Brýnasta úrlausnarefnið bíður enn

Björgvin G. Sigurðsson skrifar um gjaldmiðils- og Evrópumál.

Auglýsing

Enn er það óljóst af hve miklum þunga stjórnmálaflokkarnir ætla að takast á við brýnasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála.

Þau eru vissulega mörg, svo sem að stórbæta kjör lífeyrisþega og tryggja þjóðinni réttlátan arð af auðlindum sínum. Annað er þó miklu stærra hagsmunamál til lengri tíma, fyrir bæði atvinnulíf og einstaklinga, ekki síst þá sem höllustum fæti standa.

Ég á við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Umsóknin bíður

Alþingi samþykkti sumarið 2009 að sækja um aðild að ESB. Samningaviðræður gengu vel, en einstaka ráðherrum og þingmönnum Vinstri grænna tókst að koma í veg fyrir að þær yrðu kláraðar.

Næsta ríkisstjórn þóttist geta dregið umsóknina til baka með einföldu bréfi, en að því var hlegið í Evrópu. Bréf frá utanríkisráðherra ógildir ekki ákvörðun Alþingis. Aðildarumsóknin er því í fullu gildi og bíður næstu skrefa.

Alltaf hefur legið fyrir að hugsanlegur samningur yrði borinn undir þjóðaratkvæði, en sennilega er skynsamlegt að þjóðin greiði líka atkvæði um að endurvekja skuli samningsferlið. Með jákvæðri niðurstöðu hefðu stjórnvöld óskorað umboð til verksins.

Umræðan er grátlega yfirborðskennd

Þegar þetta mikla hagsmunamál er nefnt opinberlega stendur upp úr öðrum hverjum manni að það „sé ekki á dagskrá“ og þess vegna þurfi ekki að ræða það. Síðast tók þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu svona til orða um liðna helgi.

Þetta er fráleit fullyrðing. Þau mál eru sjálfkrafa á dagskrá sem þjóðin vill og þarf að tala um. Allar kannanir benda til þess að stór hluti þjóðarinnar vilji ljúka samningaviðræðum, annar hluti er óviss, en stærri hlutinn andvígur aðild sama hvað. Þessi er staðan núna, en hefur iðulega verið á aðra vegu.

Auglýsing
Þótt ekki væri nema þess vegna þarf að komast að niðurstöðu í svo stóru máli, og hlíta vilja þjóðarinnar þegar samningur liggur fyrir. Hún getur nefnilega ekki tekið afstöðu fyrr en eitthvað er til að móta sér skoðun á.

Umræða um það sem er ekki til er í besta falli yfirborðskennd og villandi.

Hvað með fiskinn og fullveldið?

Þetta tvennt er hryggjarstykkið í yfirborðskenndum áróðri ESB-andstæðinga.

Enginn veit hvers konar samningur næðist um áframhaldandi forræði yfir sjávarauðlindunum. Mörg fordæmi benda til þess að Íslendingar gætu haft þar fullan sigur síns málstaðar, enda myndi ekki hvarfla að nokkrum stjórnmálaflokki að bera annað á borð fyrir þjóðina.

Þeir sem segja að reglur Evrópusambandsins í þessum efnum séu geirnegldar og óhagganlegar vita annaðhvort ekki neitt um sambandið eða tala sér þvert um hug.

Svokallaðar undanþágur eða sérreglur í samningum skipta nefnilega þúsundum, í stóru sem smáu.

Evrópusambandið er nefnilega ekki yfirþjóðlegt vald sem vill með yfirgangi sölsa undir sig auðlindir ríkjanna. ESB er samstarf fullvalda ríkja og vill allra síst sýna yfirgang gagnvart smáríkjum – þvert á móti. Í sambandinu er nefnilega fjöldi lítilla ríkja sem hefur jafnan atkvæðisrétt á við hin stærri.

Og já einmitt. Fullvalda ríki. Það er hin klisjan sem klifað er á. Að með aðild að ESB myndi Ísland afsala sér fullveldinu, hvað sem það nú merkir í reynd.

Stöldrum aðeins við. Vill einhver í alvöru halda því fram að Danmörk og Finnland séu ekki frjáls og fullvalda ríki? Pólland? Tékkland? Austurríki? Slíkar fullyrðingar standast enga skoðun, en samt er þetta frasinn sem sífellt er gripið til, af því að hann höfðar til fremur frumstæðrar þjóðerniskenndar.

Lítum okkur ennþá nær. Sífellt fleiri Skotar vilja nú sjálfstæði eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu.

Hvers vegna? Jú, þeir vilja sjálfstæði til þess að geta gengið í Evrópusambandið, af því að þeim er betur borgið í samstarfi þjóða en í einangrun enskra íhaldsmanna.

Eða halda ESB-andstæðingar virkilega að Skotar vilji sjálfstæði til þess eins að afsala sér fullveldinu við fyrsta tækifæri? Slík hundalógík gengur ekki upp.

Hvers vegna er Evrópusambandið mikilvægt?

Stærstu rökin eru að það er best heppnaða lýðræðis- og friðarbandalag mannkynssögunnar.

Sum ríki frá þar ekki inngöngu, til dæmis Tyrkland, af því að þau uppfylla ekki kröfur um grundvallar lýð- og mannréttindi. Önnur reyna mjög á þolrif sambandsins, til dæmis Ungverjaland og Pólland, af sömu ástæðum.

Lýðræði og mannréttindi eru ekki sjálfgefin. Það segir sagan okkur allt fram á okkar daga, og íslenska ríkið fær reglulega áminningu frá evrópskum stofnunum um það sem fer aflaga hér. Það vilja sumir íhaldsmenn kalla „íhlutun í innanríkismál“ og enduróma þá skoðanabræður sína í Ungverjalandi og Póllandi.

Aðild að ESB er líka fullveldismál, alveg þvert á hinn einfalda áróður. Ísland er nú þegar í ESB að stærstum hluta. Okkur ber samkvæmt EES-samningnum að taka við samþykktum þess í bunkum á hverju á hverju ári, án þess að hafa nokkuð um innihald þeirra að segja. Á meðan fullvalda ríkin semja sín á milli erum við látin sitja frammi á gangi og er svo tilkynnt niðurstaðan.

Það er ekki samstarf fullvalda ríkja. Það er nær tilskipunarvaldi og nýlendustöðu. Þess vegna myndi aðild að ESB styrkja fullveldi Íslands, en ekki veikja það. Þetta vita Skotar, sem vilja ekki vera undir vald Englendinga settir, heldur gera sína eigin samninga.

Blessuð evran – eða öllu heldur krónan

Aðrir vilja nefna evruna sem rök fyrir aðild að ESB – eða öllu heldur hina liðónýtu krónu sem kostar okkur milljarðatugi á hverju ári að halda úti. Þetta er mikilvæg röksemd, en veikari.

Það skiptir minnstu hvað gjaldmiðillinn heitir. Danir halda sinni krónu, en tengja hana við evruna eftir tilteknu kerfi. Færeyska krónan er svo beintengd þeirri dönsku.

Það sem skiptir máli er stöðugleiki. Og ef Íslendingar vita eitthvað, þá er það að íslenska krónan er forskrift að stöðugum óstöðugleika. Það höfum við reynt í þau hundrað ár hún hefur rýrnað um hátt í hundrað prósent gagnvart upphaflegum „jafnoka“ sínum, dönsku krónunni.

Færeyska krónan er stöðugri en sú íslenska.

Hver nákvæmlega útfærslan á gjaldmiðilsmálum væri er úrlausnarefni fyrir hagfræðinga, en verkefnið er stærsta hagsmunamál einstaklinga, heimila og smærri fyrirtækja. Þau stóru hafa fyrir löngu flúið krónuna og gera upp í öðrum gjaldmiðlum. Það er ekki tilviljun. Fjármálastjórarnir þar kunna að reikna.

Auglýsing
Evrunni hefur verið spáð dauðdaga í rúmlega tuttugu ár, en hún hefur sjaldan verið sterkari þrátt fyrir margvísleg áföll í ytra umhverfi. Hún er ekki endilega eina lausnin, en hún býður upp á stöðugleika sem okkur sárvantar. Krónan er vandinn.

