Brýnasta úrlausnarefnið bíður enn

Björgvin G. Sigurðsson skrifar um gjaldmiðils- og Evrópumál.

Auglýsing

Enn er það óljóst af hve miklum þunga stjórn­mála­flokk­arnir ætla að takast á við brýn­asta úrlausn­ar­efni íslenskra stjórn­mála.

Þau eru vissu­lega mörg, svo sem að stór­bæta kjör líf­eyr­is­þega og tryggja þjóð­inni rétt­látan arð af auð­lindum sín­um. Annað er þó miklu stærra hags­muna­mál til lengri tíma, fyrir bæði atvinnu­líf og ein­stak­linga, ekki síst þá sem höllustum fæti standa.

Ég á við aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu.

Umsóknin bíður

Alþingi sam­þykkti sum­arið 2009 að sækja um aðild að ESB. Samn­inga­við­ræður gengu vel, en ein­staka ráð­herrum og þing­mönnum Vinstri grænna tókst að koma í veg fyrir að þær yrðu klárað­ar.

Næsta rík­is­stjórn þótt­ist geta dregið umsókn­ina til baka með ein­földu bréfi, en að því var hlegið í Evr­ópu. Bréf frá utan­rík­is­ráð­herra ógildir ekki ákvörðun Alþing­is. Aðild­ar­um­sóknin er því í fullu gildi og bíður næstu skrefa.

Alltaf hefur legið fyrir að hugs­an­legur samn­ingur yrði bor­inn undir þjóð­ar­at­kvæði, en senni­lega er skyn­sam­legt að þjóðin greiði líka atkvæði um að end­ur­vekja skuli samn­ings­ferl­ið. Með jákvæðri nið­ur­stöðu hefðu stjórn­völd óskorað umboð til verks­ins.

Umræðan er grát­lega yfir­borðs­kennd

Þegar þetta mikla hags­muna­mál er nefnt opin­ber­lega stendur upp úr öðrum hverjum manni að það „sé ekki á dag­skrá“ og þess vegna þurfi ekki að ræða það. Síð­ast tók þátta­stjórn­andi hjá Rík­is­út­varp­inu svona til orða um liðna helgi.

Þetta er frá­leit full­yrð­ing. Þau mál eru sjálf­krafa á dag­skrá sem þjóðin vill og þarf að tala um. Allar kann­anir benda til þess að stór hluti þjóð­ar­innar vilji ljúka samn­inga­við­ræð­um, annar hluti er óviss, en stærri hlut­inn and­vígur aðild sama hvað. Þessi er staðan núna, en hefur iðu­lega verið á aðra vegu.

Auglýsing
Þótt ekki væri nema þess vegna þarf að kom­ast að nið­ur­stöðu í svo stóru máli, og hlíta vilja þjóð­ar­innar þegar samn­ingur liggur fyr­ir. Hún getur nefni­lega ekki tekið afstöðu fyrr en eitt­hvað er til að móta sér skoðun á.

Umræða um það sem er ekki til er í besta falli yfir­borðs­kennd og vill­andi.

Hvað með fisk­inn og full­veld­ið?

Þetta tvennt er hryggjar­stykkið í yfir­borðs­kenndum áróðri ESB-and­stæð­inga.

Eng­inn veit hvers konar samn­ingur næð­ist um áfram­hald­andi for­ræði yfir sjáv­ar­auð­lind­un­um. Mörg for­dæmi benda til þess að Íslend­ingar gætu haft þar fullan sigur síns mál­stað­ar, enda myndi ekki hvarfla að nokkrum stjórn­mála­flokki að bera annað á borð fyrir þjóð­ina.

Þeir sem segja að reglur Evr­ópu­sam­bands­ins í þessum efnum séu geir­negldar og óhagg­an­legar vita ann­að­hvort ekki neitt um sam­bandið eða tala sér þvert um hug.

Svo­kall­aðar und­an­þágur eða sér­reglur í samn­ingum skipta nefni­lega þús­und­um, í stóru sem smáu.

