Steingrímur J. Sigfússon ritaði grein og birti nýlega hér í Kjarnanum. Steingrímur er fyrrverandi þingmaður til áratuga og þar af bæði ráðherra fjármála og fjarskiptamála um drjúga hríð. Í grein sinni fjallaði Steingrímur um sölu Símans á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian. Rétt að halda til haga nokkrum atriðum sem Steingrímur hafði ekki rými fyrir í skrifum sínum.
Landssími Íslands var árið 2005 seldur úr höndum þáverandi eiganda, íslenska ríkisins. Salan var sérlega vel heppnuð og farsæl fyrir seljandann. Verðið var í öllu samhengi hátt, sérstaklega í alþjóðlegum samanburði og nam þá 66,7 milljörðum króna fyrir megnið af hlutafé félagsins. Sú tala er tæpir 150 milljarðar króna að núvirði. Upphæðin var að fullu greidd í ríkissjóð og nýttist til að lækka skuldir ríkisins. Fjárhagur ríkissjóðs þróaðist síðan með ýmsum hætti eftir söluna, til að mynda í afar neikvæða átt kringum banka- og fjármálakrísuna 2008. Það er önnur og ótengd saga. Hafa má þó í huga að í hinni djúpu efnahagskreppu sem skall þá á naut ríkissjóður afar góðs af því að hafa skömmu áður styrkt efnahag sinn með því að breyta samkeppnisfyrirtæki í ríflegt fé.
Kaupin á Landssímanum úr höndum ríkisins voru að stórum hluta fjármögnuð með lántökum hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Þau lán féllu hvorki á almenning né þurfti að afskrifa þau. Eftir að félagið sem keypt hafði Landssímann 2005 rataði í greiðsluþrot í kjölfar efnahagskreppunnar, var lánum sem á Landssímanum hvíldu breytt í hlutafé. Ekkert var afskrifað. Þvert á móti hafa þessir eignarhlutir í Símanum hafa reynst einstaklega farsæl fjárfesting lífeyrissjóðanna.
Samkeppni og evrópskt regluverk
Einkavæðing Landssímans varð ekki til í lausu lofti. Komin var samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði og stefna stjórnvalda var hér sem annars staðar að ríkið ætti ekki að keppa á markaði við einkaaðila. Landssími Íslands var færður úr ríkiseigu talsvert síðar en sambærileg félög annars staðar í álfunni. Reykjavíkurborg hefur reyndar kosið að fara aðra leið og falið íbúum á suðvesturhorninu gegnum útsvar og orkureikninga að fjármagna opinberar fjárfestingar í fjarskiptarekstri og viðvarandi neikvætt fjárflæði í þeim rekstri.
Grunnnetið lagt af
Hið upphaflega grunnnet fjarskiptainnviða Íslands hefur nú verið í eigu einkaaðila í sautján ár, eða frá því ríkið seldi Landssímann. Á þeim tíma sem liðinn er frá sölunni hafa bæði Íslendingar og erlendir aðilar átt hluti í samstæðunni, sem eftir einkavæðingu skiptis í Símann og Mílu, og ráðist hefur verið í gríðarmiklar fjárfestingar í fjarskiptainnviðum. Ljósleiðarar hafa verið lagðir í jörðu, farsímamöstur reist landshornanna á milli og farsímakerfi hafa þróast úr 2G yfir í 3G, 4G og nú síðast 5G. Komið hefur verið upp þéttriðnu neti farsímasenda um land allt, ljósheimtaugum að meirihluta heimila landsins og sífellt öflugri stofnsamböndum milli landshluta.
Það eru fyrst og fremst þessir innviðir og sú starfsemi sem á þeim byggir sem eru söluvaran í viðskiptunum með Mílu nú. Allar rannsóknir sýna að fjarskiptakerfi Íslands standast fyllilega samanburð á heimsvísu og til dæmis gáfu Sameinuðu þjóðirnar út fyrir nokkrum árum að Ísland væri í fjarskiptalegu tilliti þróaðasta land í heimi. Hagstæð verð til neytenda, útbreiðsla nýjustu tækni og öryggi við erfiðar aðstæður haldast þar í hendur. Kaupandi Mílu, evrópskur sérhæfður innviðarekandi, hyggst auk þess gefa í og byggja upp innviði í landinu enn hraðar en Síminn sem eigandi Mílu hefur haft getu til. Mun þetta nýtast íslenskum neytendum vel og þá sérstaklega íbúum á landsbyggðinni.
Gamla koparkerfið er kjarni grunnnetsins sem selt var með Landsímanum árið 2005. Íslenskur almenningur fékk ríkulega greitt fyrir það kerfi þá. Örlög þessa kerfis eru ráðin og verður endanlega aflagt á næstu árum. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um 60 prósent í Símanum nú. Innviðirnir sem Míla býr nú yfir hafa að langmestu leyti verið byggðir upp eftir að Landssíminn var seldur frá ríkinu. Með sölunni á Mílu nú eru landsmenn því að fá góðan ávinning af sölu fjarskiptainnviða í annað sinn á sautján árum.
Höfundur er forstjóri Símans.
Þau sem vilja fræðast meira um þessi viðskipti geta smellt á þennan hlekk hér (https://www.siminn.is/frettir/spurt-og-svarad-um-soluna-a-milu) og lesið svör við helstu spurningum vegna sölu Mílu.