Skilaboðin frá forsætisráðherra Bretlands til kjósenda að morgni kjördags voru þessi hér að ofan. Ekki gera eitthvað sem þú munt sjá eftir, sagði hann í fimm dálka fyrirsögn í Daily Telegraph, einu blaðanna í Bretlandi sem styður Íhaldsflokkinn í kosningunum í dag. David Cameron beindi þessum varnaðarorðum til þeirra kjósenda sem íhuguðu að kjósa Breska sjálfstæðisflokkinn, UKIP, í einhvers konar mótmælaskyni. Það gæti endað með því að Verkamannaflokkurinn komist til valda með hjálp Skoska þjóðarflokksins, og fátt vilja íhaldsmenn síður en það.
Skilaboð forsætisráðherrans sýna kannski óöryggið í breskum stjórnmálamönnum undanfarna mánuði. Það gerir líka tölvupósturinn sem fyrrnefnt blað, Daily Telegraph, sendi lesendum sínum í morgun. Ritstjóri blaðsins hvatti þá eindregið til þess að kjósa Íhaldsflokkinn. Þetta hefur aldrei verið gert áður, þótt það sé hefð fyrir því að bresku blöðin taki afstöðu og styðji ákveðna flokka.
Líklega eru kosningarnar sem nú eru í gangi þær mest spennandi í flestra manna minnum. Það er ótrúlega mjótt á munum milli stærstu flokkanna tveggja en það eina sem virðist alveg ljóst er það að enginn flokkur nær meirihluta. Í fyrramálið, þegar úrslitin eru ljós, munu einhverjir flokkar þurfa að semja sín á milli um framhaldið. Og jafnvel þótt það verði samið um eitthvað er líklega meiri óstöðugleiki og óvissa í kortunum en verið hefur lengi.
Ed Miliband formaður breska Verkamannaflokksins.
Af hverju er þetta spennandi?
Það hefur verið mikil gerjun í breskum stjórnmálum undanfarin ár. Bretar eru vanir því að hafa tveggja flokka kerfi, jafnvel þótt minni flokkar hafi alltaf verið til. Einmenningskerfið sem þeir eru með er hannað þannig að einn flokkur á að geta náð meirihluta í þinginu. Þannig hefur það líka næstum því alltaf verið. Frá seinni heimstyrjöldinni og þangað til á síðasta kjörtímabili var bara einu sinni einhvers konar samstarf, sem var þannig að frjálslyndir vörðu stjórn Verkamannaflokksins falli á áttunda áratug síðustu aldar.
Nú blasir hins vegar við að tveggja flokka kerfið er liðið undir lok í Bretlandi, að minnsta kosti í bili. Þetta verða aðrar kosningarnar í röð þar sem ekki verður hægt að mynda ríkisstjórn eins flokks.
Bretar kunna ekki á samsteypustjórnir og eru ekki vanir þeim. Það segir kannski sína sögu að í umfjöllun Breska ríkisútvarpsins um það hvað gerist ef enginn flokkur nær meirihluta er sérstaklega tekið fram hvað samsteypustjórnir eru og hvernig þær virka. Þeir þekkja ekki málamiðlanirnar sem gerðar eru í stjórnarmyndunarviðræðum sem við erum til dæmis mjög vön hér á landi. Þeirra málamiðlanir fara meira fram innan flokks en ekki milli flokka. Eða þannig var þetta að minnsta kosti.
Stóru hefðbundnu flokkarnir, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, mælast nú samanlagt með um 65 prósenta fylgi. Þeir glíma við mikið vantraust almennings á störf þeirra, rétt eins og hefðbundnir flokkar gera annars staðar í Evrópu. Það má meira að segja benda á það að fylgi þessara tveggja flokka er ekki mjög langt frá því sem hefðbundnu, íslensku flokkarnir mælast með um þessar mundir. Frjálslyndir demókratar, sem unnu stóran sigur í síðustu kosningum og mynduðu ríkisstjórn með íhaldsmönnum, munu svo líklega tapa stærst núna.
Ekki allir í krísu
Það eru hins vegar ekki allir flokkar í krísu. Uppgangur Breska sjálfstæðisflokksins hefur verið talsverður síðustu ár eins og flestir þekkja, og miðað við síðustu kannanir er flokkurinn þriðji stærsti flokkurinn í Bretlandi hvað prósentur varðar. Vegna kosningakerfisins í Bretlandi, sem er einmenningskerfi með einföldum meirihluta, þá er hins vegar ekki útlit fyrir að UKIP fái nema tvö til þrjú þingsæti. Ef það væri hlutfallskerfi í Bretlandi myndi flokkurinn líklega fá um og yfir níutíu þingsæti.
En UKIP hefur fallið í skuggann af öðrum, en allt öðruvísi, þjóðernissinnuðum flokki. Skoski þjóðarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari kosningabaráttunnar, og það er leiðtoginn Nicola Sturgeon líka. Flokkurinn sem tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands í september síðastliðnum stækkar bara og stækkar, bæði hvað varðar flokksfélaga og kjósendur. Skoðanakannanir benda til þess að flokkurinn fái langflest, ef ekki hreinlega öll, sætin sem Skotar kjósa um í dag. Það eru 59 þingsæti þrátt fyrir að á landsvísu sé fylgið bara fimm prósent. Það er annað dæmi um áhrif kosningakerfisins, nema í þetta skiptið eru þingsætin miklu fleiri en fylgið segir til um.
Í Skotlandi hefur stjórnmálaáhugi aukist undanfarið, sem er ólíkt því sem gerist víðast í Evrópu. Útlit er fyrir að kosningaþáttaka verði meiri en í síðustu kosningum og Skoski þjóðarflokkurinn verður væntanlega valdamikill á morgun. Nicola Sturgeon hefur sagt að flokkurinn muni aldrei styðja íhaldsstjórn, sem kemur fáum á óvart, og hún hefur líka sagt að strax í fyrramálið muni hún þrýsta á Ed Miliband að mynda bandalag um að halda íhaldsmönnum fyrir utan ríkisstjórn.
Það er ófyrirséð hvað gerist á morgun. Eitt er þó líklegt og það er að loforð Nicolu Sturgeon, um að láta rödd Skotlands heyrast hærra en nokkru sinni fyrr, verður uppfyllt.