Evr­ópu­sam­bandið er nefni­lega ekki yfir­þjóð­legt vald sem vill með yfir­gangi sölsa undir sig auð­lindir ríkj­anna. ESB er sam­starf full­valda ríkja og vill allra síst sýna yfir­gang gagn­vart smá­ríkjum – þvert á móti. Í sam­band­inu er nefni­lega fjöldi lít­illa ríkja sem hefur jafnan atkvæð­is­rétt á við hin stærri.

Og já einmitt. Full­valda ríki. Það er hin klisjan sem klifað er á. Að með aðild að ESB myndi Ísland afsala sér full­veld­inu, hvað sem það nú merkir í reynd.

Stöldrum aðeins við. Vill ein­hver í alvöru halda því fram að Dan­mörk og Finn­land séu ekki frjáls og full­valda ríki? Pól­land? Tékk­land? Aust­ur­ríki? Slíkar full­yrð­ingar stand­ast enga skoð­un, en samt er þetta fras­inn sem sífellt er gripið til, af því að hann höfðar til fremur frum­stæðrar þjóð­ern­is­kennd­ar.

Lítum okkur ennþá nær. Sífellt fleiri Skotar vilja nú sjálf­stæði eftir að Bret­land gekk úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Hvers vegna? Jú, þeir vilja sjálf­stæði til þess að geta gengið í Evr­ópu­sam­band­ið, af því að þeim er betur borgið í sam­starfi þjóða en í ein­angrun enskra íhalds­manna.

Eða halda ESB-and­stæð­ingar virki­lega að Skotar vilji sjálf­stæði til þess eins að afsala sér full­veld­inu við fyrsta tæki­færi? Slík hundalógík gengur ekki upp.

Hvers vegna er Evr­ópu­sam­bandið mik­il­vægt?

Stærstu rökin eru að það er best heppn­aða lýð­ræð­is- og frið­ar­banda­lag mann­kyns­sög­unn­ar.

Sum ríki frá þar ekki inn­göngu, til dæmis Tyrk­land, af því að þau upp­fylla ekki kröfur um grund­vallar lýð- og mann­rétt­indi. Önnur reyna mjög á þol­rif sam­bands­ins, til dæmis Ung­verja­land og Pól­land, af sömu ástæð­um.

Lýð­ræði og mann­rétt­indi eru ekki sjálf­gef­in. Það segir sagan okkur allt fram á okkar daga, og íslenska ríkið fær reglu­lega áminn­ingu frá evr­ópskum stofn­unum um það sem fer aflaga hér. Það vilja sumir íhalds­menn kalla „íhlutun í inn­an­rík­is­mál“ og end­ur­óma þá skoð­ana­bræður sína í Ung­verja­landi og Pól­landi.

Aðild að ESB er líka full­veld­is­mál, alveg þvert á hinn ein­falda áróð­ur. Ísland er nú þegar í ESB að stærstum hluta. Okkur ber sam­kvæmt EES-­samn­ingnum að taka við sam­þykktum þess í bunkum á hverju á hverju ári, án þess að hafa nokkuð um inni­hald þeirra að segja. Á meðan full­valda ríkin semja sín á milli erum við látin sitja frammi á gangi og er svo til­kynnt nið­ur­stað­an.

Það er ekki sam­starf full­valda ríkja. Það er nær til­skip­un­ar­valdi og nýlendu­stöðu. Þess vegna myndi aðild að ESB styrkja full­veldi Íslands, en ekki veikja það. Þetta vita Skot­ar, sem vilja ekki vera undir vald Eng­lend­inga sett­ir, heldur gera sína eigin samn­inga.

Blessuð evran – eða öllu heldur krónan

Aðrir vilja nefna evr­una sem rök fyrir aðild að ESB – eða öllu heldur hina lið­ó­nýtu krónu sem kostar okkur millj­arða­tugi á hverju ári að halda úti. Þetta er mik­il­væg rök­semd, en veik­ari.

Það skiptir minnstu hvað gjald­mið­ill­inn heit­ir. Danir halda sinni krónu, en tengja hana við evr­una eftir til­teknu kerfi. Fær­eyska krónan er svo bein­tengd þeirri dönsku.

Það sem skiptir máli er stöð­ug­leiki. Og ef Íslend­ingar vita eitt­hvað, þá er það að íslenska krónan er for­skrift að stöð­ugum óstöð­ug­leika. Það höfum við reynt í þau hund­rað ár hún hefur rýrnað um hátt í hund­rað pró­sent gagn­vart upp­haf­legum „jafn­oka“ sín­um, dönsku krón­unni.

Fær­eyska krónan er stöðugri en sú íslenska.

Hver nákvæm­lega útfærslan á gjald­mið­ils­málum væri er úrlausn­ar­efni fyrir hag­fræð­inga, en verk­efnið er stærsta hags­muna­mál ein­stak­linga, heim­ila og smærri fyr­ir­tækja. Þau stóru hafa fyrir löngu flúið krón­una og gera upp í öðrum gjald­miðl­um. Það er ekki til­vilj­un. Fjár­mála­stjór­arnir þar kunna að reikna.

Auglýsing
Evrunni hefur verið spáð dauð­daga í rúm­lega tutt­ugu ár, en hún hefur sjaldan verið sterk­ari þrátt fyrir marg­vís­leg áföll í ytra umhverfi. Hún er ekki endi­lega eina lausn­in, en hún býður upp á stöð­ug­leika sem okkur sár­vant­ar. Krónan er vand­inn.

Þetta vissu allir eftir gjald­eyr­is­hrunið 2008. Bjarni Ben. vildi taka upp evru. Stein­grímur J. kann norsku og vildi krón­una þeirra. Sig­mundur Davíð stakk upp á sviss­neskum franka eða jafn­vel kanadískum doll­ar. Eng­inn stakk upp á krón­unni.

Skömmu síðar – þegar allur almenn­ingur hafði enn einu sinni fengið að kenna á hruni krón­unnar – urðu þeir allir aftur unn­endur þessa gjald­mið­ils, sem gerir venju­legan heim­il­is­rekstur lík­astan rekstri vog­un­ar­sjóðs.

Svo þetta litla, sem er þó stórt

Við Íslend­ingar njótum góðs af Evr­ópu­sam­starf­inu á fleiri vegu en okkur grun­ar. Flestar úrbætur í umhverf­is­málum eru þaðan komn­ar, svo og miklum mun sterk­ari reglur um rétt­indi launa­fólks en áður höfðu feng­ist, svo fátt sé nefnt.

Það kostar mig núna jafn mikið að hringja úr far­sím­anum mínum til Bol­ung­ar­víkur og Berlín­ar. Það er Evr­ópu­sam­band­inu að þakka. Ríkin ákváðu með sam­stilltu átaki að pína síma­fyr­ir­tækin til að láta af okri sínu í sím­tölum milli á landa. Jafn­vel þótt Alþingi hefði fengið við­líka hug­mynd og sam­þykkt hana (sem er ósenni­leg­t), þá hefði það ekki skipt neinu máli.

Ísland á nefni­lega svo feikna­mikið undir alþjóð­legu sam­starfi, sama hversu mikið þjóð­rembur belgja sig út um sjálf­stæði og full­veldi. Full­veldi fæst aðeins með alþjóð­legu sam­starfi, af því að bæði smæstu og stærstu við­fangs­efni sam­tím­ans verða aðeins leyst þvert á landa­mæri.

Lítum okkur nær

En lítum okkur ennþá nær. Þrátt fyrir margar sam­þykktir og áætl­anir hefur aldrei verið mótuð not­hæf byggða­stefna á Íslandi. Þar gengur sífellt á með redd­ingum og smá­skammta­lækn­ing­um, ekki almennum reglum eða stefnu­mót­un.

Þetta er engin til­vilj­un. Það þjónar hags­munum stjórn­mála­manna að halda mið­stýr­ing­ar­vald­inu í Reykja­vík, svo að þeir geti deilt þaðan sjálf­sögðum gæðum og hreykt sér svo af því fyrir kosn­ing­ar.

Tökum nýlegt dæmi. Nokkur sveit­ar­fé­lög á Aust­ur­landi ákváðu fyrir skömmu að sam­ein­ast. Ein meg­in­rök­semdin fyrir þeim sam­runa var að með honum von­uð­ust þeir til þess að sam­göngur á milli staða bötn­uðu. Þá erum við að tala um Öxi, Fjarð­ar­heiði og óláns­veg­inn til Borg­ar­fjarð­ar.

Sig­urður Ingi vega­mála­ráð­herra tók undir og gaf í skyn að hann myndi beita sér í mál­inu.

