Það kom fæstum í viðskiptalífinu á óvart þegar tilkynnt var um það í dag að Birgir Jónsson, sem var ráðinn aðstoðarforstjóri WOW air í nóvember síðastliðnum, hefði látið af störfum. Ástæðan fyrir þeim skorti á undrun hefur ekkert með Birgi að gera, enda þaulreyndur flugrekstrarmaður, heldur það að WOW air hefur verið ákaflega duglegt að skipta um stjórnendur undanfarin ár. Og miðað við tíðnina virtist orðið tímabært að hreinsa til á ný.
WOW air hóf áætlunarflug sumarið 2012. Síðan þá hefur starfsmannaveltan á meðal framkvæmdastjóra og lykilstjórnenda fyrirtækisins slegið nálægt Íslandsmeti.
Allt hófst þetta á forstjóraskiptum í lok sumars 2012, þegar Skúli Mogensen, eigandi WOW air, tók sjálfur við stjórnartaumunum af Baldri Oddi Baldurssyni.
Næstur til að láta af störfum var Matthías Imsland, þá framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air. Hann hætti í október 2012 og snéri sér að því að stýra kosningabaráttu Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann er nú aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Næstur í röðinni til að yfirgefa WOW air var Guðmundur Arnar Guðmundsson, þá forstöðumaður markaðssviðs, en hann hætti í apríl 2013 eftir að hafa starfað hjá félaginu í rúmlega eitt ár. Í desember það ár hætti Guðrún Einarsdóttir, sem hafði verið starfsmannastjóri WOW air í um átta mánuði, störfum og í febrúar 2014 var röðin komin að Ágústu Hrund Steinarsdóttur, þá markaðsstjóra WOW air, að hætta störfum.
Árið 2014 var stórt ár hjá WOW-hringekjunni. Í mars var greint frá því að Inga Birna Ragnarsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri og aðstoðarforstjóri flugfélagsins WOW air. Í maí hætti Linda Jóhannsdóttir, þá framkvæmdastjóri fjármálasviðs WOW air, störfum eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í um tvö ár og í ágúst var þeim Tómasi Ingasyni, þá forstöðumanni viðskiptaþróunarsviðs WOW air, og Arnari Má Arnþórssyni, þá framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, sagt upp störfum. Tómas hafði starfað hjá fyrirtækinu frá því í byrjun árs 2014 og Arnar í rúma þrjá mánuði.
Í apríl 2015 var greint frá því að Björn Ingi Knútsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air, hefði sagt starfi sínu lausu. Hann hafði starfað hjá fyrirtækinu í tæp tvö ár. Í ágúst síðastliðnum var tilkynnt að Stefán Sigurðsson hefði verið ráðinn fjármálastjóri WOW og að Guðrún Valdimarsdóttir, sem gegnt hafði því starfi, myndi fara í önnur störf á vegum fjárfestingafélags Skúla Mogensen, Títan.
Í dag var svo tilkynnt um að Birgir væri hættur. Hann er reyndar ekki óvanur því að staldra stutt við hjá flugfélagi því í andaslitrum Iceland Express náði Birgir að vera forstjóri fyrirtækisins í heila tíu daga, áður en hann hætti á eftirminnilegan hátt eftir deilur við eigandann Pálma Haraldsson.
Lítið notuð vekjaraklukka til sölu. Á sama stað fást nær ónotuð jakkaföt gefins.Posted by Birgir Jónsson on Tuesday, August 25, 2015
Í bakherberginu velta menn því fyrir sér hvað valdi því að framkvæmdastjórar og lykilstarfsmenn haldist svona illa í starfi hjá WOW air. Skúli Mogensen sagði sjálfur í viðtali við Fréttablaðið í fyrra, þegar enn ein uppsagnarhrinan var nýlega afstaðin, að fyrirtækið gerði kröfur og ætlaði sér enn stærri hluti í framtíðinni. „Það er alveg ljóst að það hentar ekki öllum að vinna undir slíku álagi til lengdar og það er líka mjög eðlilegt að skipta um mannskap. Það þarf mismunandi hæfileika til að fara úr núll í tíu milljarða og svo úr tíu í 30 milljarða.“
Það þarf því ekkert að vera að Skúli sé það erfiður í samstarfi að tólf yfirmenn hafi verið reknir eða hætt hjá WOW air á þremur árum. Kannski er þetta bara mjög eðlileg starfsmannavelta eftir allt saman.