Tilkynnt var um það formlega í gær að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi skipað starfshóp til að skoða og greina rekstur RÚV frá því að það var gert að opinberu hlutafélagi vorið 2007. Markmiðið er að varpa ljósi á ástæður þess alvarlega rekstrarvanda sem RÚV glímir við. Yfir hópinn, sem á að skila af sér eftir rúman einn og hálfan mánuði hið síðasta, var settur Eyþór Arnalds.
Eyþór er hvað þekktastur fyrir að hafa verið í tíunda áratugs hljómsveitinni Todmobile. Hann starfaði líka hjá hugbúnaðarfyrirtækinu OZ og hefur síðari ár einbeitt sér að sveitastjórnarstjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Árborg auk þess sem hann er framkvæmdastjóri Strokks Energy.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eyþór hefur verið settur yfir starfshóp á vegum hins opinbera. Í nóvember 1997 skipaði Halldór Blöndal, þá verandi samgönguráðherra, starfshóp til að skoða framtíðarfjarskipti. Eyþór, sem þá starfaði hjá OZ, var á meðal þeirra sem skipaðir voru í hópinn, sem fór meðal annars yfir ýmsar áætlanir, styrkleika og veikleka Landssímans (sem síðar var einkavæddur og heitir nú Síminn).
Haustið 1998 rataði vinna starfshópsins í fréttir, en mánuði áður hafði verið stofnað nýtt símafyrirtæki, Íslandssími. Að félaginu stóðu meðal annars Eyþór Arnalds og félagar hans í OZ. Í frétt DV um málið, sem birtist 21. september 1998, var rætt við Þórarinn V. Þórarinsson, þáverandi stjórnarformann Landssímans, um það að aðilar sem sátu í starfshópnum um Landssímann hefðu nú stofnað símafyrirtæki sem væri að fara í samkeppni við hann. „Ég játa að það kom mér á óvart að þeir sömu menn sem voru trúnaðarmenn stjórnvalda og gengu á eftir áætlunum og sjónarmiðum Landssímans, styrkleika og veikleika allt fram í endaðan marsmánuð á þessu ári, skuli síðan í ágústmánuði stofna símafyrirtæki. Mér finnst þetta óheppileg nálægð,“ sagði Þórarinn.
DV spurði Eyþór að því hvort sú staðreynd að hann hafi átt sæti í starfshópnum kallaði ekki á grunsemdir um að hann hefði í þessum starfshópi komist að viðskiptaleyndarmálum og innri málum Landssímans og væri nú að notfæra sér þá vitneskju í eigin þágu. Hann vísaði því alfarið á bug og sagði að hann myndi ekki einu sinni starfa hjá nýja símafélaginu. Það reyndist ekki rétt. Skömmu síðar var hann orðinn forstjóri Íslandssíma og gengdi því starfi í nokkur ár. Það félag endaði að lokum inni í því sem nú heitir Vodafone á Íslandi.
Í bakherberginu hafa menn þó ekki miklar áhyggjur af því að Eyþór hyggi á stofnun línulegrar sjónvarpsstöðvar eða útvarpsstöðvar á næstu misserum sem ætlað sé að fara í samkeppni við RÚV. Áhorfs- og hlustunartölur gefa ekkert tilefni til að ætla að í því felist arðbært viðskiptatækifæri.