Allir hlutir lýsa frá sér ljósi sem fer eftir hitastigi þeirra. Þá er ekki verið að tala um það sýnilega ljós, sem berst frá hlutunum þegar fellur á þá sólarljós eða eitthvað slíkt, heldur ljós sem fer eftir hitastigi þeirra. Því heitari sem hluturinn er, því orkuríkara er ljósið. Hjá venjulegum hlutum er þetta ljós ósýnilegt, (er t.d. á innrauða sviðinu), en ef hluturinn er hitaður meira fer hann að lýsa á sýnilega sviðinu (eins og t.d. rauðglóandi heitt járn).
Sólin hitar yfirborð jarðarinnar og jörðin geislar frá sér ósýnilegu ljósi sem fer eftir hitastigi hennar á hverjum stað. Í andrúmsloftinu eru svo lofttegundir, m.a. gróðurhúsalofttegundir sem “gleypa” þetta ljós og þá fara sameindirnar að snúast hraðar og titra meira og við það hitnar. Þetta er ekki alls ólíkt því sem gerist í örbylgjuofni. Örbylgjuofninn sendir frá sér ósýnilegt ljós, sem ofninn framleiðir með ákveðnum hætti og maturinn í honum gleypir þetta ljós og við það fara sameindirnar í matnum að snúast hraðar og við það hitnar hann.
Þegar jörðin geislar frá sér sínu ósýnilega ljósi, þá færi hluti af því bara út í geim, en þegar er aukið við gróðurhúsalofttegundir verður stærri hluti varmans eftir í lofthjúpnum og hluti geislast aftur til jarðarinnar.
(Höfundi þessarar greinar er ekki kunnugt um hve stór hluti hnattrænnar hlýnunar megi rekja til gróðurhúsaáhrifanna og svo var ekki minnst á að hluti viðbætts koltvísýrings í andrúmsloftinu fer í hafið og verður kolsýra. Gerður skal sá fyrirvari á að höfundur er ekki alvitur og skilur ekki til fulls þau fræði sem liggja að baki og það er ekki víst að greinin sé eðlis- og efnafræðilega 100% nákvæm).
Höfundur var efnafræðingur í gamla daga.