Þetta vissu allir eftir gjaldeyrishrunið 2008. Bjarni Ben. vildi taka upp evru. Steingrímur J. kann norsku og vildi krónuna þeirra. Sigmundur Davíð stakk upp á svissneskum franka eða jafnvel kanadískum dollar. Enginn stakk upp á krónunni.

Skömmu síðar – þegar allur almenningur hafði enn einu sinni fengið að kenna á hruni krónunnar – urðu þeir allir aftur unnendur þessa gjaldmiðils, sem gerir venjulegan heimilisrekstur líkastan rekstri vogunarsjóðs.

Svo þetta litla, sem er þó stórt

Við Íslendingar njótum góðs af Evrópusamstarfinu á fleiri vegu en okkur grunar. Flestar úrbætur í umhverfismálum eru þaðan komnar, svo og miklum mun sterkari reglur um réttindi launafólks en áður höfðu fengist, svo fátt sé nefnt.

Það kostar mig núna jafn mikið að hringja úr farsímanum mínum til Bolungarvíkur og Berlínar. Það er Evrópusambandinu að þakka. Ríkin ákváðu með samstilltu átaki að pína símafyrirtækin til að láta af okri sínu í símtölum milli á landa. Jafnvel þótt Alþingi hefði fengið viðlíka hugmynd og samþykkt hana (sem er ósennilegt), þá hefði það ekki skipt neinu máli.

Ísland á nefnilega svo feiknamikið undir alþjóðlegu samstarfi, sama hversu mikið þjóðrembur belgja sig út um sjálfstæði og fullveldi. Fullveldi fæst aðeins með alþjóðlegu samstarfi, af því að bæði smæstu og stærstu viðfangsefni samtímans verða aðeins leyst þvert á landamæri.

Lítum okkur nær

En lítum okkur ennþá nær. Þrátt fyrir margar samþykktir og áætlanir hefur aldrei verið mótuð nothæf byggðastefna á Íslandi. Þar gengur sífellt á með reddingum og smáskammtalækningum, ekki almennum reglum eða stefnumótun.

Þetta er engin tilviljun. Það þjónar hagsmunum stjórnmálamanna að halda miðstýringarvaldinu í Reykjavík, svo að þeir geti deilt þaðan sjálfsögðum gæðum og hreykt sér svo af því fyrir kosningar.

Tökum nýlegt dæmi. Nokkur sveitarfélög á Austurlandi ákváðu fyrir skömmu að sameinast. Ein meginröksemdin fyrir þeim samruna var að með honum vonuðust þeir til þess að samgöngur á milli staða bötnuðu. Þá erum við að tala um Öxi, Fjarðarheiði og ólánsveginn til Borgarfjarðar.

Sigurður Ingi vegamálaráðherra tók undir og gaf í skyn að hann myndi beita sér í málinu.

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu þyrftu vegabætur hér ekki að vera undir því komnar hvernig samgönguráðherra gengi í kosningum. 

Byggðastefna sem bragð er að

ESB hefur fyrir löngu mótað sér byggðastefnu, með almennum og skýrum reglum, sem lúta ekki duttlungum einstaka stjórnmálamanna.

Í henni felst til dæmis að tryggja samgöngur á milli byggðarlaga. Þeir sem hafa ekið nýlega um hin gömlu ríki Júgóslavíu hafa orðið vitni að hreinni byltingu þar í samgöngumálum.

Fleiri hafa hugsanlega komið til Tenerife, þar sem Evrópusambandið lagði hraðbraut til þess að tengja dreifðar byggðir og styrkja innviði ferðaþjónustu.

Ég treysti mér til að fullyrða að með aðild að ESB yrðu einbreiðar brýr á Íslandi horfnar á fáeinum árum, fremur að þær úrbætur yltu á því hvernig stæði í bólinu hjá íslenska samgönguráðherranum hverju sinni.

Brýnasta úrlausnarefni lýðveldissögunnar bíður því enn. Það mun ráða úrslitum um þróun hagsældar bæði einstaklinga og fyrirtækja af hvaða þunga og alvöru flokkarnir setja málið á dagskrá í komandi kosningum.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar