Þótt við viljum örugglega fæst fara aftur til þess tíma þegar samkomubann var normið þá er því ekki að neita að við á þeim tíma varð til mikilvægur lærdómur sem við njótum góðs af. Sveigjanlegri vinna og aukin fjarvinna er án efa eitt dæmi um það. Og í þessu ljósi lagði ég fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að félags- og vinnumarkaðsráðherra framkvæmi úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Lagt er til að ráðherra láti vinna tillögur sem hafi það að markmiði að auka möguleika fólks á fjarvinnu þar sem henni verður komið við og áhugi er fyrir hendi.
Jákvæð áhrif fjarvinnu
Reynslan af fjarvinnu á tímum heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða var almennt jákvæð og er mikill áhugi fyrir auknu valfrelsi í þessum efnum. Heimsfaraldurinn leiddi af sér nýja hugsun og skilning á því að fólk geti sinnt sama starfinu utan hins venjulega vinnustaðar þegar heimilið varð óvænt vinnustaður margra.
Fjarvinna hentar vitaskuld ekki í öllum starfsgreinum né hentar hún öllu fólki en þar sem hún á við getur hún haft margvísleg jákvæð áhrif. Þannig getur fjarvinna aukið jafnvægið á milli vinnu og einkalífs og dregið úr streitu þegar hægt er að vinna heima í staðinn fyrir að þurfa að þjóta út í morgunumferðina. Með markvissri fjarvinnustefnu hins opinbera má draga úr umferðarþunga og bæta samgöngur á álagstímum á þéttbýlustu svæðum landsins. Þannig getur fjarvinna stutt við markmið stjórnvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þá felast mikil tækifæri í aukinni fjarvinnu fyrir fólk sem búsett er á landsbyggðunum þar sem aukin áhersla á fjarvinnu og störf án staðsetningar mun leiða til þess að hægt er að stunda vinnu óháð búsetu. Og hvað varðar atvinnurekendur mætti benda á að starfsánægju fólks sem og tækifæri til að draga úr rekstrarkostnaði vegna húsnæðis og ferða.
Finnska leiðin
Á meðan heimsfaraldrinum stóð voru allt að 37% starfsfólks í Evrópu í fjarvinnu. Hlutfallið var þó umtalsvert hærra í Finnlandi þar sem það fór í 59% samkvæmt könnuninni „Living, working and COVID-19“ sem gerð var í apríl 2020. Ástæðan er sú að Finnland hefur verið leiðandi í þeirri hugmyndafræði að hvetja fólk til fjarvinnu. Þannig var Finnland með eitt hæsta hlutfall starfsfólks í fjarvinnu meðal Evrópuríkja árið 2019. Samkvæmt Eurostat 2020 var hlutfall starfsfólks í Finnlandi sem var reglulega í fjarvinnu 14,1% en í öðrum ríkjum Evrópu var meðaltalið um 5,4%. Þegar jafnframt var litið til þeirra sem unnu að hluta til í fjarvinnu varð hlutfallið í Finnlandi 25%.
Fleiri kostir en gallar
Með aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á nýsköpun ætti áhersla á fjarvinnu eðlilega að fylgja, enda mikilvægur þáttur í því að laða til sín og halda í hæft starfsfólk, óháð því hvar það er staðsett. Liður í því að sækja fram á sviði nýsköpunar er því að stíga markviss skref um fjarvinnustefnu.
Í júlí 2020 sagði 78% starfsfólks á evrópskum vinnumarkaði að það myndi áfram kjósa að geta unnið í fjarvinnu að einhverju leyti. Í Finnlandi leiddi könnun í ljós ánægju með fjarvinnu og áhrif hennar. Þar komu fram þættir eins og einbeiting, framleiðni og jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu- og einkalífs.
Þrátt fyrir jákvæða reynslu af fjarvinnu komu hins vegar einnig fram óskir og sjónarmið um kosti þess að snúa aftur til vinnu á vinnustað, ekki síst félagslegir þættir á borð við samskipti við vinnufélaga. Þannig er ljóst að þetta fyrirkomulag hentar ekki öllum. Margir kjósa hins vegar að geta átt kost á fjarvinnu og einhverju valfrelsi þar um og ætti hið opinbera að hvetja til þess þar sem flest bendir til þess að kostir aukinnar fjarvinnu séu miklu fleiri en gallarnir.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.