Fjármagnshöftin og mögulegt afnám þeirra er helsta hagsmunamál íslensks almennings. Hvernig tekið verður á þeim gjaldeyrisvanda sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir, svonefndum greiðslujafnaðarvanda, mun nefnilega hafa áhrif á allt – ríkisfjármálin, mennta- og heilbrigðiskerfið, lífeyriskerfið og lífskjör til skamms og langs tíma. Með því að lögleiða fjármagnshöft hemluðu stjórnvöld afleiðingar gjaldeyris- og bankakreppunnar sem náði hámarki haustið 2008. Áhrif hrunsins eru því ekki enn komin fram að fullu.
Tilvist fjármagnshaftanna, og möguleg rýmkun eða afnám þeirra, er stærsti óvissuþátturinn í öllum hagspám sem gefnar hafa verið út frá hruni. Í raun er erfitt að tala um efnahagslegar stærðir án þess að hafa það bak við eyrað að við búum í hálfgerðri sápukúlu. Það er hlýrra á bak við höftin.
Á næstunni mun umræða um þá kosti sem eru í boði við lausn vandans eflaust verða háværari. Mikilvægt er að hún fari fram á breiðum grunni og snúi einnig að því hvað taki við eftir höft. Sátt þarf að skapast um þá leið sem farin verður.
En hvaða möguleikar eru í stöðunni? Í mjög einfaldaðri mynd má segja að stjórnvöld standi frammi fyrir fimm valmöguleikum. 1. Að gera ekkert 2. Að afnema höftin (eftir að búið er að skera niður krónueignir erlendra kröfuhafa), leyfa krónunni að falla og vona að stöðugleiki náist aftur fyrr en síðar 3. Að fara svokallaða skiptigengisleið samhliða fullu afnámi. 4. Að viðurkenna ógjaldfærni í erlendri mynt og endursemja um erlendar skuldir þjóðarbúsins 5. Að taka upp aðra mynt, t.d. evru með inngöngu í Evrópusambandið.
Hver leið hefur sína kosti og galla. Að gera ekkert er þægilegast fyrir stjórnmálamenn og hefur í för með sér minnstu pólitísku áhættuna fyrir þá. En vandinn er sá, að hér stangast á pólitískur ávinningur til skamms tíma og neikvæðar afleiðingar þess að halda í höftin til lengri tíma.
Verði sú leið farin að leyfa krónunni að falla tímabundið mun það verða gert í þeirri von að nýtt jafnvægi náist fljótt. Svokallaðar varúðarreglur Seðlabankans tækju þá við en þær eiga að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Miðað við sögu hagstjórnar á Íslandi verður þó að teljast ólíklegt að þær dugi til. Skiptigengisleiðin, sambærileg þeirri sem Þjóðverjar hafa farið, er sú leið sem væntanlega kæmi best út fyrir meðalmanninn, vísitölufjölskylduna. Þar sem hún fæli í sér skerðingu á eignum hinna auðugustu, sem einhverjir myndu kalla eignaupptöku, má þó segja að hún sé pólitískt ómöguleg. Hún er eflaust ekki einu sinni á teikniborðinu. Leið fjögur leysir ekki allan vanda, og erfitt er að sjá fyrir sér afleiðingar á orðspor og fjárfestingu. Fimmta leiðin myndi ekki leysa skuldavanda þjóðarbúsins, sem að vísu er ekki einhugur um að sé til staðar. Hún hefur einnig í för með sér meira en sem viðkemur myntinni og peningalegu umhverfi – og sitt sýnist hverjum. Núverandi ríkisstjórn er heldur ekki á leið í Evrópusambandið.
Vandamálið er þetta: Allar leiðir sem fela í sér afnám eru pólitískt erfiðar - það krefst mikils pólitísks kjarks á annað borð að afnema höftin. Óvissan er mikil og getur ekkert líkan spáð fyrir um áhrifin af afnámi og hvað tekur við – sama hversu góður undirbúningurinn væri. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa sagt að finna þurfi heildstæða lausn á vandanum. Tók forsætisráðherra það jafnframt fram á Alþingi nýlega að afnám hafta yrði ekki á kostnað heimilanna í landinu.
Hér liggur einmitt kjarni málsins. Sú aðferðarfræði sem verður fyrir valinu við afnám hafta má ekki ráðast af hagsmunum einstakra hópa á kostnað almannahagsmuna. Ef Ísland ætlar ekki að dragast frekar aftur úr öðrum löndum í lífskjörum og velferð verður að huga að áhrifum afnáms á almenn launakjör, ríkisfjármálin og verðbólgu. Þröngir sérhagsmunir mega ekki ráða för.
Þar sem þeir raunhæfu möguleikar sem standa í boði hafa að öllum líkindum í för með sér almenna skerðingu á lífskjörum og enn frekara högg fyrir velferðarkerfið til skamms tíma – og þar með sennilegt hrun í vinsældum stjórnmálamanna - er því miður líklegasta niðurstaðan sú að höftin verði áfram.
Þetta er pólitísk ákvörðun. Kosningar eru á fjögurra ára fresti. Óvíst er hversu langan tíma það tæki fyrir þjóðarbúið að ná sér á strik aftur komi til neikvæðra afleiðinga af afnámi. Næstu kosningar verða árið 2017. Stóra spurningin er sú hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi þann kjark sem þarf til að afnema höftin, sérstaklega í ljósi þess að hagvísar benda allir til þess að framundan séu góðir tímar í efnahagslífinu – í skjóli hafta. Á endanum snýst þetta um að taka ákvörðun – og hún er ekki auðveld.