Íbúar á Seyðisfirði hafa ýmsar ólíkar áherslur fyrir mótmælum sínum gegn því að 10 þúsund tonna opið sjókvíaeldi verði sett ofan í fjörðinn en það sem sameinar hópinn er þetta:
# Fullkomið samráðsleysi fyrirtækisins við bæjaryfirvöld, við íbúa og aðra hagsmunaaðila er málið varða.
# Að fyrirtækið túlki óskýra hafnarlöggjöfina þannig að höfnin/bæjaryfirvöld fyrir hönd íbúa hafi ekkert skipulagsvald á sínu hafnarsvæði árið 2021.
Það eru mikil vonbrigði að Múlaþing taki ekki alvarlega að 55 % íbúa hafi skrifað undir yfirlýsingu gegn öllu sjókvíaeldi í firðinum. Þetta er þvert á gefin fyrirheit í nýafstöðnu sameiningarferli þar sem loforð um íbúalýðræði og að hver bæjarkjarni haldi sinni sérstöðu var haldið á lofti. Eina leiðin hér á Seyðisfirði var því að stofna félagasamtökin VÁ! Félag um vernd fjarðar og ráða lögfræðing til þess að finna og leiða í ljós fjölmarga galla sem voru í frummatsferli Fiskeldis Austfjarða. Því miður bendir flest til þess að meirihluti sveitarstjórnar ætli að freista þess að koma þessum áformum í gegn og halda áfram sérstakri hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin, sem unnu sannarlega í kvótalottói íslenska ríkisins, frekar en að standa vörð um hagsmuni íbúa á Seyðisfirði.
Ekki undirstaða atvinnu
Sjókvíaeldi er gagnrýnt meðal fjölmarga vísindamanna og er starfsemin skilgreind mengandi. Ef náttúran hefur einhvern tímann átt að fá að njóta vafans - þá er það núna. Framtíð iðnaðarins er ekki í opnu sjókvíaeldi með tilheyrandi áhrifum á náttúru, fiskistofna og lífsviðurværi fjarða. Þetta eru upplýsingar sem má lesa frá iðnaðinum sjálfum. Sú mikla framleiðsluaukning sem er fyrirséð í landeldi á næstu árum mun breyta landslaginu í þessum iðnaði varanlega. Rekstur sjókvíaeldis á svæðum þar sem starfsemin er kostnaðarsöm og flutningur eldislaxins á markað er flókinn, verður í vandræðum innan næsta áratugar. Það er ekki tilviljun að norskir fjárfestar eru víðast hvar í aðalhlutverkum í landeldis uppbyggingunni, allt frá Japan til Bandaríkjanna. Þetta er fólk sem þekkir innviði kerfisins, hefur langa reynslu af laxeldi og áttar sig á þeim möguleikum sem felast í því að þurfa ekki að fljúga laxinum um langan veg þangað sem á að selja hann.
Víti til varnaðar fyrir vestan
Vert er að skoða í þessu sambandi siðferðisvitund stórfyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi. Það vafðist ekki fyrir sjávarútvegsfyrirtækjum að leggja af útgerð og vinnslu í hverju þorpinu á fætur öðru til þess að geta aukið við arðgreiðslur eiganda sinna. Það var ekki horft til byggðarlaganna og framtíð þeirra þá. Skilaboð sjókvíaeldisfyrirtækjanna í dag eru að nú sé björgunin til þessara sömu þorpa komin - nema hvað að leikborðið er alveg eins uppsett, meira að segja aðeins verra. En það verða aftur örfáir sem taka arðinn til sín og það sem verra er að fyrirtækin eignast bæjarfélögin. Setja upp sín verð og sínar kröfur þegar völdin eru orðin nægileg, til þeirra þarf að sækja hvers kyns styrki og guð hjálpi þér ef þú ætlar ekki að spila með. Niðurstaðan er óheilbrigður samfélagsstrúktur þar sem fáir ráða ríkjum án þess að fólk átti sig endilega á því. Við höfum séð þetta raungerast á Vestfjörðum þar sem þegar er hafið dómsmál vegna vangoldinna efnda í greiðslu til sveitarfélagsins. Það er merkilegt að þeir sýna sitt rétta andlit svona fljótt og áður en öll leyfi eru komin til framkvæmda. Það ætti að geta orðið okkur víti til varnaðar.
Nú spretta upp jákvæðar umfjallanir um mikilvægi sjókvíaeldis fyrir efnahagsbúskap þjóðarinnar. Þá er mikilvægt að muna aftur eftir þessari siðferðisvitund fyrirtækja. Ennþá hefur enginn tekjuskattur verið greiddur af greininni og jú vissulega mikil uppbygging og aukning að eiga sér stað. Þegar kemur að því að taka út arðinn þá verður mjög auðvelt að greiða háar fjárhæðir á móti útflutningstekjum í hvers kyns ráðgjöf, fóður og tækjakostnað - og taka arðinn út þar sem það er hagkvæmara. Horfið á hverjir eru á bakvið fiskeldið og hvernig þeir komust þangað. Þetta eru yfirleitt menn sem eru nátengdir pólitíkinni og eru sannarlega komnir á feitan spena fyrir því að liðka til á réttum stöðum. Það er búið að láta sjókvíaeldiskvóta þjóðarinnar í hendur örfárra aðila fyrir lítið brot af því sem greiða þyrfti fyrir hann í Noregi. Af hverju fær þetta að gerast í miðri baráttu fyrir breytingum á auðlindaákvæðum stjórnarsáttmálans?
Það er ekki hægt að stilla því þannig upp að þar sem Seyðfirðingar setji sig upp á móti opnu sjókvíaeldi með þessum yfirgangi sé samfélagið á móti atvinnuuppbyggingu. Þvert á móti hefur verið uppbygging á undanförnum árum og mikil trú á framtíðina með kröftugu fólki sem hér býr. Á Seyðisfirði er núna auðugur jarðvegur og margir sprotar hafa sprottið upp á heilbrigðum hraða. Það er nóg eftir af fræjum og við viljum veðja á þau. Við veðjum ekki á skammtímagróða sem þegar heildarmyndin er skoðuð er mjög fáum til framdráttar og umfram allt er náttúrunni hættulegur.
Allir sem vilja styðja rödd okkar geta skráð sig á heimasíðu félagsins: www.va-felag.is
Höfundur er meðlimur í félagasamtökunum VÁ.