„Málefnalegar forsendur“ er helsta mantra stjórnmálaflokka fyrir kosningar, þegar þeir vilja ekki gefa upp með hvaða flokkum þeir vilja starfa í ríkisstjórn. Árið 2016 sagði formaður VG að málefnin skipti mestu máli í ríkisstjórnarmyndun og talaði um glötuð tækifæri:
„Okkur finnst mikilvægt að hefja þessa uppbyggingu, bæði í heilbrigðismálum en ekki síður í skólamálum, sem við höfum haft talsverðar áhyggjur af. Þar er auðvitað gríðarlegt verk óunnið, bæði hvað varðar háskólana en líka framhaldsskólana. Við teljum að það hafi glatast ákveðið tækifæri í að hefja uppbyggingu því þetta er líka svo mikil undirstaða fyrir atvinnulíf og efnahag,“ sagði Katrín í viðtali í Morgunútvarpinu.
Í staðinn varð til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þar sem ansi erfitt var að finna málefnalegu forsendur samstarfsins. Jú, jú. Það voru einhver orð í stjórnarsáttmála en þegar allt kom til alls þá snerist það ríkisstjórnarsamstarf bara um niðurgreiðslu skulda í stað nauðsynlegrar uppbyggingar. Það má auðveldlega leiða að því líkum að uppbygging í heilbrigðiskerfinu frá árinu 2016 hefði skilað betri árangri og réttindavernd í baráttunni við Covid, sem dæmi um það hversu mikilvægir grunninnviðir eru.
Sagan endurtekur sig
Árið 2017 voru nákvæmlega sömu vandamálin enn til staðar og kosningaloforð flokkanna nokkurn veginn óbreytt frá árinu áður. Enn áttu málefnin að ráða, eða eins og formaður VG sagði þá:
„Málefnin ráða för og ef það næst ásættanleg málefnaleg niðurstaða þá getum við unnið með þessum flokkum,“ áður en hún bætti við:
„Ég hef lagt á það áherslu fyrir þessar kosningar að þær snúist um stóru málin í íslensku samfélagi, uppbyggingu samfélagslegra innviða. Við höfum talað um heilbrigðiskerfið og menntakerfið í talsvert langan tíma, við höfum talað um kjör öryrkja og aldraðra.“
Og aftur endurtekur sagan sig
Síðasta kjörtímabil átti að snúast um stóru málin. Það var vissulega mikil uppbygging í samgöngukerfinu en fyrir því töluðu nokkurn veginn allir flokkar hvort eð er þannig að það var nú ekkert afrek að ná því í gegnum þingið. En fyrst við höfum talað um heilbrigðiskerfið, menntakerfið, öryrkja og eldra fólk í langan tíma þá verður að segjast að nákvæmlega ekkert gerðist í þeim málum á kjörtímabilinu. Hér þarf ég að útskýra aðeins nánar:
Heilbrigðiskerfið
Vissulega var byrjað að byggja nýjan spítala – loksins. Það fattaðist svo ekki fyrr en eftir að ákveðið var að byggja hann að spítalinn væri allt of lítill og er kominn að minnsta kosti 16 milljarða fram yfir áætlaðan kostnað – án tillits til stækkunarinnar. Ég fór nánar yfir stöðu heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu í grein í Kjarnanum. Eins og þar segir hefur langmest af „styrkingu“ kerfisins komið til vegna þess að okkur er að fjölga og þjóðin að eldast. Svokallaður „kerfislægur vöxtur.“ Það er í mesta lagi hægt að tala um nokkur hundruð milljónir í aukin verkefni – en við erum enn með sömu vandamál og í upphafi kjörtímabils þrátt fyrir það.
Menntakerfið
Nei. Ekkert að gerast hérna. Það var talað um að ná meðaltali OECD og það lítur bara út fyrir að samdráttur í landsframleiðslu hafi ná því hlutfalli fyrir okkur. Þegar landsframleiðslan hækkar aftur dettum við líklega aftur niður fyrir meðaltalið. Mesta aukningin til menntamála tengist Covid viðbrögðum, sem var aukið fé í grunnrannsóknir og að skólar geti tekið við fleiri nemendum.
Eldra fólk og öryrkjar
Á þessu kjörtímabili hefur eldra fólk og öryrkjar einungis fengið 75% af þeim launahækkunum sem aðrir hafa fengið – og í rauninni minna því þau fengu ekki krónutöluhækkun eins og aðrir í lífskjarasamningunum.
Í dag ráða málefnin enn og aftur för
„Ég horfi á þetta þannig að auðvitað er bara tómt mál að vera að ræða einhverja ríkisstjórnarmyndanir fyrr en niðurstöður kosninga liggja fyrir. Við í VG munum láta málefnin ráða för í stjórnarmyndun eins og við höfum gert hingað til.“
Ég ætla að leyfa mér að efast um það. Ef málefnin ráða í alvörunni för er einungis eitt af tvennu rétt. Að VG nái betri árangri með málefnin sín með Sjálfstæðisflokki og Framsókn en öðrum flokkum eða þá að þau meina ekkert það sem þau segja varðandi þau málefni sem þau leggja mesta áherslu á.
Ég ætla að leyfa mér að efast um að VG nái betri árangri með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum – af þeirri einföldu ástæðu að þessir flokkar (sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn) leggur bara alls ekkert áherslu á sömu málefnin (nema kannski á eldra fólk af því að það eru svo stór kjósendahópur, en það er ekki það sama á orði og í borði). Afrakstur síðasta kjörtímabils í heilbrigðismálum, menntamálum og málefnum lífeyrisþega sýnir það bara svart á hvítu að þessir stjórnmálaflokkar segja eitt en gera annað. Það er því augljóst að það er seinni valmöguleikinn sem málið snýst um. Málefnin skipta engu, völdin skipta öllu.
Ef málefnin réðu í alvörunni
Ef stjórnmálafólk meinar í alvörunni það sem það segir með að málefnin ráði för, þá myndi VG og mögulega Framsókn heyra í hinum flokkunum um það hvort þeirra málefni nái betri framgangi í annars konar samstarfi – því ekki gekk mjög vel að ná stóru málunum í gegn á síðasta kjörtímabili. Það telst hins vegar ekki mjög „kurteist“ gagnvart fyrrverandi stjórnarsamstarfi að fara að daðra við aðra á sama tíma – en það er þó ennþá ókurteisara gagnvart málefnunum að gera það ekki. Ef það er ekki einu sinni látið reyna á aðra möguleika, málefnanna vegna, þá geta stjórnmálamenn ekki undir neinum kringumstæðum sagt að málefnin ráði.
Ef ég ætti að spá fyrir um framhaldið þá verða engar framfarir í stóru málunum þetta kjörtímabil. Þó verður eflaust eitthvað gert rétt í lok kjörtímabils sem verður trommað upp sem gríðarlegar framfarir en er í raun annað hvort löngu tímabær breyting eða einungis útlitslegur áróður – því málefnin hafa aldrei ráðið för hjá gömlu valdaflokkunum.
Það er þó alltaf tími til breytinga í stjórnmálum, að minnsta kosti ef málefnin eiga að ráða. Það koma reglulega upp nýjar áskoranir, eins og þegar aðalmálum ríkisstjórnarsáttmálans er frestað eða skortur á fjármögnun sligar heilbrigðiskerfið í heimsfaraldri. Þegar forsendur breytast þá er eðlilegt að skipta um skoðun en stjórnmálafólk er oft gagnrýnt fyrir skoðanaskipti. Að stjórnmálafólk skipti um skoðun segir ekkert til um skoðanir þeirra áður, bara að þau taki rökum. Ef þú leggur áherslu á betrumbætur í heilbrigðiskerfinu en samstarfsfélagi þinn nennir því ekki, þrátt fyrir að hafa sagst ætla að gera það, þá er bara mjög eðlilegt að finna nýjan samstarfsfélaga. Ekkert okkar nennir þessum sem gerir ekkert í hópverkefninu.
Kjörtímabilið
Þegar kosið var 2016 var það út af Panamaskjölunum. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra að stunda viðskipti í gegnum skattaskjól. Fyrir kosningarnar 2017 voru Uppreist æru-málið, Landsréttarmálið og Glitnisskjölin í brennidepli. Strax að loknum kosningum 2021 lítur út fyrir að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi algerlega klúðrað lýðræðislegum kosningum. Samt eiga bara málefnin að ráða.
Ég spái því að áframhaldandi ríkisstjórn geti ekki klárað stóru málin. Sjávarauðlindin verður enn í höndum útgerðarinnar. Sanngjörn skipting af sameiginlegum auðlindum verður að bíða næsta kjörtímabils. Stjórnarskráin mun áfram velkjast fram og til baka og ávallt vera stöðvuð af Sjálfstæðisflokki. Heilbrigðiskerfið mun áfram verða í sama vanda. Kaupmáttur eldra fólks og öryrkja mun áfram rýrna. Spilling, eins og pólitískar ráðningar eða skipanir, mun halda áfram. Áfram verður rifist um sömu málin af því að gamla pólitíkin er bara vön því að rífast um þau mál í staðinn fyrir að klára þau – því ef þau klára þau mál, hvað eiga þau þá að gera?
Þess vegna munu málefnin enn og aftur ekki ráða för. Boðið verður upp á það sama og alltaf og reynt að láta það líta út fyrir að vera eitthvað nýtt með því að pakka því inn í nýjar umbúðir. Annars væru þessar stjórnarmyndunarviðræður ekki í gangi.
Höfundur er þingmaður Pírata.