Á undanförnum árum hefur sjávarútvegurinn upplifað fordæmalaust hagnaðartímabil. Makríl, gengisfall og hagstæðir markaðir hafa gert það að verkum að vasar eigenda stærstu útgerðarfélaga landsins, sem í flestum tilfellum eru örfáir einstaklingar, hafa fóðrast af ótrúlega mörgum milljörðum króna. HB Grandi, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækið, hagnaðist til að mynda um tvo milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Það þýðir að hrein hagnaður félagsins á hverjum degi var um 34 milljónir króna.
Samhliða þessum mikla gróða virðist sem atvinnugreinin hafi viljað endurhanna upplifun fólks af henni. Kolbeinn Árnason var ráðinn framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka hennar og fréttakonan fyrrverandi Karen Kjartansdóttir kynningarfulltrúi. Bæði eru ung og fersk, koma vel fyrir og eru með jákvætt viðmót. Það er kúvending frá þeim frekju- og dómsdagsþyngslum sem áður einkenndu ásjónu LÍU þegar menn eins og Friðrik J. Arngrímsson og Kristján Ragnarsson voru andlit samtakanna út á við.
Næsta skref var að skipta um nafn á hagsmunasamtökunum. Þann 31. október í fyrra voru LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva brædd saman í Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, skammstöfuð SFS. Hress, litrík og framsækin heimasíða fylgdi síðan í kjölfarið.
Fyrsti aðalfundur þeirra verður haldin á morgun, föstudag. Í kjölfar hans verður ráðstefna á vegum samtakanna sem verður öllum opin. Dagskrá hennar opinberar vel þá nýju ásynd sem útgerðirnar vilja að hagsmunabarátta þeirra fái. Þar er á dagskrá efnisþættirnir „Sameiginleg markaðssetning og aukin verðmæti“, „Tækifæri og nýsköpun“, „Fjárfesting í útliti“ og „Orðspor íslenskra sjávarafurða“. Ekkert er minnst á að ef breytingar verði gerðar á kvótakerfinu eða veiðgjöld lögð á muni heimurinn líklega farast, líkt og var oft á tíðum tónninn í öllum málflutningi LÍÚ áratugum saman.
Framsögumenn á ráðstefnunni eru meðal annars markaðs- og auglýsingarfólk sem tala um mögulega í stefnumótun og útliti sjávarafurða. Engin þungbrýndur útgerðarforingi er á mælendaskrá.
Í bakherberginu eru flestir sammála um að það sé flest gott við þessa stefnubreytingu hagsmunasamtaka útgerðanna. En hún þykir líka til marks um það að útgerðirnar telji sig hafa sigrað í baráttunni um sjávarauðlindina og rentuna af henni. Tímabært sé að beina fókusnum annað.