Brýnasta úrlausnarefnið bíður enn

Björgvin G. Sigurðsson skrifar um gjaldmiðils- og Evrópumál.

Auglýsing

Enn er það óljóst af hve miklum þunga stjórn­mála­flokk­arnir ætla að takast á við brýn­asta úrlausn­ar­efni íslenskra stjórn­mála.

Þau eru vissu­lega mörg, svo sem að stór­bæta kjör líf­eyr­is­þega og tryggja þjóð­inni rétt­látan arð af auð­lindum sín­um. Annað er þó miklu stærra hags­muna­mál til lengri tíma, fyrir bæði atvinnu­líf og ein­stak­linga, ekki síst þá sem höllustum fæti standa.

Ég á við aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu.

Umsóknin bíður

Alþingi sam­þykkti sum­arið 2009 að sækja um aðild að ESB. Samn­inga­við­ræður gengu vel, en ein­staka ráð­herrum og þing­mönnum Vinstri grænna tókst að koma í veg fyrir að þær yrðu klárað­ar.

Næsta rík­is­stjórn þótt­ist geta dregið umsókn­ina til baka með ein­földu bréfi, en að því var hlegið í Evr­ópu. Bréf frá utan­rík­is­ráð­herra ógildir ekki ákvörðun Alþing­is. Aðild­ar­um­sóknin er því í fullu gildi og bíður næstu skrefa.

Alltaf hefur legið fyrir að hugs­an­legur samn­ingur yrði bor­inn undir þjóð­ar­at­kvæði, en senni­lega er skyn­sam­legt að þjóðin greiði líka atkvæði um að end­ur­vekja skuli samn­ings­ferl­ið. Með jákvæðri nið­ur­stöðu hefðu stjórn­völd óskorað umboð til verks­ins.

Umræðan er grát­lega yfir­borðs­kennd

Þegar þetta mikla hags­muna­mál er nefnt opin­ber­lega stendur upp úr öðrum hverjum manni að það „sé ekki á dag­skrá“ og þess vegna þurfi ekki að ræða það. Síð­ast tók þátta­stjórn­andi hjá Rík­is­út­varp­inu svona til orða um liðna helgi.

Þetta er frá­leit full­yrð­ing. Þau mál eru sjálf­krafa á dag­skrá sem þjóðin vill og þarf að tala um. Allar kann­anir benda til þess að stór hluti þjóð­ar­innar vilji ljúka samn­inga­við­ræð­um, annar hluti er óviss, en stærri hlut­inn and­vígur aðild sama hvað. Þessi er staðan núna, en hefur iðu­lega verið á aðra vegu.

Auglýsing
Þótt ekki væri nema þess vegna þarf að kom­ast að nið­ur­stöðu í svo stóru máli, og hlíta vilja þjóð­ar­innar þegar samn­ingur liggur fyr­ir. Hún getur nefni­lega ekki tekið afstöðu fyrr en eitt­hvað er til að móta sér skoðun á.

Umræða um það sem er ekki til er í besta falli yfir­borðs­kennd og vill­andi.

Hvað með fisk­inn og full­veld­ið?

Þetta tvennt er hryggjar­stykkið í yfir­borðs­kenndum áróðri ESB-and­stæð­inga.

Eng­inn veit hvers konar samn­ingur næð­ist um áfram­hald­andi for­ræði yfir sjáv­ar­auð­lind­un­um. Mörg for­dæmi benda til þess að Íslend­ingar gætu haft þar fullan sigur síns mál­stað­ar, enda myndi ekki hvarfla að nokkrum stjórn­mála­flokki að bera annað á borð fyrir þjóð­ina.

Þeir sem segja að reglur Evr­ópu­sam­bands­ins í þessum efnum séu geir­negldar og óhagg­an­legar vita ann­að­hvort ekki neitt um sam­bandið eða tala sér þvert um hug.

Svo­kall­aðar und­an­þágur eða sér­reglur í samn­ingum skipta nefni­lega þús­und­um, í stóru sem smáu.

Evr­ópu­sam­bandið er nefni­lega ekki yfir­þjóð­legt vald sem vill með yfir­gangi sölsa undir sig auð­lindir ríkj­anna. ESB er sam­starf full­valda ríkja og vill allra síst sýna yfir­gang gagn­vart smá­ríkjum – þvert á móti. Í sam­band­inu er nefni­lega fjöldi lít­illa ríkja sem hefur jafnan atkvæð­is­rétt á við hin stærri.

Og já einmitt. Full­valda ríki. Það er hin klisjan sem klifað er á. Að með aðild að ESB myndi Ísland afsala sér full­veld­inu, hvað sem það nú merkir í reynd.

