hluti ársreiknings, að greiða hafi átt út arð. Þarna eru sett ný viðmið og fordæmi sem eru andstæð viðurkenndri og langvarandi framkvæmd því að almennt hefur verið litið svo á að komi engar tillögur fram um arðgreiðslur í skýrslu stjórnar jafngildi það því að enginn arður verði greiddur úr félaginu á árinu eftir lok reikningsárs. Gildi ársreikninga hefur því verið gjaldfellt verulega með þessum dómi og þar með spurningin um tilgang ársreikningaskrár.
Ekki verður annað séð en að með þessum dómi muni ríkja alger óvissa um fjárhagsstöðu félaga sem veita ekki upplýsingar um arðgreiðsluáform sín. Það gæti síðan verið efni í aðra og jafnvel lengri grein að fjalla um að form og innihald ársreiknings Fons sem að ýmsu leyti var ekki í samræmi við lög og reglur.