S Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, ritaði grein í Kjarnann hinn 15. maí síðastliðinn þar sem hann tók til umfjöllunar stefnu Pírata í Reykjavík um að borgarstjóri skuli kosinn beinni kosningu af borgarbúum. Það er mjög gott að fá slík viðbrögð, þar sem stefnan er ekki síst sett fram til að vekja umræðu sem við teljum tímabæra.
Bein kosning borgarstjóra var nokkuð í deiglunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006. Þannig ritaði Guðmundur Magnússon pistil í Fréttablaðinu hinn 5. júní 2005 þar sem hann taldi þetta fyrirkomulag heppilegt fyrir lýðræðið í borginni og kallaði eftir umræðu. Hann vísaði í þegar borgarstjórinn Knud Zimsen var kosinn beint, árið 1920. Þar endurnýjaði Knud umboð sitt sem borgarstjóri í beinni kosningu. Gegn vilja Reykvíkinga afnam Alþingi þetta fyrirkomulag með lagasetningu árið 1929 og hefur það aldrei verið notað síðan. Meirihluti Alþingis vildi að stjórnmálaflokkarnir einir hefðu völd í Reykjavík.
Um beina kosningu borgarstjórans sagði Guðmundur Magnússon m.a.:
„Bein kosning borgarstjóra er áhugaverð hugmynd en hún er að sönnu óraunsæ án breytinga á sveitarstjórnarlögum. En lögum er auðvelt að breyta ef vilji er fyrir hendi. Borgarstjóri yrði að hafa umtalsverð völd til að réttlæta að hann væri kosinn í almennri atkvæðagreiðslu. Vel má hugsa sér skýra verkaskiptingu milli hans og kjörinna borgarfulltrúa. Borgarstjóri gæti til dæmis haft synjunar- og stöðvunarvald á ákveðnum sviðum, verið nokkurs konar öryggisventill, og sjálfstætt umboð til að afgreiða og ákveða ýmis mál er snúa að einstaklingum í borginni.“
Samkvæmt þessu yrði hlutverk borgarstjórans hliðstætt stöðu forsetans í stjórnskipun landsins: að vera umboðsmaður almennings sem veitir veldi stjórnmálaflokkanna aðhald.
Síðan þá eru liðin mörg ár.
2006 tók við kjörtímabil þar sem borgarstjóraskipti voru tíð og erfitt er að fullyrða að allir borgarstjórarnir hafi verið fólk sem borgarbúar hefðu kosið sér sjálfir, hefðu þeir haft eitthvað um það að segja. Þetta greiddi götu Besta flokksins og Jóns Gnarr. Í sameiningu tókst borgarstjóra, borgarfulltrúum og borgarbúum að skapa ákveðna sátt um hver borgarstjórinn ætti að vera, hvert hlutverk hans væri og hvar valdamörkin lægju. Þarna hefur núverandi borgarstjórnarmeirihluti vissulega unnið mjög gott starf. Engin trygging er hins vegar fyrir því að þessi sátt haldist á komandi tímum.
Kallið á beina kosningu borgarstjóra er sett fram til að endurnýja varanlega lýðræðið í borginni. Í því skyni er nauðsynlegt að breyta sveitarstjórnarlögum til að heimila beina kosningu borgarstjóra og skilgreina hlutverk hans og valdamörk, enda er slík vinna innifalinn í stefnumálinu. Þetta yrði ekki gert í flýti heldur í góðu samráði allra sem hafa áhuga á að leggja orð í belg. Ef ekki er stemning fyrir þessu meðal borgarbúa munum við Píratar einfaldlega falla frá þessu stefnumáli, þar sem við höfum lítinn áhuga á að keyra eitthvað í gegn sem ekki ríkir góð sátt um. Aðalmálið er varanleg sátt um reglur lýðræðisins, í kjölfar nauðsynlegrar umræðu um þær.
Við sem viljum breyta hinu pólitíska landslagi, þvert á flokkslínur, erum alveg sammála um að lýðræðið felur alltaf í sér samræðu og samræmingu ólíkra sjónarmiða. Megnið af grein Björns og sýn hans á lýðræðismálin má taka undir heilshugar.
Ég hafna hins vegar fyrirframgefnum hugmyndum um að borgarstjóra sé með þessu ætlað að verða einhver lýðskrumseinvaldur sem að eigin geðþótta keyrir í gegn mál í einhvers konar brussugangsumboði kjósenda. Slíkt er engan veginn í anda þess lýðræðis sem við Píratar viljum sjá. Hugmyndir Besta flokksins um samvinnu allra stjórnmálaflokka voru vissulega í þágu lýðræðis í borginni. Við ættum öll að standa saman um að þróa borgarlýðræðið enn frekar og ræða hvernig við viljum hafa það.
Ég skil þó hreinlega ekki alveg hvaðan þessi neikvæða sýn á beint kjör borgarstjórans í Reykjavík er komin. Eru þeir borgarstjórar sem kosnir eru beinni kosningu í borgum víða erlendis svona? Er New York eða London t.d. stjórnað af einræðisherrum? Forsetinn, sem er þjóðkjörinn og gegnir ákveðnu aðhaldshlutverki gagnvart löggjafanum – er hann einræðisherra?
Sérstaða okkar Pírata í Reykjavík felst í að auk áherslu á málefnalega umræðu um lýðræðismál leggjum við ríka áherslu á umbætur á valdakerfi borgarinnar sem festa lýðræðisbreytingar í sessi. Er til dæmis einhver trygging fyrir því að Dagur B. Eggertsson verði borgarstjóri – jafnvel þó að meirihluti þeirra sem afstöðu taka í skoðanakönnunum vilji að svo verði? Sjálfur er Björn Blöndal yfirlýst borgarstjóraefni Bjartrar framtíðar. Ef borgarstjóri væri kosinn beint gætu þeir tveir boðið sig fram sem borgarstjóraefni sinna flokka og slíkt fyrirkomulag væri líklegt til að endurspegla betur almannaviljann en samningaviðræður milli stjórnmálaflokkanna um hvaða flokkur ætti að hreppa stólinn. Borgarstjórinn í Reykjavík væri – rétt eins og forseti Íslands – valinn beint af öllum kjósendum og yrði óháður umboðsmaður fólksins í borginni.
Hvorugur þeirra væri einræðisherra, nema við ákvæðum að endurskilgreina það hugtak á róttækan hátt.
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.