Það fylgja því ákveðnir kostir í að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil eins og evruna. Til dæmis sparast kostnaðurinn við að skipta einni mynt yfir í aðra. Ef allir nota sömu mynt verður líka erfiðara að breiða yfir verðmun á milli landa því sama mynt (mælieining) til dæmis í Helsinki, Tallinn, Bratislava og Lissabon auðveldar verðsamanburð. Sameiginlegt mynt getur þannig stuðlað að aukinni samkeppni og hagkvæmni.
En það eru líka gallar sem fylgja sameiginlegri mynt. Land, sem gengur í myntbandalag, fórnar sjálfstæði sínu í peningamálum og þar með getunni til að bregðast við áföllum með því að breyta gengi eigin gjaldmiðils. Land sem gengur í myntbandalag getur ekki lengur ákvarðað stýrivexti sem eru ákveðnir af sameiginlegum seðlabanka fyrir allt myntsvæðið í einu án tillits til mismunandi verðbólgu, hagvaxtar og atvinnustigs í hverju aðildarríki myntbandalagsins.
Maastricht samkomulagið gerir ráð fyrir að á evrusvæðinu megi halli á ríkissjóði ekki vera umfram 3% af vergri landsframleiðslu og opinberar skuldir ekki hærri en 60% af vergri landsframleiðslu. Þessar reglur voru illa rökstuddar. Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafi í hagfræði hefur haldið því fram að þessar reglur hafi verið úr lausu lofti gripnar (e. „out of thin air”). Frá hagfræðilegu sjónarmiði er það eflaust rétt en þessar reglur voru settar af öðrum ástæðum. Þær áttu meðal annars að koma í veg fyrir að fátækari ríki á evrusvæðinu gætu lagt kostnað á ríkari lönd í myntbandalaginu. Koma í veg fyrir að „óábyrg“ stjórn ríkisfjármála og skuldasöfnun í einu landi bitnaði á öðrum löndum í evrusvæðinu.
Evran og lýðræðið
Evrópusambandinu og sérstaklega evrusvæðinu er fyrst of fremst stjórnað af sérfræðingum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur frumkvæði að lagasetningu innan ESB. Í lýðræðisríkjum er slíkt frumkvæði er venjulega í höndum lýðræðiskjörinna fulltrúa. Þetta er ein ástæða þess að Bretland sagði sig úr ESB með Brexit og hafði áður hafnað evrunni. Seðlabanka Evrópu er stjórnað af sérfræðingum sem leggja fyrst og fremst áherslu á að hafa hemil á verðbólgu á myntsvæðinu en minni áhersla er á aðgerðir sem stuðla að hagvexti eða háu atvinnustigi.
Evran og alþjóðlegar kreppur
En myntbandalög eiga við fleiri vandamál að stríða. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær eða hvers konar kreppur skella á okkur en við vitum að þær koma öðru hverju samanber efnahags- og fjármálakreppuna sem skall á haustið 2008, COVID-19 kreppuna sem skall á af fullum þunga árið 2020, stríðið í Úkraínu sem byrjaði í upphafi í árs 2022. Enginn veit hverskonar kreppa kemur næst né hvenær, en eitt er víst, ríkisfjármálin fara úr böndunum í mörgum löndum við breyttar aðstæður og upp safnast opinberar skuldir sem eru nú orðnar mjög háar hjá mörgum aðildarríkjum evrusvæðisins og ógna stöðugleika. Mynd 1 sýnir halla í ríkissjóði í löndum evrusvæðisins árið 2020. Ekkert aðildarríki var innan þeirra marka sem gilda á evrusvæðinu (þ.e. 3% hámarks halla á ríkissjóði af vergri landsframleiðslu). Enn alvarlegri er opinber skuldastaða margra evru landa sem er komin langt umfram 60% af vergri landsframleiðslu, ekki aðeins hjá smærri evru hagkerfum eins og Grikklandi sem var komin í 212% árið 2020, heldur eru stór hagkerfi eins og Ítalía komin í 155% og Frakkland í 115% og stærsta hagkerfið Þýskaland komið í 69%., sjá mynd 2. Auðvitað lækkar skuldahlutfallið (hlutfall opinberra skulda og vergrar landsframleiðslu) ef hagvöxtur eykst en loksins þegar COVID-19 var í rénun tók stríð í Úkraínu við með minnkandi hagvexti og auknum ríkisútgjöldum m.a. vegna vaxandi hernaðaruppbyggingar. Það má því segja að formúlan um hámarks skuldir evruríkja sé löngu fokin út í verður og vind.
Aukinn sveigjanleiki en hvenær og hvernig?
Það er ljóst að reglurnar um bæði hámarks halla á ríkissjóði og hámarks skuldir hins opinbera þarf að endurhugsa með meiri sveigjanleika í huga en það breytir því ekki að evrusvæðið er í alvarlegri skuldakreppu sem ekki lengur takmarkast við Grikkland heldur eru stór lönd eins og Ítalía og Frakkland í miklum vanda og Þýskaland er ekki lengur aflögufært. Staða evrusvæðisins hefur ekki fengið mikla umræðu undanfarið. COVID-19 og Úkraínustríðið eru atburðirnir sem meðal annars hafa torveldað framboð á vörum í heiminum og valdið kreppuverðbólgu víða sem nú er mikið rætt um. En það kemur að skuldadögum á evrusvæðinu og aðgerðum sem ekki verða auðveldar. Nýlega sagði Mario Draghi af sér sem forsætisráðherra Ítalíu. Áður hafði hann verði forseti Seðlabanka Evrópu. Fleiri leiðtogar á evrusvæðinu geta fylgt í kjölfarið á næstu misserum.
Hilmar Þór Hilmarsson er prófessor við Háskólann á Akureyri.