Stöldrum aðeins við. Vill ein­hver í alvöru halda því fram að Dan­mörk og Finn­land séu ekki frjáls og full­valda ríki? Pól­land? Tékk­land? Aust­ur­ríki? Slíkar full­yrð­ingar stand­ast enga skoð­un, en samt er þetta fras­inn sem sífellt er gripið til, af því að hann höfðar til fremur frum­stæðrar þjóð­ern­is­kennd­ar.

Lítum okkur ennþá nær. Sífellt fleiri Skotar vilja nú sjálf­stæði eftir að Bret­land gekk úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Hvers vegna? Jú, þeir vilja sjálf­stæði til þess að geta gengið í Evr­ópu­sam­band­ið, af því að þeim er betur borgið í sam­starfi þjóða en í ein­angrun enskra íhalds­manna.

Eða halda ESB-and­stæð­ingar virki­lega að Skotar vilji sjálf­stæði til þess eins að afsala sér full­veld­inu við fyrsta tæki­færi? Slík hundalógík gengur ekki upp.

Hvers vegna er Evr­ópu­sam­bandið mik­il­vægt?

Stærstu rökin eru að það er best heppn­aða lýð­ræð­is- og frið­ar­banda­lag mann­kyns­sög­unn­ar.

Sum ríki frá þar ekki inn­göngu, til dæmis Tyrk­land, af því að þau upp­fylla ekki kröfur um grund­vallar lýð- og mann­rétt­indi. Önnur reyna mjög á þol­rif sam­bands­ins, til dæmis Ung­verja­land og Pól­land, af sömu ástæð­um.

Lýð­ræði og mann­rétt­indi eru ekki sjálf­gef­in. Það segir sagan okkur allt fram á okkar daga, og íslenska ríkið fær reglu­lega áminn­ingu frá evr­ópskum stofn­unum um það sem fer aflaga hér. Það vilja sumir íhalds­menn kalla „íhlutun í inn­an­rík­is­mál“ og end­ur­óma þá skoð­ana­bræður sína í Ung­verja­landi og Pól­landi.

Aðild að ESB er líka full­veld­is­mál, alveg þvert á hinn ein­falda áróð­ur. Ísland er nú þegar í ESB að stærstum hluta. Okkur ber sam­kvæmt EES-­samn­ingnum að taka við sam­þykktum þess í bunkum á hverju á hverju ári, án þess að hafa nokkuð um inni­hald þeirra að segja. Á meðan full­valda ríkin semja sín á milli erum við látin sitja frammi á gangi og er svo til­kynnt nið­ur­stað­an.

Það er ekki sam­starf full­valda ríkja. Það er nær til­skip­un­ar­valdi og nýlendu­stöðu. Þess vegna myndi aðild að ESB styrkja full­veldi Íslands, en ekki veikja það. Þetta vita Skot­ar, sem vilja ekki vera undir vald Eng­lend­inga sett­ir, heldur gera sína eigin samn­inga.

Blessuð evran – eða öllu heldur krónan

Aðrir vilja nefna evr­una sem rök fyrir aðild að ESB – eða öllu heldur hina lið­ó­nýtu krónu sem kostar okkur millj­arða­tugi á hverju ári að halda úti. Þetta er mik­il­væg rök­semd, en veik­ari.

Það skiptir minnstu hvað gjald­mið­ill­inn heit­ir. Danir halda sinni krónu, en tengja hana við evr­una eftir til­teknu kerfi. Fær­eyska krónan er svo bein­tengd þeirri dönsku.

Það sem skiptir máli er stöð­ug­leiki. Og ef Íslend­ingar vita eitt­hvað, þá er það að íslenska krónan er for­skrift að stöð­ugum óstöð­ug­leika. Það höfum við reynt í þau hund­rað ár hún hefur rýrnað um hátt í hund­rað pró­sent gagn­vart upp­haf­legum „jafn­oka“ sín­um, dönsku krón­unni.

Fær­eyska krónan er stöðugri en sú íslenska.

Hver nákvæm­lega útfærslan á gjald­mið­ils­málum væri er úrlausn­ar­efni fyrir hag­fræð­inga, en verk­efnið er stærsta hags­muna­mál ein­stak­linga, heim­ila og smærri fyr­ir­tækja. Þau stóru hafa fyrir löngu flúið krón­una og gera upp í öðrum gjald­miðl­um. Það er ekki til­vilj­un. Fjár­mála­stjór­arnir þar kunna að reikna.

Auglýsing
Evrunni hefur verið spáð dauð­daga í rúm­lega tutt­ugu ár, en hún hefur sjaldan verið sterk­ari þrátt fyrir marg­vís­leg áföll í ytra umhverfi. Hún er ekki endi­lega eina lausn­in, en hún býður upp á stöð­ug­leika sem okkur sár­vant­ar. Krónan er vand­inn.

Þetta vissu allir eftir gjald­eyr­is­hrunið 2008. Bjarni Ben. vildi taka upp evru. Stein­grímur J. kann norsku og vildi krón­una þeirra. Sig­mundur Davíð stakk upp á sviss­neskum franka eða jafn­vel kanadískum doll­ar. Eng­inn stakk upp á krón­unni.

Skömmu síðar – þegar allur almenn­ingur hafði enn einu sinni fengið að kenna á hruni krón­unnar – urðu þeir allir aftur unn­endur þessa gjald­mið­ils, sem gerir venju­legan heim­il­is­rekstur lík­astan rekstri vog­un­ar­sjóðs.

Svo þetta litla, sem er þó stórt

Við Íslend­ingar njótum góðs af Evr­ópu­sam­starf­inu á fleiri vegu en okkur grun­ar. Flestar úrbætur í umhverf­is­málum eru þaðan komn­ar, svo og miklum mun sterk­ari reglur um rétt­indi launa­fólks en áður höfðu feng­ist, svo fátt sé nefnt.

Það kostar mig núna jafn mikið að hringja úr far­sím­anum mínum til Bol­ung­ar­víkur og Berlín­ar. Það er Evr­ópu­sam­band­inu að þakka. Ríkin ákváðu með sam­stilltu átaki að pína síma­fyr­ir­tækin til að láta af okri sínu í sím­tölum milli á landa. Jafn­vel þótt Alþingi hefði fengið við­líka hug­mynd og sam­þykkt hana (sem er ósenni­leg­t), þá hefði það ekki skipt neinu máli.

Ísland á nefni­lega svo feikna­mikið undir alþjóð­legu sam­starfi, sama hversu mikið þjóð­rembur belgja sig út um sjálf­stæði og full­veldi. Full­veldi fæst aðeins með alþjóð­legu sam­starfi, af því að bæði smæstu og stærstu við­fangs­efni sam­tím­ans verða aðeins leyst þvert á landa­mæri.

Lítum okkur nær

En lítum okkur ennþá nær. Þrátt fyrir margar sam­þykktir og áætl­anir hefur aldrei verið mótuð not­hæf byggða­stefna á Íslandi. Þar gengur sífellt á með redd­ingum og smá­skammta­lækn­ing­um, ekki almennum reglum eða stefnu­mót­un.

Þetta er engin til­vilj­un. Það þjónar hags­munum stjórn­mála­manna að halda mið­stýr­ing­ar­vald­inu í Reykja­vík, svo að þeir geti deilt þaðan sjálf­sögðum gæðum og hreykt sér svo af því fyrir kosn­ing­ar.

Tökum nýlegt dæmi. Nokkur sveit­ar­fé­lög á Aust­ur­landi ákváðu fyrir skömmu að sam­ein­ast. Ein meg­in­rök­semdin fyrir þeim sam­runa var að með honum von­uð­ust þeir til þess að sam­göngur á milli staða bötn­uðu. Þá erum við að tala um Öxi, Fjarð­ar­heiði og óláns­veg­inn til Borg­ar­fjarð­ar.

Sig­urður Ingi vega­mála­ráð­herra tók undir og gaf í skyn að hann myndi beita sér í mál­inu.

Ef Ísland væri í Evr­ópu­sam­band­inu þyrftu vega­bætur hér ekki að vera undir því komnar hvernig sam­göngu­ráð­herra gengi í kosn­ing­um. 

Byggða­stefna sem bragð er að

ESB hefur fyrir löngu mótað sér byggða­stefnu, með almennum og skýrum regl­um, sem lúta ekki duttl­ungum ein­staka stjórn­mála­manna.

Í henni felst til dæmis að tryggja sam­göngur á milli byggð­ar­laga. Þeir sem hafa ekið nýlega um hin gömlu ríki Júgóslavíu hafa orðið vitni að hreinni bylt­ingu þar í sam­göngu­mál­um.

Fleiri hafa hugs­an­lega komið til Tenerife, þar sem Evr­ópu­sam­bandið lagði hrað­braut til þess að tengja dreifðar byggðir og styrkja inn­viði ferða­þjón­ustu.

Ég treysti mér til að full­yrða að með aðild að ESB yrðu ein­breiðar brýr á Íslandi horfnar á fáeinum árum, fremur að þær úrbætur yltu á því hvernig stæði í bólinu hjá íslenska sam­göngu­ráð­herr­anum hverju sinni.

Brýn­asta úrlausn­ar­efni lýð­veld­is­sög­unnar bíður því enn. Það mun ráða úrslitum um þróun hag­sældar bæði ein­stak­linga og fyr­ir­tækja af hvaða þunga og alvöru flokk­arnir setja málið á dag­skrá í kom­andi kosn­ing­um.

Höf­undur er fyrr­ver­andi þing­maður og ráð­herra.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar