Auglýsing

Í kringum alda­mót voru erlendir rík­is­borg­arar um tvö pró­sent af íbúum Íslands. Þeir eru nú 16 pró­sent þeirra. 

Á örfáum árum hefur erlendum rík­is­borg­urum sem búa á Íslandi fjölgað úr rúm­lega 20 þús­und árið 2011 í yfir 60 þús­und. Til að setja þessa tölu í sam­hengi má benda á að í Kópa­vogi, næst stærsta sveit­ar­fé­lagi lands­ins, búa 39.360 manns. Þetta er því einn Kópa­vogur sem um ræðir á um ell­efu árum.

Þar af hafa 20 þús­und, rúm­lega einn Garða­bær, bæst við á síð­ustu fjórum árum. 

Aðfluttir umfram brott­flutta hafa aldrei verið fleiri en þeir voru á öðrum árs­fjórð­ungi 2022. 

Lang­flest­ir, 22.567 alls, koma upp­runa­lega frá Pól­landi. Það eru um þrjú þús­und fleiri en búa á Akur­eyri. Mesta aukn­ingin það sem af er ári hefur hlut­falls­lega verið af Úkra­ínu­mönn­um, en þeir eru nú 1.679 en voru 239 í upp­hafi árs. 

Þótt fjöldi flótta­manna hafi stór­auk­ist í ár, sér­stak­lega eftir að stríðið í Úkra­ínu skall á, þá er það hins vegar þannig að lang­flestir sem flytja hingað eru ungt fólk á þrí­tugs- og fer­tugs­aldri í leit af atvinnu og betra lífi.

Fólkið sem gerði Ísland betra

Nokkuð óum­deilt er að stór breyta í mesta hag­vaxt­ar­skeiði Íslands­sög­unn­ar, sem stóð frá árinu 2011 og til loka árs 2019, var upp­gangur ferða­þjón­ustu. Ferða­mönnum sem komu hingað til lands fjölg­aði á þessu tíma­bili úr um hálfri milljón í um 2,3 millj­ón­ir. 

Ferða­þjón­ustan er mann­afls­frek grein. Þegar mest lét síð­sum­ars 2019 voru störfin í grein­inni um 32 þús­und tals­ins. Þessi störf voru að stóru leyti mönnuð af útlend­ing­um. Fyrir far­aldur voru níu af hverjum tíu nýjum skatt­greið­endum sem bætt­ust við á Íslandi erlendir rík­is­borg­ar­ar. 

Þeir vinna ekki bara í ferða­þjón­ustu­góð­ær­inu heldur líka þau störf sem aukin fjár­fest­ing í hús­næði, sam­göngum og mann­virkjum hefur kallað á. Þá manna inn­flytj­endur stóran hluta þeirra starfa sem þarf að bæta í hvað varðar umönn­un­ar­störf.

Auglýsing
Svo eru Íslend­ingar bless­un­ar­lega sífellt að lifa leng­ur. Þeim sem eru eldri en 67 ára hefur fjölgað mikið á skömmum tíma. Nú eru þeir sem hafa náð hefð­bundnum eft­ir­­launa­aldri 48.721 og hefur fjölgað um átta þús­und á fimm árum. Mið­­spá mann­­fjölda­­spár Hag­­stofu Íslands gerir ráð fyrir að þessi hópur telji 76.795 árið 2040 og senni­lega um 114 þús­und árið 2066. Til að setja þetta í annað sam­hengi þá voru 44 Íslend­ingar 100 ára eða eldri um mitt þetta ár. Spáin gerir ráð fyrir því að 1.644 manns verði að minnsta kosti 100 ára árið 2070. Sam­hliða fjölgar auð­vitað og eðli­lega lands­mönnum sem þurfa á umönnun og heil­brigð­is­þjón­ustu.

Menn­ing­ar­leg áhrif eru líka ýmis­konar og mjög sýni­leg í fjölda fyr­ir­tækja sem fólk úr öðrum menn­ing­ar­heimum hafa stofnað hér­lend­is, í við­burðum sem þau standa að, í íþrótta­lífi  og í ann­ars konar sam­fé­lags­legum verk­efn­um. Þau auka fjöl­breytni og bæta í flór­una hér­lend­is, sem er frá­bært og eft­ir­sókn­ar­vert. 

Fólkið sem fór ekki

Síðla árs 2019 lét Gissur Pét­urs­son, ráðu­­neyt­is­­stjóri í félag­mála­ráðu­neyt­inu, hafa eftir sér á mál­stofu að það væri mik­ill kostur að á Íslandi væri svo ein­falt að „losa sig“ við erlent vinn­u­afl um leið og sam­­­dráttur byrj­­­aði í efna­hags­líf­inu. Það hefði eng­inn beð­ið er­­­lenda verka­­­­menn um að koma til lands­ins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð íslenska rík­­­­is­ins að hjálpa fólk­inu við að koma undir sig fót­unum með nokkrum hætti.

Ráðu­neyt­is­stjór­inn hafði full­kom­lega rangt fyrir sér. Erlendu rík­is­borg­ar­arnir fóru ekki þegar sam­dráttur hófst. Þvert á móti fjölg­aði þeim jafnt og þétt í gegnum kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn. Og hefur fjölgað enn hraðar á þessu ári.

Samt komum við fram við þennan hóp, sem er und­ir­staða þess efna­hags­lega vaxtar sem við teljum eft­ir­sókn­ar­verð­an, að mörgu leyti eins og vöru. Við látum það til að mynda líð­ast að hluti hans búi við aðstæður sem fæst okkar myndu láta bjóða sér. Þröngt en dýrt í óboð­legu hús­næði þar sem grund­vall­ar­at­riði eins og eld­varnir eru ekki í lagi. Harm­leik­ur­inn á Bræðra­borg­ar­stíg árið 2020 var skýrasta áminn­ingin um þá stöð­u. 

Þá eru ekki upp­talin þau aug­ljósu vinn­u­rétt­­ar­brot og sá launa­­þjófn­aður sem margoft hefur verið opin­berað að eigi sér stað gagn­vart þessum við­­kvæma hópi. 

Fólkið sem fær ekki að hafa áhrif á sam­fé­lagið sitt

Við leggjum okkur heldur ekki fram við að skapa leiðir fyrir hóp­inn inn í fulla sam­fé­lags­lega virkni hér á landi. Gylfi Magn­ús­son, pró­fessor við við­­skipta­fræð­i­­deild Háskóla Íslands, fjall­aði um einn anga þess í grein í Vís­bend­ingu í sum­ar. Þ.e. aðkomu fólks með erlendan upp­runa að stjórn­mál­um, enda krefst seta á Alþingi ekki bara búsetu, heldur rík­is­borg­ara­rétt­ar.  

Gylfi benti á að tæp­lega einn af hverjum fimm íbúum lands­ins væri fæddur utan Íslands. „Með hlut­­falls­­legri skipt­ingu þing­­sæta ætti það að þýða að 12 þing­­menn væru það líka, þar af 4 fæddir í Pól­landi. Það þarf ekki að leggj­­ast í tíma­freka rann­­sókn á upp­­runa íslenskra alþing­is­­manna til að átta sig á að því fer fjarri að skipt­ingin sé þannig.“

Þrír af núver­andi alþing­is­­mönnum eru fæddir í útlönd­um, nánar til­­­tekið einn hver í Stokk­hólmi, Kaup­­manna­höfn og Par­ís. Gylfi sagði að þeir geti þó tæp­­lega talist full­­trúar inn­­flytj­enda, að minnsta kosti bendir skrán­ing for­eldra í sama tali ekki til þess. „Inn­flytj­endur hafa þó setið á Alþingi áður fyrr, þótt ekki séu þeir marg­­ir. Einn þeirra virt­ist raunar inni á núver­andi þingi í stutta stund eftir síð­­­ustu kosn­­ingar en datt út aftur þegar búið var að telja nógu oft í Borg­­ar­­nes­i.“ Þar á hann við Lenyu Rún Taha Karim. 

Í grein Gylfa sagði að það sem væri kannski skrýtn­­ara sé að sex, eða tæp 10 pró­­sent núver­andi alþing­is­­manna, séu fæddir á Akra­­nesi, þar sem búa 7.890 manns. „Vænt­an­­lega er það þó bara til­­vilj­un. En eng­inn alþing­is­­maður er fæddur í Var­­sjá eða Viln­í­us. Raunar eng­inn fæddur utan Norð­vest­­ur­-­­Evr­­ópu.“

Þetta er ekki í takti við breytt hug­ar­far íslensku þjóð­ar­innar gagn­vart hópn­um. Í nið­­­ur­­­stöðum íslensku kosn­­­inga­rann­­­sókn­­­ar­innar töldu 34,6 pró­­­sent Íslend­inga að inn­­­flytj­endur væru alvar­­­leg ógn við þjóð­­­ar­ein­­­kenni okkar árið 2007. Árið 2017 var það hlut­­fall komið niður í 17,8 pró­­sent, og hafði því helm­ing­­ast. 

Fólkið sem við þurfum á að halda

Af hverju er þetta til umræðu nú? Þegar kom að því að koma hag­kerf­inu aftur í gang eftir kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn var erlent vinnu­afl í lyk­il­hlut­verki við að manna störfin sem urðu til, þrátt fyrir að það hafi verið fyrst til að missa vinn­una í far­aldr­in­um. Þegar verst lét, í jan­úar 2021, var atvinnu­leysi á meðal erlendra rík­is­borg­ara hér­lendis 24 pró­sent, eða tvö­falt heild­ar­at­vinnu­leysi. Þetta er und­ir­staðan í því að spáð er 7,3 pró­sent hag­vexti í ár. 

Atvinn­u­­leysi  hjá erlendum rík­­is­­borg­­urum er nú er á svip­uðum stað og fyrir far­ald­­ur­inn ef horft er á það hlut­­falls­­lega. Í lok ágúst mæld­ist það 6,3 pró­­sent hjá erlendum atvinn­u­­leit­endum á sama tíma og atvinn­u­­leysi heilt yfir mæld­ist 3,1 pró­­sent, eða svipað og það var í byrjun árs 2019, skömmu áður en WOW air fór á haus­inn. Það þýðir að 2.700 erlendir atvinn­u­­leit­endur voru án atvinnu í lok ágúst, sem gerir þá að 44 pró­­sent allra atvinn­u­­lausra. Það er sama hlut­­fall atvinn­u­­lausra og erlendir atvinn­u­­leit­endur voru í febr­­úar 2020.

Auglýsing
Nú er staðan sú að skortur er á starfs­fólki og þau störf sem verða til í hag­kerf­inu eru að stórum hluta fyllt af erlendu starfs­fólki, sem er nú um 20 pró­sent af öllu vinnu­afli hér­lend­is. 

Í nýlegri könnun sem gerð var á meðal stjórn­enda 400 stærstu fyr­ir­tækja lands­ins sagði 54 pró­sent þeirra að skortur væri á vinnu­afli.

Frjó­­semi íbú­a Íslands hefur dreg­ist skarpt sam­an síð­ustu ára­tugi. Árið 1960, þegar hún náði hámarki, eign­að­ist hver kona að með­­al­tali 4,3 börn. Í fyrra mæld­ist frjó­semi tæp­lega 1,9 lif­andi fædd börn á ævi hverrar kon­u. Á sjö­unda og átt­unda ára­tug síð­­­ustu ald­ar  var með­­al­aldur mæðra sem eign­uð­ust sitt fyrsta barn um 22 ár. Um miðjan níunda ára­tug­inn var hann kom­inn upp í 23,3 ár og 2021 í heild 28,6 ár.

Við þurfum tvö til þrjú þús­und manns í við­bót á ári, að lág­marki, við þá sem við búum til til að við­halda hag­vexti. Sá fjöldi fæst ekki nema með aðflutn­ingi, enda eru lands­menn með íslenskan bak­grunn ekki að búa til nógu mikið af fólki.

Útlend­ingar verða því að minnsta kosti fjórði hver lands­maður árið 2065 ef við ætlum okkur að gera slíkt. Þeir munu bjarga okkur efna­hags­lega og við­halda, jafn­vel auka, vel­megun hér­lendis sem væri ómögu­leg án þeirra.

Við skulum því fara að venj­ast þess­ari breyt­ingu. Og laga kerfin okkar að þeim.

Fólkið sem er ekki ann­ars flokks borg­arar

Vegna þess­arar stöðu þá stöndum við frammi fyrir margs­konar áskor­un­um. Fyrir liggur að okkur vantar fólk af efna­hags­legum ástæð­um. Fyrir liggur að okkur vantar fólk til að manna störf í heil­brigð­is- og ummön­un­ar­geir­um. Og hingað mun koma fullt af fólki til að vinna inn í aðra anga atvinnu­lífs­ins, vegna þess að það er eft­ir­sókn­ar­vert að búa á Íslandi. Þá er fjöldi þeirra sem eru á flótta frá stríði, nátt­úruvá og ótryggu stjórn­mála­á­standi ekki að fara að drag­ast saman í nán­ustu fram­tíð. Svo vægt sé til orða tek­ið.

Við þurfum þjóð­ar­á­tak í að bæta aðlögun þeirra að sam­fé­lag­inu. Við þurfum að takast af miklum krafti á við þá stöðu sem er uppi í mót­t­töku flótta­fólks, og er að sliga þau örfáu sveit­ar­fé­lög sem standa almenni­lega sína pligt í þeim mál­um. Það verður gert með laga­breyt­ing­um, fjár­magni og breyttu við­horfi, þar sem ekki er horft á flótta­fólkið sem við tökum við sem vanda­mál heldur tæki­færi, fyrir þau og okkur sem þjóð.

Við þurfum að stór­auka fram­boð á íslensku­kennslu fyrir nýja Íslend­inga, jafnt þá sem eru á flótta og þá sem koma hingað í atvinnu­leit, svo þeir hafi betra aðgengi að kerfum stjórn­sýsl­unn­ar, betri far­veg í sam­fé­lagið í heild og skýr­ari rödd í land­inu sem þeir búa í. Það þarf líka að styrkja kennslu á móð­ur­máli barna svo þau geti hugsað gagn­rýnið og myndað skýrar skoð­anir á tungu­málum sem þau hafa fullt vald á á meðan að þau eru að þroskast og dafna. Sam­an­dregið þá þarf að aðlaga skóla­kerfið að raun­veru­leik­an­um, og fjár­magna þá aðlög­un.

Við þurfum sér­stakt hús­næð­isá­tak sem bein­ist að við­kvæm­ustu hóp­unum innan meng­is­ins. Við þurfum að koma í veg fyrir að atvinnu­rek­endur geti komið fram við hóp­inn eins og skepn­ur. Við þurfum að opna stjórn­sýsl­una og sam­fé­lags­lega umræðu fyrir þeim. Og finna leiðir til þess að þessi risa­stóri hópur fái lýð­ræð­is­lega aðkomu að því að móta sam­fé­lagið sem hann býr í.

Heilt yfir þurfum við að móta lang­tíma­stefnu í mál­efnum aðfluttra til að mæta þeirri þróun sem allar tölur benda til að sé fyr­ir­liggj­andi, og er að mörgu leyti þegar orð­in. Það erum við ekki að gera. Og ef við gerum það ekki fljót­lega þá munum við skapa vanda­mál sem hafa komið upp í nágranna­löndum okkar þar sem mik­il­vægir borg­arar sam­fé­lags­ins upp­lifa sig sem ann­ars flokks. 

Það er ekki boð­legt í einu rík­asta landi heims. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari