Á undanförnum árum hafa mjög margir útlendingar flutt til landsins og eru nú orðnir umtalsvert hlutfall íbúa og í meirihluta í sumum byggðarlögum. Búferlaflutningar Íslendinga hafa hins vegar mikið til verið utan sviðsljóssins þrátt fyrir það að um langa hríð hefur hluti þeirra sem hér fæðast og alast upp kosið að búa erlendis. Það gildir um alla búferlaflutninga að það er straumur í báðar áttir og mismunurinn oft lítið hlutfall af heildarumfanginu.
Hér á eftir mun ég reyna að gera grein fyrir áhrifum búferlaflutninganna á undanförnum árum.
Í þessari töflu er að finna upplýsingar Hagstofunnar um búferlaflutninga íslenskra ríkisborgara milli landa. Á þessum 50 árum hafa næstum 130.000 Íslendingar flutt af landi brott en 108.000 flutt til baka. Mismunurinn er 20.000 manns, og er næstum því hnífjafn skipt á milli kynja.
Fólk flytur til útlanda af mismunandi ástæðum; sumir fara utan til náms meðan aðrir kjósa að finna sér starfsvettvang í öðrum löndum. Sumir flytja vegna takmarkaðra tækifæra hér á landi. Svo flytur fólk aftur heim af mismunandi ástæðum; sumir koma heim úr námi eða vilja láta börn sín alast upp hérlendis. Frá því frjáls för fólks um evrópska efnahagssvæðið tók gildi hefur verið mun einfaldara fyrir Íslendinga að velja sér búsetu og starfsvettvang i Evrópuríkjum en áður var og fjölgaði fólki í flutningum á tíunda áratug síðustu aldar og þeim fyrsta á þessari en síðan hefur dregið úr millilandaflutningum eins og síðar verður fjallað um.
Heldur hefur dregið úr flutningum
Búferlaflutningar Íslendinga milli landa hafa verið sveiflukenndir undanfarna áratugi en tíðni þeirra fór þó almennt vaxandi fram að efnahagshruninu. Hefur skipst á með brottflutningshrinum og í kjölfarið hefur aðflutningur aukist þótt halli á þegar á heildina er litið. Brottflutningur af landinu náði hámarki árið 2009 en síðan þá hefur dregið nær stöðugt úr honum. Árið 2021 var hann lægri sem hlutfall af mannfjöldanum en hann hafði verið í nær 50 ár. Minni sveiflur hafa verið á aðflutningi. Á fyrra árshelmingi yfirstandandi árs hefur myndin snúist við og fjölgað í hópi brottfluttra meðan aðfluttum hefur fækkað. Þróun á yfirstandandi ári breytir þó ekki þeirri heildarmynd sem hér hefur verið lýst.
Hagstofan birtir tölur um búferlaflutninga eftir aldri og kyni en á vefnum ná þær tölur aftur til ársins 1986. Á mynd 2 má sjá hvernig nettótap íslenskra ríkisborgara frá landinu hefur þróast undanfarinn aldarþriðjung. Kynin hafa fylgst nokkurn veginn að þrátt fyrir sveiflur en myndin sýnir svo ekki verður um villst að eftir 2015 hafa orðið straumhvörf og eftir það hefur fækkað í hópi brottfluttra íslenskara ríkisborgara.
Um það bil einn af tíu sem fæðast hérlendis er í útlöndum
Áður en þróun síðustu ára verður skoðuð er rétt að líta til þess hvaða áhrif búferlaflutningar undanfarinna áratuga hafa haft hér á landi. Á myndum 2 og 3 eru sýnd þrjú atriði. Efsta línan sýnir fjölda þeirra sem fæddust á Íslandi á hverju ári frá árinu 1938 til ársins 1986, þ.e. fólk sem nú er á aldrinum 36 til 84 ára. Hagstofan reiknar eftirlifendalíkur eftir aldri og kyni og með því að nota þær má reikna út hversu margir í hverjum fæðingarárgangi ættu að vera lifandi ennþá. Niðurstaðan í þeim útreikningi er sýnd sem grá lína á myndunum og eins og sjá má fer bilið milli fæddra og eftirlifandi vaxandi með aldri eins og við er að búast.
Neðsta línan sýnir svo hversu margir eru enn búsettir hér á landi af hverjum árgangi. Mismunurinn milli tveggja neðri línanna eru þeir sem ekki eru á landinu. Einhverjir þeirra kunna að hafa látist eftir að þeir fluttust á brott en um það er ekkert vitað.
Niðurstaðan er sú að gegnum tíðina hefur um það bil tíundi hver einstaklingur sem fæðst hefur hér á landi ílenst erlendis. Hlutur brottfluttra kvenna af hverjum árgangi er heldur hærra en hjá körlunum einkum hjá þeim eldri.
Viðsnúningur um miðjan annan áratuginn
Þetta er staðan eins og hún var nú í upphafi yfirstandandi árs fyrir alla sem fæddir eru frá 1938 til ársins 1986 og eru því á aldursbilinu 36 til 84 ára í ár. Þarna er fróðlegt að skoða einstaka aldursárganga. Þetta er sýnt á myndum 5 og 6.
Á þessum myndum er sýnt hvernig hver af 5 fæðingarárgöngum hefur gengið í gegn um búferlaflutninga milli landa frá árinu 1986 til 2021. Elsti árgangurinn sem þarna er sýndur er fæddur árið 1966 og stendur því á tvítugu þegar talningin hefst. Á næstu tíu árum safnast upp tap vegna búferlaflutninga hjá báðum kynjum og heldur meira hjá körlunum. Þeim heldur svo áfram að fækka þar til árið 2015 en eftir það sýna þessar tölur að nokkur fjöldi hópsins hefur flutt aftur heim. Hagstofan telur að 20 fleiri karlar búi nú hérlendis í þessum árgangi en var árið 2015. Hjá konunum er þessu öðruvísi farið því þar er álíka fjöldi talinn erlendis og var fyrir 25 árum auk þess sem þær sem fluttust til útlanda voru aldrei eins margar og jafnaldra karlar.
Næsti árgangur sem hér er skoðaður er fæddur árið 1971. Þessi hópur var 15 ára þegar byrjað er. Uppsafnaður fjöldi brottfluttra umfram aðflutta byrjar að vaxa upp úr 1990 þegar aldursflokkurinn var tvítugur. Um miðjan tíunda áratuginn er fjöldinn búsettur erlendis orðinn tæplega 150 manns af hvoru kyni og körlunum heldur áfram að fækka þar til tæplega 300 þeirra eru búsettir erlendis um miðjan annan áratug þessarar aldar. Konur erlendis urðu aldrei fleiri en um 200. Frá 2015 hefur þeim sem fædd eru árið 1971 og búsett eru erlendis farið fækkandi. Fram til ársins í fyrra hefur konunum fækkað um 30 en körlunum um 40.
Það byrjaði að fækka í árganginum sem fæddist 1976 áður en hann varð tvítugur. Hjá konunum fækkaði nær stöðugt allar götur til ársins 2016 og þá voru fleiri konur úr þessum árgangi búsettar erlendis en í nokkrum öðrum flokki ef undan eru skildar konur sem fæddar voru árið 1980. Körlum í þessum árgangi fækkaði fram til áranna 2004/5 en í góðærinu fyrir efnahagshrunið hafa einhverjir flutt aftur heim. Svo fækkaði þeim á nýjan leik allt til ársins 2012 en síðan þá hafa samtals rúmlega 50 komið til baka. Í þessum aldursflokki hafa um 40 konur flutt aftur til Íslands.
Þegar komið er að fæðingarárganginum frá 1981 byrjaði hann ekki að flytja til útlanda fyrr en á þessari öld. Körlum búsettum erlendis fjölgaði nær stöðugt frá þeim tíma með smávægilegri endurkomu fyrir efnahagshrunið en svo snerist dæmið við en ekki fyrr en 2019, nokkru seinna en hjá eldri árgöngum eins og við var að búast. Munar um 20 frá því mest var. Hjá konunum voru um 340 sem fæddar voru 1981 búsettar erlendis þegar dæmið tók að snúast við og síðan þá hefur þeim fækkað um 50.
Af þessu má sjá að svo virðist sem einhvers konar vatnaskil hafi orðið um miðjan annan áratug þessarar aldar nokkurn veginn óháð því á hvaða aldri hinir brottfluttu voru þá. Frá þeim tíma hafa 880 karlar og 650 konur komið aftur heim.
Í gegnum tíðina er enginn vafi á því að Ísland hefur hagnast verulega á því að ungt fólk hefur tímabundið farið utan til þess að mennta sig og öðlast lífreynslu með búsetu í öðrum löndum. Samdráttur í tíðni brottflutnings kann að eiga skýringu að hluta í miklum vexti í fjölda þeirra sem stunda nám á háskólastigi hérlendis á sama tíma og þeim sem stunda slíkt nám erlendis hefur farið fækkandi.
Það er ekki víst að það sé íslensku samfélagi fyrir bestu til lengri tíma að meirihlutinn stundi allt sitt nám hérlendis. Það er hins vegar jákvætt ef stækkandi hluti þeirra sem hafa farið utan og aflað sér menntunar og reynslu þar sér framtíðarmöguleika hér heima. Sá hópur getur nú tekið undir með öðrum áhorfendum á heimaleikjum íslenskra landsliða og séð jökulinn loga.
Höfundur er skipulagsfræðingur.