Einkabréf og fjölpóstur

Hjalti Snær Ægisson
bogglapoststofan.jpg
Auglýsing

1. hluti: HVAÐ ERTU AÐ GERA MEÐ ÞESSA KINDABYSSU? (Þar sem greinarhöfundur rekur þróun málsins og fer í manninn en ekki boltann)

Það hófst allt með því að Druslubókadömurnar skrifuðu ritdóm um bók sem fáir vissu að væri til. Pistillinn var skrifaður í jákvæðum tóni og 31,6% hans fjallaði um sjálfa bókina. Restin af textanum fór í að fjalla um útgáfutilhögun bókarinnar, dreifingu og markaðssetningu. Voru Druslubókadömurnar að reyna að efna til umræðna um fyrirbærið? Ef það var markmiðið má segja að pistillinn hafi fallið í grýttan jarðveg því kommentakerfið lá steindautt. Tveir netmiðlar endursögðu pistilinn efnislega en umræðuþræðir þeirra blómstruðu ekki að heldur. Það var eins og hundi væri boðin heil kaka. Sjálfur las ég ritdóminn og upplifði tilfinningu sem átti meira skylt við vonbrigði en reiði. Mér þótti svo margt ósagt í þessu máli að ég ákvað að skrifa grein þar sem hinn kurteisi og varfærnislegi stíll Druslubókadamanna yrði látinn lönd og leið. Markmiðið var að skrúfa allt í botn, fóðra vélina, öskra nógu hátt og vonast til þess að fólk tæki við sér. Greinin birtist og það var eins og flóðgáttir hefðu opnast. Nokkrum klukkutímum síðar voru gárungar farnir að tala um að „bókmenntaheimurinn nötraði“. Mestu grínistarnir töluðu jafnvel um „stóra Bragamálið“.

Umræðurnar breiddust út og þræðir voru spunnir. Bögglapóststofan, sem aðeins hafði verið rædd í hálfum hljóðum, var nú á allra vörum. Ekki innihald bókarinnar (sem aðeins fáir útvaldir höfðu fengið að lesa), ekki söguþráður og persónusköpun, heldur umgjörð hennar og útgáfa. Allir höfðu skoðun og margt fróðlegt og skynsamlegt kom fram. Nokkrum dögum eftir að greinin fór í loftið birti rithöfundurinn Hermann Stefánsson óborganlega svargrein hér á Kjarnanum og beindi þar orðum sínum til mín. Grein Hermanns er langt í frá gáfulegasta innleggið í þær umræður sem Bögglapóststofan hefur getið af sér en hún segir þó sína sögu. Hermann kompónerar grein sína í sömu tóntegund og ég mína. Hann beitir grófu orðalagi og glannalegum fullyrðingum, allt í því skyni að auka tilfinningagildi textans, og bætir m.a.s. um betur með því að nota líka útúrsnúninga, rökvillur og samhengis- og stefnulausar efnisgreinar. Útkoman er enn ein rósin í hnappagatið hjá þessum póstmóderníska gjörningalistamanni sem veit manna best að stíllinn tryggir lesturinn; í fjölmiðlaumhverfi nútímans eru uppþot og æsingur öruggasta leiðin til að þoka málum eitthvað áfram. Þetta er raunar nefnt beinlínis í grein Hermanns, þar sem hann segir: „Samtíminn er eins og jarmandi kór þar sem hver sakar annan um spillingu, fjöregginu er kastað á milli í von um að það springi í höndum einhvers annars.“ Að svo miklu leyti sem þessi orð Hermanns eru skiljanleg (af hverju fjöregg? geta fjöregg sprungið?) má af þeim ráða að honum mislíkar öfgafull yfirlýsingagleði af því tagi sem ég gerist sekur um í grein minni.

Þetta sjónarmið Hermanns er fullkomlega lögmætt, hann hefur ýmislegt til síns máls þegar hann fullyrðir að samtíminn sé á villigötum og að sú gagnrýna umræða sem hið opna samfélag grundvallast á þurfi æ oftar að víkja fyrir tómri steypu. En maður spyr sig: Veit hægri hönd Hermanns hvað vinstri höndin er búin að vera að gera síðustu fimmtán árin eða svo? Hermann Stefánsson hefur verið í hópi vígreifustu orðhákanna í íslenskri menningarumræðu nokkurn veginn frá aldamótum. Hann hefur hjólað í alla helstu slagsmálahundana á leikvellinum, hann hefur löðrungað Guðberg Bergsson, lamið Illuga Jökulsson, skriðtæklað Sigurð Gylfa Magnússon, buffað Hallgrím Helgason og Benedikt Erlingsson, flengt Nýhil, lúskrað á Kristjáni B. Jónassyni. Árum saman hefur Hermann verið með kindabyssuna á lofti. Hann er höfundur ótal bloggsíðna sem hafa brunnið heitar en eldurinn í stutta stund áður en þær hverfa að eilífu. Hann hefur æst sig í rituðu máli yfir hverjum þeim skandal sem hefur stíflað skilningarvit þjóðarinnar þá stundina – Draumalandið, IceSave, Blátt áfram, íslensku bókmenntaverðlaunin – heilög og innblásin vandlæting hans nær langt aftur fyrir Fésbók og Moggablogg. Hversu mjög sem Hermann Stefánsson amast við hinni krampakenndu, íslensku umræðuhefð er engu að síður ljóst að hann er sjálfur einn helsti holdgervingur hennar. Forlátið, en er ekki eitthvað öfugsnúið að fá skammir frá slíkum manni yfir því að maður sé að stuðla að öfgakenndri umræðu? Er það ekki svipað og ef Styrmir Gunnarsson færi að ásaka mann um Evrópusambandsandúð?

Auglýsing

Hermanni sárnar sú staðhæfing sem ég læt falla í greinni að mér þyki höfundarverk Braga Ólafssonar óintressant frá og með Sendiherranum (2006). Fleiri hafa mótmælt þessu og faktískt er þetta það atriði í greininni sem hefur vakið hvað hörðust viðbrögð. Augljóslega eru margir ósammála mér, sem er auðvitað frábært. Engum sögum fer hins vegar af því hvað Braga sjálfum finnst um þetta, sennilega er honum slétt sama enda ætlast ég ekki til þess að hann skrifi sínar bækur spesíalt fyrir mig. Við Bragi höfum vaxið í sundur með árunum, hann hefur fundið nýja lesendur og ég hef fundið nýja höfunda. Nákvæmlega ekkert athugavert við það. Er ekki óþarfi að láta smekk annarra fara svona hrikalega í taugarnar á sér? Eins og Hermann orðaði það sjálfur einu sinni: „Það má ennþá hafa smekk og tjá hann feimnislaust.“

Þegar gífuryrðin hafa verið flysjuð burt stendur eftirfarandi fullyrðing upp úr: „Reyndar var ég ekki sérlega hress með útgáfuformið og sagði Braga það sem ærlegast.“ Að mínu mati eru þetta helstu tíðindin við grein Hermanns. Ef aukaatriði og útúrdúrar eru látin liggja milli hluta og sjálft grundvallaratriði málsins er skoðað kemur í ljós að við Hermann erum alveg sammála.

2. hluti: VIÐ VERÐUM AÐ TALA UM PENINGA (þar sem greinarhöfundur reynir að fara í boltann en kemst þó ekki í þann bolta sem hann sjálfur telur mikilvægastan)


Afsakið sjálfhverfuna, en ég held áfram að tala um greinina eftir sjálfan mig, þessa sem birtist þarna um daginn. Í henni ræddi ég um listamannalaun og líkt og iðulega gerist þegar maður byrjar að tala um peninga leiðir það til þess að sú hlið málsins gnæfir yfir allt annað. Tilfellið er sem sagt að Bragi Ólafsson seldi fjármálafyrirtækinu Gamma Bögglapóststofuna og verkið var gefið út „nákvæmlega fyrir viðskiptavini Gamma og enga aðra“. Fyrri aðalsetningin í málsgreininni sem stendur á undan þessari er ekki stórt vandamál. Rithöfundum, líkt og öðrum listamönnum, er fullfrjálst að selja verk sín og það er enginn að ætlast til þess að þeir séu dæmdir til að lifa af naumt skömmtuðum ritlaunum einum saman. Bókaútgáfa er í eðli sínu bissness, íslensk bókaforlög bjóða fram vörur á markaði, vörur sem hafa tiltekið skiptigildi og eru undirseldar samkeppni við annars konar afþreyingu og gjafavöru. Það er í alvörunni ekkert tiltökumál þótt Forlagið, Bjartur og Hið íslenzka bókmenntafélag selji vörur sem eru framleiddar að hluta til fyrir almannafé.

Við verðum líka að gera greinarmun á margvíslegum farvegum fjármagns inn í listsköpun. Ef listamenn vilja ná sér í aukapening meðfram sköpun sinni með því að leika í auglýsingum er enginn sem bannar þeim það. Er einhver að æsa sig yfir því að María Ólafs hafi komið fram í kókauglýsingum? Jafnvel Thor Vilhjálmsson auglýsti Apple-tölvur án þess að orðstír hans biði nokkurn skaða af. Dylan er ekki gott dæmi því þegar hann auglýsti Victoria‘s Secret voru bara of mörg ár liðin síðan hann brann út. Hann er trénaður listamaður sem getur ekki lengur hreyft við fólki með sköpun sinni og þarf í staðinn að stóla á einhverja svona fjölmiðla-hysteríu til þess að ná í gegn. En Gates of Eden er eftir sem áður snilldarverk. Alveg eins og Gæludýrin er enn þá frábær skáldsaga þótt Bragi hafi misstigið sig í samstarfinu við Gamma. Munurinn er sá að það er afar ólíklegt að Dylan eigi eftir að gera fleiri góðar plötur en ég hef fulla trú á því að Bragi eigi enn nokkur tromp uppi í erminni.

Rithöfundur sem þiggur ritlaun á ekki að vera skilyrtur með nokkrum hætti fyrir að hafa þegið peningana. Hann á að vera frjáls til að skrifa um hvað sem er, hvernig sem er og beina orðum sínum hvert sem hann vill. Enginn hefur óskað eftir því að Bragi Ólafsson verði sviptur ritlaunum fyrir Bögglapóststofuna og að halda öðru eins fram er markleysa. En sú athöfn að fela lýsigullið sitt fyrir stærstum hluta lesenda þykir mér ekki beinlínis bera vott um mikla samfélagslega ábyrgð. Er annars óeðlilegt að ætlast til þess að rithöfundar séu ekki með öllu ábyrgðarlausir? Öll vitum við að listamannalaun eru eldfimt mál, sérstaklega hjá þeim hluta þjóðarinnar sem hvorki kaupir né les bækur, heimsækir aldrei Kjarvalsstaði, hlustar aldrei á Víðsjá. Við hin sem erum sannfærð um mikilvægi listamannalauna höfum flest þurft einhvern tímann að útskýra gildi þeirra fyrir fólki sem neitar að sjá heildarsamhengið og brigslar listamönnum um að vera afætur á samfélaginu eða eitthvað þaðan af verra. Sjálfur hef ég tekið þann slag við skrímsladeildina oftar en ég hef tölu á en ég nenni ómögulega að halda því áfram ef íslenskir rithöfundar ætla upp til hópa að útiloka mig frá verkum sínum framvegis. Þess vegna er Bögglapóststofan óþægileg. Hún er einhvers konar tilræði við þessa viðkvæmu sátt sem ríkir um ritlaunin.

Hermann Stefánsson hefur, ólíkt okkur flestum, lesið Bögglapóststofuna. Hann álasar mér fyrir að hafa ekki „drullast til að verða [mér] úti um bókina“ eins og Druslubókadömurnar (það tók þær fjóra mánuði að redda sér eintaki). Eiginlega jafngildir þetta því að Hermann sé að lesa mér pistilinn fyrir að vera ekki í réttu klíkunni. Umsögn Hermanns um bókina er nokkuð jákvæð og hann stingur upp á því að Bragi Ólafsson vinni verkið áfram og gefi það út í nýju formi, til dæmis sem leikrit. Það væri sannarlega góð lausn og ég yrði Braga þakklátur ef hann kæmi þessu verki áleiðis í farveg þar sem hið opna og almenna lesendasamfélag getur nálgast það, tekist á við það, sett það í samhengi. Ef Bragi gerði þetta í óþökk Gamma myndi ég senda honum þumalfingurinn og láta hann snúa upp. Þá sætu þeir í Gamma uppi með ritröð sem væri ekki annað en æfingavöllur, vettvangur fyrir hálfkláruð verk, uppköst og skissur, skrifaðar fyrir þá og enga aðra.