Ef Ísland væri í Evr­ópu­sam­band­inu þyrftu vega­bætur hér ekki að vera undir því komnar hvernig sam­göngu­ráð­herra gengi í kosn­ing­um. 

Byggða­stefna sem bragð er að

ESB hefur fyrir löngu mótað sér byggða­stefnu, með almennum og skýrum regl­um, sem lúta ekki duttl­ungum ein­staka stjórn­mála­manna.

Í henni felst til dæmis að tryggja sam­göngur á milli byggð­ar­laga. Þeir sem hafa ekið nýlega um hin gömlu ríki Júgóslavíu hafa orðið vitni að hreinni bylt­ingu þar í sam­göngu­mál­um.

Fleiri hafa hugs­an­lega komið til Tenerife, þar sem Evr­ópu­sam­bandið lagði hrað­braut til þess að tengja dreifðar byggðir og styrkja inn­viði ferða­þjón­ustu.

Ég treysti mér til að full­yrða að með aðild að ESB yrðu ein­breiðar brýr á Íslandi horfnar á fáeinum árum, fremur að þær úrbætur yltu á því hvernig stæði í bólinu hjá íslenska sam­göngu­ráð­herr­anum hverju sinni.

Brýn­asta úrlausn­ar­efni lýð­veld­is­sög­unnar bíður því enn. Það mun ráða úrslitum um þróun hag­sældar bæði ein­stak­linga og fyr­ir­tækja af hvaða þunga og alvöru flokk­arnir setja málið á dag­skrá í kom­andi kosn­ing­um.

Höf­undur er fyrr­ver­andi þing­maður og ráð­herra.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rannsóknarskipið Hákon krónprins við rannsóknir í Norður-Íshafi.
Ískyggilegar niðurstöður úr Norður-Íshafi
Lífríkið undir ísnum í Norður-Íshafinu er ekki það sem vísindamenn áttu von á. Í nýrri rannsókn kom í ljós að vistkerfið einkennist ekki af tegundum sem helst einkenna hin köldu heimskautasvæði.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Ingrid Kuhlman
Tölum um dauðann
Kjarninn 17. ágúst 2022
Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram drög að nýjum heildarlögum um tónlist. Stofna á Tónlistarmiðstöð, sjálfseignarstofnun sem á að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og rekin með svipuðum hætti og Íslandsstofa.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Í sumar hafa tugir borga í Kína lýst yfir hættuástandi vegna hita.
Verksmiðjum lokað og mikill uppskerubrestur blasir við
Hitabylgja sumarsins hefur haft gríðarleg áhrif á stórum landsvæðum í Kína. Rafmagn er skammtað og algjörum uppskerubresti hefur þegar verið lýst yfir á nokkrum svæðum.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Seðlabankinn mun kynna næstu stýrivaxtaákvörðun í næstu viku.
Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólgan sé við hámark nú um stundir en að hún muni hjaðna hægar. Í vor bjuggust þeir við að verðbólga eftir ár yrði fimm prósent en nú telja þeir að hún verði 5,8 prósent.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
Í Kjarafréttum Eflingar er lagt til að almenn laun hækki um 52.250 krónur á mánuði miðað við núverandi verðbólgu. Ríkið þurfi auk þess að koma að kjarasamningaborðinu með tug milljarða króna aðgerðir til að bæta stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Starfsmenn Hvals hf. komu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglunnar á Akranesi án þess að til húsleitaraðgerðar þyrfti að koma.
Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
Lögreglan á Akranesi fékk kvikmyndatökudróna sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af starfsmönnum svissnesks ríkisfjölmiðils afhentan og kom honum til eigenda sinna. Bæði drónaflugið og drónastuldurinn eru á borði lögreglunnar.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Suðurhringþokan mynduð af WEBB-sjónaukanum í tveimur ólíkum útfærslum.
2.000 ljósár á sextíu sekúndum
Þau sem dreymir um að ferðast um geiminn ættu ekki að láta nýtt myndband geimferðastofnana Bandaríkjanna og Evrópu framhjá sér fara. Á sextíu sekúndum er boðið upp á 2.000 ljósára ferðalag með hjálp hins magnaða WEBB-sjónauka.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar