Árið 2004 voru sett lög á verkfall kennara sem þá hafði staðið í nokkrar vikur. Tímasetning lagasetningarinnar hefði ekki átt að koma á óvart. Jafnvel þótt hver einasti kennari hefði sagt upp á þeim tímapunkti hefði verið hægt að nota heimild í lögum til að tryggja að þeir væru við vinnu út skólaárið. Uppsagnir hefðu því tekið gildi í upphafi sumarfrís. Enda fór það svo að kennarar kyngdu stoltinu og mættu inn í skólana drullufúlir og svekktir.
Gremjan var tekin út á kennaraforystunni. Forystumennirnir höfðu m.a. lesið stöðuna vitlaust. Formaður grunnskólakennara hafði fullyrt að ríkið myndi aldrei drifast að setja lög á verkfallið. Þegar kom að næstu kosningum innan félagsins lagði hann verk sín í dóm kennara og var skipt út fyrir núverandi formann.
Núverandi formaður lét það vera sitt fyrsta verk að segja að ef kennarar ætluðu að ná kjarbótum yrði að bæta ímynd þeirra. Hámarki þeirrar ímyndarvinnu var náð árið 2007 þegar auglýsingar voru settar í umferð þar sem þjóðþekktir Íslendingar töluðu fallega um gamla kennarann sinn. Svo kom hrun.
Kennarar á Íslandi voru orðnir þeir einu í vestrænum löndum sem voru ekki aðeins undir meðallaunum í sínu landi, heldur töluvert undir þeim.
Hrunið reyndist skólunum gott að því leyti að margir misstu vinnuna og vildu þá verða kennarar. Án hruns hefði stefnt í óefni. Það gekk ekki lengur að manna stöður. Það fór að gliðna úr samstöðu sveitarfélaga því skyndilega þurftu þau að fara að berjast um kennarana. Reykjavíkurborg byrjaði til dæmis að gefa sínu fólki ókeypis í sund og Húsdýragarðinn í von um að verða valin.
Ímyndarátakið góða skilaði auðvitað engum árangri. Ekki nokkrum. Það er ekkert spurt af því við samningaborðið hvernig almenningur sé að fíla einstaka viðsemjendur. Það næsta sem var að frétta af samningamálum var að allt var komið aftur í rugl. Kennarar á Íslandi voru orðnir þeir einu í vestrænum löndum sem voru ekki aðeins undir meðallaunum í sínu landi, heldur töluvert undir þeim.
Þá hófust aftur átök og loks var gerður umdeildur samningur sem mjög margir álíta (með réttu) að sé að miklu leyti hagræðingarsamningur. Slíkir samningar hafa í gegnum tíðina reynst afar hættulegir því það var einmitt einn slíkur sem var undanfari verkfallsins langa árið 2004. Strax eftir þann samning hélt forysta kennara því hróðug fram að nú hefði tekist að bæta bæði kjör og ímynd kennara með mikilvægum kerfisbreytingum við gerð kjarasamnings. Eftir á að hyggja fólust kerfisbreytingarnar að mestu í afsali ákveðinna kostnaðarsamra réttinda sem sveitarfélögin vildu losna við. Enda voru kennarar komnir í hörðustu deilur í langan tíma aðeins tveim árum eftir hinn „frábæra“ samning.
Og viti menn, það var eins og gleðipillum hefði verið blandað við kaffið á síðasta kennaraþingi. Allt í einu fóru kennarar að skrifa á samfélagsmiðlana um samstöðu, stolt, virðingu og gleði.
Viðbrögð kennara við áföllum virðast alltaf vera þau að huga að ímynd sinni. Þetta hefur verið svona lengi. Kennarar eru til skiptis að gera hagræðingarsamninga, fá skelli og reyna að laga ímyndina. Þetta rúllar hring eftir hring þar sem einn hringur virðist taka um það bil áratug.
Ef að líkum lætur verða kennarar komnir í hörð átök eftir sirkabát tvö ár og ef allt fer eftir hefðinni verður tíminn þangað til notaður í að reyna að láta almenningi þykja aðeins vænna um kennara.
Og viti menn, það var eins og gleðipillum hefði verið blandað við kaffið á síðasta kennaraþingi. Allt í einu fóru kennarar að skrifa á samfélagsmiðlana um samstöðu, stolt, virðingu og gleði.
Hvernig stóð á því?
Jú, kennaraþingið var ímyndar-pepp-ráðstefna.
Þar var meira að segja búið að draga upp á svið Gunnar Stein Pálsson almannatengil til að leggja kennurum til sjókort fyrir næstu misserin.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var Gunnar Steinn innsti koppur í búri við að reyna að tryggja að almenningur á Íslandi fílaði hina svokölluðu útrásarvíkinga.
Það er ekki víst að allir kennarar kannist við Gunnar Stein.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var Gunnar Steinn innsti koppur í búri við að reyna að tryggja að almenningur á Íslandi fílaði hina svokölluðu útrásarvíkinga. Hans glæstasti umbjóðandi situr nú við Breiðafjörðinn og nýtur lífsins á Kvíabryggju. Við húsleit í einu eftirhrunsmálanna kom í ljós hernaðaráætlun þar sem Gunnar Steinn vildi búa til bloggher til að sjá til þess að rétta fólkið hefði nú nægan meðbyr í umræðunni. Rétta fólkið hans Gunnars var auðvitað kolranga fólkið í raun.
Þessi maður er nú ráðgjafi kennara.
Og hvað ráðleggur Gunnar Steinn?
Hann byrjaði á að segja kennurum að þeir væru mikilvægastir allra. Kennurum finnst gott að heyra svoleiðis. Síðan sagði hann þeim að þeir stæðu frammi fyrir ógnunum og ættu á hættu að vera gerðir að blórabögglum.
Ég hygg að blórabögglatal sé eitthvað sem Gunnar Steinn er vanur að sjá renna niður kverkar skjólstæðinga hans sem bráðið smjör.
Hann bætti við að kennarar skyldu þó ekki æðrast. Auðvitað væru líka tækifæri.
Áður en hann sagði hið augljósa: að það yrði dýrt að grípa tækifærin kom lítill útúrdúr. Svona til að stilla af tilfinningu kennaranna fyrir samspili peninga og snilldar.
Gunnar Steinn grobbaði sig af því að hafa fundið upp slagorðið „mjólk er góð“ sem væri svo frábærlega gott í einfaldleika sínum að MS hefði eiginlega fundist að hann hefði verið að féfletta fyrirtækið þegar hann fann upp á því. Nú vildi hann færa kennurum sitt eigið slagorð. Slagorð sem í einfaldleika sínum gæti orðið sígilt eins og mjólkin: „Kennarinn þinn“.
Á þessum tímapunkti barst talið loks að peningum. Kennarar skyldu gera sér grein fyrir því að þetta myndi kosta. Það kostar að verða ekki blóraböggull. Kennarar þyrftu ekki átak, þeir þyrftu nýjan, kostnaðarsaman lífsstíl. Undir gunnfána „kennarans þíns“ ættu þeir að fela einhverjum vinsælum og óumdeildum leiðtoga að fjárfesta hálfum milljarði á næsta áratug í að skapa nýja ímynd. Sá einstaklingur þyrfti að vera hafinn yfir skoðanir annarra því lífið er eins og lógó – ef allir litir eru með er útkoman brúnn.
Undir þessari ræðu sátu kennarar þakklátir og hlógu og klöppuðu á réttum stöðum ef marka má umfjöllun Skólavörðunnar.
Síðan sneru þeir sér að því að tísta gleði og samstöðu út í eterinn.
Ég ætla að leyfa mér að gerast liðhlaupi í bloggher Gunnars Steins og benda á hið augljósa.
Það er algjörlega fráleit hugmynd að kennarar eyði tugum milljóna á ári í það að bæta ímynd sína. Raunar ætla ég að ganga lengra og segja að það sé algjörlega ömurlegt að kennarar séu að klappa upp manninn sem fór fremstur í flokki við að draga fjöður yfir klæki mannanna sem settu landið á hausinn.
Það er algjörlega fráleit hugmynd að kennarar eyði tugum milljóna á ári í það að bæta ímynd sína. Raunar ætla ég að ganga lengra og segja að það sé algjörlega ömurlegt að kennarar séu að klappa upp manninn sem fór fremstur í flokki við að draga fjöður yfir klæki mannanna sem settu landið á hausinn.
Það er stundum sagt að þjóðin sé andlega komin aftur til ársins 2007. En það var einmitt árið þegar kennarar birtu síðast glansmyndir þar sem fólk talaði af hlýju um „kennarann sinn“ (átakið sem Gunnar Steinn vill nú selja þeim aftur sem eitthvað nýtt). Mig grunar að 2007 sé í alvöru mætt aftur og að kennarar séu kanarífuglinn í námunni.
Kennarar standa frammi fyrir ýmsum áskorunum. Þeir munu verða algjörlega vanbúnir ef þeir reyna ekki að læra af sögunni. Sagan segir okkur að ímyndarvinna sé dúsa sem kennarar grípa til svona á milli þess sem þeir semja frá sér réttindi og eru barðir í duftið. Verstu kjör kennara í samanburðarhæfum löndum stafa ekki af því að viðsemjandinn beri ekki næga virðingu fyrir kennurum. Þau stafa af því að viðsemjandinn ber ekki næga virðingu fyrir sjálfum sér.
Það má vel vera að slagorðið um að mjólk sé góð sé grípandi, einfalt og skemmtilegt og þyngdar sinnar virði í gulli. Það er líka bara huggulegt að Gunnar Steinn monti sig svolítið af því. Varla fer hann að stæra sig af störfunum fyrir tugthúslimi. En það gæti verið kennurum hollt, áður en tékkheftið er dregið fram, að hafa í huga að þrátt fyrir hið stórkostlega slagorð almannatengilsins hefur mjólkurneysla dregist jafnt og þétt saman á landinu – og börn vilja nú helst ekki sjá mjólk lengur nema sem fylliefni í dísætum mat og drykk.
Það væri heldur hörmulegt ef það færi eins fyrir kennurum eins og mjólkinni.
Höfundur er kennari.