Hugmyndir kvikna í kolli fólks. Ekki hjá stofnunum, bönkum, sjóðum, fjárfestum eða fyrirtækjum. Góð hugmynd að lausn á vandamáli, bættum ferlum, vörum eða þjónustu getur hins vegar verið gullsígildi fyrir samfélagið. Þá koma þessir aðilar til skjalanna.
Dæmi um mikilvægi hugmynda eru þær sem snúa að lausn loftslagsvandans. Þar þarf allt í senn, lausnir sem draga úr útblæstri, draga úr sóun, efla hringrásarhagkerfið og farga og/eða endurnýta með ábyrgum hætti hliðarafurðir eða úrgang með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti.
Sjávarklasinn gott dæmi
Ég heimsótti Hús sjávarklasans nýlega. Þar eru saman komin á sjötta tug fyrirtækja sem öll vinna að nýjum hugmyndum, nýsköpun og þróun. Það er gaman sjá og finna þann kraft sem þar er að finna. Það er ekki bara að Íslenski sjávarklasinn hafi skapað frábært umhverfi fyrir öll þessi fyrirtæki heldur hefur hann orðið til þess að leysa úr læðingi margar góðar hugmyndir en ekki síst samvinnu og nýja hugsun í meðferð verðmæta og umgengni við náttúruna. Árangurinn sem þar næst kemur okkur öllum til góða.
Þrek og þor
Við eigum sem betur fer mörg dæmi um fyrirtæki sem vinna að lausnum sem á einn eða annan hátt sýna að góðar hugmyndir hafa kviknað í kolli fólks til að takast á við loftslagsvána. Það er hins vegar ekki nóg að góð hugmynd kvikni. Það þarf frumkvöðla með sýn og eldmóð; fyrirtæki til þess að raungera hugmyndina; banka, sjóði og fjárfesta til þess að fjármagna; banka, sjóði og stofnanir sem hafa skilning, þrek og þor. Síðast en ekki síst þurfa almenn starfsskilyrði að vera þannig að sveiflur í gengi, háir vextir og verðbólga séu ekki Þrándur í götu. Löngu er tímabært að gera atlögu að Þrándi í götu með því að festa gengi krónunnar við evru og ganga síðan í fyllingu tímans í Evrópusambandið og taka upp evru í stað krónunnar.
Brettum upp ermar
Loftslags- og umhverfismál eru stærsta og mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Heimsbyggðin og þar með talið Ísland má ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Við eigum ekki annarra kosta völ en bretta upp ermar og takast af alvöru við þann mikla vanda sem við okkur blasir. Hér verðum við að standa saman og sýna ábyrgð.
Ábyrg ráðstöfun fjár
Ábyrgð þeirra sem stýra fjármagni, hvort sem það er einkafjármagn eða stafar frá ríki eða lífeyrissjóðum er mikil. Margir sjóðir, vísisjóðir, eru til sem sérhæfa sig í margvíslegum fjárfestingum. Þeim ber skylda til þess að setja markið hátt og fjárfesta af þrótti í hugmyndum og fyrirtækjum sem eru líkleg til þess að skila mestu árangri í loftslags- og umhverfismálum, enda fjármagnaðir af stórum hluta af opinberu eða hálfopinberu fé.
Rétt hugarfar
Með réttu hugarfari og ákvörðunum getum við lagt mikið af mörkum til þess að bæta ástandið og snúa óheillaþróun við bæði hér á landi en ekki síst með útflutningi okkar góðu lausna út fyrir landsteinanna.
Viðreisn er stjórnmálaflokkur sem tekur loftslags- og umhverfismál mjög alvarlega og telur róttækar lausnir nauðsynlegar. Þar gegnir atvinnulífið lykilhlutverki og verður að rísa undir ábyrgð sinni. Það getur það vel með réttum hvötum og umhverfi sem hvetur til dáða.
Gefðu framtíðinni tækifæri - kjóstu Viðreisn.
Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti í Reykjavík norður á lista Viðreisnar.