3. hluti: INNAN ÚR MYRKRINU, EINS OG ALLIR AÐRIR HLUTIR (þar sem greinarhöfundur kemst loksins í boltann og reynir að ná stoðsendingu)


Málið er sem sagt margþætt. Hermann Stefánsson ígrundar öll efnisatriðin gaumgæfilega og kemst að tvíþættri niðurstöðu: Að nepótismi tíðkist við mannaráðningar í Háskóla Íslands og að Birni Þór Vilhjálmssyni þyki Kata eftir Steinar Braga vera góð skáldsaga. Hvort tveggja er vont ef satt er, en ég er satt að segja enn að reyna að átta mig á því hvernig málið tók þessa óvæntu beygju. Kannski skrifar Hermann aðra svargrein þegar ég er búinn að birta þessa og Guð má vita hvað hann skammar mig fyrir þá. Makrílfrumvarpið? Veðrið? Nýju plötuna með Gísla Pálma? Lokaorðin hjá Hermanni eru yfirlýsing: Bókmenntafræðin er búin. „Þetta er búið,“ segir Hermann og bergmálar þannig slagorð tímaritsins IOOV þetta árið. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem Hermann fullyrðir að eitthvað sé búið en eins og glöggir lesendur muna lýsti hann því yfir árið 2007 að ljóðlistin væri búin. Þá voru aðeins fáeinir mánuðir liðnir frá því að hann sendi sjálfur frá sér sína fyrstu ljóðabók, Borg í þoku.

En þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta mál hvorki um ritlaun né bókmenntafræði. Og jafn undarlega og það kann að hljóma snýst hið svokallaða stóra Bragamál ekki einu sinni um Braga Ólafsson. Málið snýst um það að hér á landi eru komin fram öfl sem vilja stuðla að aðskilnaðarstefnu í menningarlífinu, fólk sem vill eiga sína prívat listsköpun og gína yfir henni líkt og Smjagall yfir hringnum án þess að aðrir fái að vera með. Það er ekki sölumennskan sem er vandamálið hér heldur útilokunin. Mér þykir þetta sannarlega umhugsunarefni og það að íslenskir rithöfundar skuli yfirhöfuð taka þátt í öðru eins þykir mér ákaflega hallærislegt. Bögglapóststofan sýnir okkur að kapítalið hegðar sér enn með sama hætti og það gerði árið 1911 þegar Mónu Lísu var stolið af Louvre. Þjófurinn, Eduardo de Valfierno, lét gera sex fölsuð eintök af myndinni og seldi þau öll til milljarðamæringa sem vissu ekki hver af öðrum, hver um sig var bara fullkomlega sáttur við að eiga sína leynilegu kompu til að geyma það sem hann sjálfur taldi að væri orginal eintakið. Hermann fer óvarlega með kindabyssuna og skýtur sjálfan sig í fótinn þegar hann ruglar saman kröfunni um aðgengi að bókmenntum og kröfunni um sem mesta dreifingu bóka. Ég er ekki að óska eftir því að öllum grunnskólabörnum landsins verði gefið eintak af Bögglapóststofunni eða að bókin verði gerð aðgengileg sem rafbók á netinu – ég er einungis að óska eftir því að okkur öllum verði gefinn möguleiki á að lesa hana ef við viljum. Gamma sniðgékk prentskil til Landsbókasafns sem flokkast nú eiginlega sem amatörismi af verstu sort hjá fyrirtæki sem virðist ætla sér stóra hluti í bókaútgáfu (bókaröð á teikniborðinu og meira að segja búið að hanna fyrstu tíu kápurnar). Prentskil hafa verið regla í þessu landi síðan 1941 og fyrir þeim er góð ástæða, þau eiga að tryggja það að afkomendur okkar geti í framtíðinni kortlagt bókmenntasamhengið í þeim tíma sem við lifum núna. Ekki gera lítið úr því.

Mér vitanlega hafa talsmenn Gamma ekki blandað sér í umræðurnar sem hafa farið fram um Bögglapóststofuna en teikn eru á lofti um að þeir hafi séð að sér eða séu að endurskoða taktíkina. Þegar bókinni er slegið upp í Gegni kemur nú í ljós að bókin er komin á Landsbókasafnið og bíður bands. Hún var skráð í kerfið þann 15. maí kl. 15:36, nákvæmlega viku eftir að málið komst í hámæli. Bögglapóststofan er komin innan úr myrkrinu. Það er þó eitthvað.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None