Sigurður G. Guðjónsson hrl. var einu sinni forstjóri fjölmiðlafyrirtækis. Og hann hefur mikinn áhuga á miðlun frétta, sem er hið fínasta mál. Í Facebook-færslu sem nú er orðin að samhljóma pistli á Pressunni hjólar hann af miklu afli í Kjarnann, ásakar okkur um að ganga erinda og segir okkur hvað við ættum í raun að vera að gera. Pistilinn má lesa hér.
Rangar fullyrðingar Sigurðar G.
Það er nauðsynlegt að gagnrýna. Og oft á sú gagnrýni sem til okkar berst fullan rétt á sér. En gagnrýni þarf að byggja á einhverju. Og gagnrýni Sigurðar G. byggir ekki á neinu nema röngum fullyrðingum. Það verður rökstutt með dæmum hér að neðan.
Sigurður G. segir að Kjarninn sé „alltaf að fjalla um meint afbrot starfsmanna og stjórnenda föllnu bankanna“. Hann segir líka að af lestri Kjarnans „mætti helst ætla að um væri að ræða útgáfu á vegum embættis sérstaks saksóknara, svona eins og Tíund þá sem skatturinn gefur út meðal annars til að segja frá eigin afrekum“.
Ég ákvað að fara yfir þau 45 eintök sem komið hafa út af Kjarnanum og taka slíka umfjöllun saman. Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:
Mál sem snúa að meintum afbrotum fallina fjármálafyrirtækja hafa þrisvar sinnum ratað á forsíðu Kjarnans. Það þýðir að sjö prósent af aðalmálum okkar hafa snúist um meint afbrot stjórnenda fallina fjármálafyrirtækja.
Í tvö af skiptunum var fjallað um sparisjóði og í bæði skiptin byggt á skýrslum. Í fyrra skiptið rannsóknarskýrslu endurskoðunarfyrirtækis og í hið síðara um niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis um sparisjóðina. Í þeim umfjöllunum sagði að hluti þeirra mála sem þar var varpað ljósi á væri til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Þriðja skiptið var síðan í útgáfu okkar í síðustu viku þegar Kjarninn sagði frá því að lögregluyfirvöld í Lúxemborg hafi verið að rannsaka mál á hendur Kaupþingi árum saman.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/1[/embed]
Enn fleiri rangar fullyrðingar Sigurðar G.
Á þessu ári, 2014, hefur Kjarninn komið út 24 sinnum. Fram að umfjöllun okkar í síðustu viku höfðum við nánast ekkert fjallað um „meint afbrot starfsmanna og stjórnenda föllnu bankanna“ það sem af er ári. Í Kjarnanum sjálfum fann ég tvö dæmi. Annað er leiðari sem skrifaður var 9. janúar. Hann má lesa hér.
Niðurlag hans er: „Ef við göngumst við þeirri skoðun að gjörðir fjármálamanna lúti einvörðungu valdi hluthafa þeirra leyfum við þeim að segja sig úr lögum við aðra menn. Slíkt væri óráð. Þess vegna er það nauðsynlegt að dómstólar taki afstöðu til þess hvað sé lögbrot og hvað sé það ekki. Sama hvaða skoðun fólk hefur á niðurstöðunni, hvort sem hún er sýkna eða sekt, þá er hún endanleg. Og við hana verðum við öll að sætta okkur“.
Hitt var umfjöllun sem birt var 16. janúar. Það var reyndar viðskiptaumfjöllun um enduruppbyggingu hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðar á Íslandi þar sem haft var eftir forstöðumanni eftirlitssviðs Kauphallarinnar að dómar í málum tengdum hruninu og fyrirtækjum sem voru áður skráð á markaði muni eyða óvissu og skýra hvað megi og hvað megi ekki þegar kemur að viðskiptum. Hann nefndi síðan Al-Thani dóminn sem dæmi. Lesa má þá umfjöllun hér.
Umfjöllun okkar í síðustu viku fjallaði síðan um það að erlend lögregluyfirvöld séu að rannsaka meint efnahagsbrot íslenskra aðila. Sú rannsókn er fordæmislaus og sannarlega fréttnæm, enda gerir Sigurður G. engar efnislegar athugasemdir við fréttaflutninginn. Hann segir bara að Kjarninn sé alltaf að fjalla um þessi mál.
Þess á milli höfum við fjallað um það í netfréttum milli útgáfa þegar ákærur eru gefnar út eða dómar falla, líkt og allir aðrir fjölmiðlar á landinu.
Ásakanir Sigurðar G.
Sigurður G. segir líka að „Kjarninn fjallar aldrei um lögbrot embættis sérstaks saksóknara, sem hafa verið æði mörg og alvarleg, eins og dómur í svokölluðu Ímonmáli staðfesti". Þegar hingað var komið í stuttum pistli Sigurðar G. sannfærðist ég algjörlega um að hann les einfaldlega aldrei Kjarnann.
Hann hefði nefnilega bara þurft að lesa síðustu þrjár útgáfur hans til að finna umfjallanir um a) meint tengsl dómara við ákærðu í héraðsdómi (sjá hér, b) meintar ólögmætar hleranir embættis sérstaks saksóknara (sjá hér). Þar var fyrirsögnin „Ólöglegar hleranir undir smásjánni“. Þegar umræddri umfjöllun var dreift á Facebook var það með eftirfarandi texta: „Vitað er að sérstakur saksóknari braut lög þegar hann var að hlera símtöl. En hvaða afleiðingar mun það hafa?“ Í umfjölluninni er orðrétt vitnað í dóminn í hinu svokallaða Ímonmáli sem Sigurður G. segir Kjarnann hafa hunsað, og c) umfjöllun um kæru Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á hendur Ingveldi Einarsdóttur dómara. Þar er kæran m.a. birt í heilu lagi. Kjarninn er eini fjölmiðill landsins sem það hefur gert (sjá hér).
Það er því ekki bara rangt, heldur kolrangt hjá lögmanninum að Kjarninn hafi aldrei fjallað um þessi meintu brot.
Véfréttir Sigurðar G.
Sigurður G. bregður sér loks í hlutverk véfréttar og segir frá fleiri brotum sem „eiga eftir að koma í ljós“. Hann átelur Kjarnann fyrir að fjalla ekki um þau brot, sem þó eru ekki komin í ljós, og segir okkur hver niðurstaðan í þeim málum er. Nú er hins vegar ekki um „meint afbrot“ að ræða líkt og þegar hann fjallar um bankamennina, heldur „brot“. Fölsun, skattsvik og umboðssvik eru öll orðin af „staðreyndum“ þegar annað nafngreint fólk á í hlut og Kjarninn er að bregðast skyldum sínum, að mati Sigurðar, fyrir að fjalla ekki um þessar „staðreyndir“.
Sigurður G. er líka óánægður með leiðara Kjarnans sem ég skrifaði. Hann má lesa hér. Og það er ekkert að því að hann sé óánægður með þau skrif. Það hefur hann fullan rétt til að vera. Leiðarar eru skoðanaskrif og skoðanir manna eru eðlilega mjög mismunandi. En Sigurður G. ákveður að blanda leiðaranum saman við annað yfirdrull yfir Kjarnann. Þar gæti skipt máli að til umfjöllunar í leiðaranum er m.a. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Sigurður G. er nefnilega fyrrum kosningastjóri Ólafs Ragnars og mikill bandamaður forsetans þegar kemur að því að kjósa hann í embætti. Kannski skiptir það engu máli. Ég ætla ekkert að fullyrða um það.
Í niðurlagi pistilsins virðist sem Sigurður G. ætli að binda saman hugleiðingar sínar og skiptir einhverjum ótilgreindum upp í „góða kallinn“ og „vondu kallanna“. Miðað við byrjunina á pistli Sigurðar G. þá hlýtur Kjarninn að eiga að vera í „góða“ liðinu en hann og skjólstæðingar hans í því „vonda“. Þetta rímar við ásakanir sem mér hafa borist úr ranni manna sem eru undir rannsókn eða hafa verið dæmdir. Þeir hafa kallað mig, og raunar marga aðra fjölmiðlamenn, spillta, óheiðarlega og ásakað um að vera í einhverju liði gegn þeim.
En hugsum þetta aðeins. Hvaða hagsmuni hefur fjölmiðill af því að vera í liði með opinberri stofnun? Nákvæmlega enga. Það er þvert á móti andstætt hagsmunum þeirra.
Samantekt um pistil Sigurðar G.
Pistill Sigurðar G. er því tvennt: annars vegar fullur af röngum fullyrðingum um Kjarnann sem hafa verið hraktar með dæmum hér að ofan, og hins vegar fullur af staðhæfingum um lögbrot nafngreindra aðila sem hafa hvorki verið rannsakaðir, ákærðir né dæmdir. Í stuttu máli má einfaldlega segja að þetta sé þvæla. Hvað drífi Sigurð G. áfram í að skrifa hluti af fullkominni vanþekkingu eða gegn betri vitund veit ég ekki. Og ætla ekki að reyna að giska á það.
Að lokum. Allt sem tilgreint er hér að ofan er fréttnæmt. Það er fréttnæmt að hér sé verið að rannsaka fall bankakerfis sem sakamál, það er fréttnæmt þegar það er sýknað í þeim málum og það er fréttnæmt þegar að er sakfellt í þeim. Það er líka fréttnæmt þegar hleranir virðast ekki framkvæmdar með löglegum hætti og það er fréttnæmt þegar forstjóri risafyrirtækis kærir dómara. Við segjum fréttir. Af þessu öllu saman.
Sú sýn sem margir hafa að í samfélaginu séu einhver lið, annað hvort ertu með viðkomandi eða á móti, á nefnilega ekkert erinda í fjölmiðla.