Eftirfarandi orð í grein Hjalta Snæs Ægissonar um útgáfumál Braga Ólafssonar fara í taugarnar á mér:
„Nú, líkt og þá, birtist meðvirkni kunningjasamfélagsins fyrst og fremst sem hrópandi þögn. Fæstir kollegar og vinir Braga munu láta hafa nokkuð eftir sér um Bögglapóststofuna, ekki heldur þeir sem eru með óbragð í munni yfir auðmannadekrinu.“
Hvurn fjandann þykist Hjalti Snær vita um þetta? Hvurn djöfulinn veit Hjalti Snær um vini Braga?
Nú er ég vinur Braga. Ég hef lesið Bögglapóststofuna, öfugt við Hjalta Snæ. Reyndar var ég ekki sérlega hress með útgáfuformið og sagði Braga það sem ærlegast. Þetta var tveggja vikna verk, kemur launasjóðsmálum rithöfunda ekki rassgat við, hvað sem Hjalti Snær segir, og Braga var alltof illa borgað, nánast ekki neitt. Fyrir að skrifa inn í konsept sem ríkir kallar stálu frá 1005 tímaritröð. En bókin er góð. Að sönnu með vissum ávæningi þess að vera uppkast sem síðar verður leikrit eða eitthvað annað. En góð.
Einna athyglisverðast er að bókmenntafræðingur geti ekki drullast til að verða sér úti um bókina, lesa hana og takast á við efni hennar fremur en ytri umgjörð. Hvers vegna er Hjalta það ofviða fyrst stelpurnar á Druslubókavefnum fóru létt með það? Það stafar af því að bókmenntafræði dagsins í dag kemur bókmenntunum ekkert við og vill ekki koma þeim við. Tilhneiging bókmenntafræða samtímans er að vera á harðaflótta frá bókmenntum, takast helst á við eitthvað til hliðar við innihald bóka, eitthvað broddlaust og auðvelt, hampa ef í nauðirnar rekur lélegum bókum sem létt er að fjalla um og upphefja sjálfan sig um leið, miðlungs jukki beint upp úr samtímanum, sullumbulli síbernskunnar, „heimssögulegur viðburður“, sagði einn gagnrýnandi um Kötu eftir Steinar Braga, efniviður þeirrar bókar: eftirköst nauðgunar, rétt eins og úr Kastljósþætti. Heimssögulegur viðburður? Í alvöru? Gott ef ekki þóttu stórmerkileg tíðindi fyrir jól að sami gagnrýnandi, Björn Þór, var kallaður vesalingur opinberlega; ekki þætti það tilefni til að æmta neitt sérstaklega í flestum sveitum. Enginn er of góður til að vera kallaður asni, sagði Hallór Laxness. Og voru þetta tíðindi, alltsvo? Það vantar ekki helvítis vælið. Og útgáfutilhögun Braga Ólafssonar, fremur en verkin? Hverjum getur slík bókmenntaumræða komið við?
Er vitrænn flötur í þessu? Já, og það hefði verið ánægjulegt til tilbreytingar að sá flötur væri skoðaður. Hjalti Snær er svo vinsamlegur að vera búinn að sjá við öllum hugsanlegum mótrökum og afgreiða fyrirfram, eins og gerist þegar menn verða kreddukallar. Það er vissulega rétt að setja ýmsa varnagla við samspil bókmennta og auðmagns, rétt að fara mjög varlega, halda haus, vanda sporin sín á hverri einustu stundu, vera skýr í kollinum, vita hvenær listin hættir á að verða ómerkileg og það getur hún gert með ýmsu móti og fleiri leiðir eru til en sérútgáfa hjá fasteignafyrirtæki, jafnvel fræðin getur sett niður, guð sé oss næstur; og þó vildi ég sjálfur stundum að ég hefði farið óvarlegar einhverju sinni, þá hefði ég hugsanlega um dagana einhverju sinni slefað í sæmileg mánaðarlaun. Blaðrið í Hjalta Snæ gerir að verkum að hvarflar helst að manni að leika í Victorias Secret auglýsingu eins og Bob Dylan gerði um árið, hann vantaði ekki peninga, gerði það bara til að gefa Hjöltum Snæm heimsins langt nef, púrítanistum með vísifingur fremur en baugfingur á lofti. Samspil auðmagns og bókmennta er aldrei auðvelt, það er aldrei allt sem sýnist, þótt harla einfalt sé að henda fyrstu hugsun á lofti og reka upp rangan fingur.
Blaðrið í Hjalta Snæ gerir að verkum að hvarflar helst að manni að leika í Victorias Secret auglýsingu eins og Bob Dylan gerði um árið, hann vantaði ekki peninga, gerði það bara til að gefa Hjöltum Snæm heimsins langt nef, púrítanistum með vísifingur fremur en baugfingur á lofti. Samspil auðmagns og bókmennta er aldrei auðvelt, það er aldrei allt sem sýnist, þótt harla einfalt sé að henda fyrstu hugsun á lofti og reka upp rangan fingur.
Hugmyndir Hjalta Snæs um tengingu launasjóðs rithöfunda við sem mesta útbreiðslu bóka eru algalnar auk þess að vera málinu óviðkomandi. „En því skyldi ríkissjóður veita fé til listamanna sem skapa eingöngu fyrir lokaða elítu?“ spyr Hjalti. Það er lagleg flétta, ekki stórt skrefið í að biðja vinsamlegast um að metsöluhöfundar hljóti ritlaun einvörðungu, skítt með bókmenntagildið, og hreint ekki úr vegi að spyrja hvernig Hjalti Snær álíti því almannafé varið sem hann fær að því er mér skilst til að rannsaka áhrif Dante á íslenskar bókmenntir, rannsókn sem múgurinn mun væntanlega spæna í sig, eða hversu hál er hún ekki þessi elítupæling, hvað um dróttkvæði, hvert er hlutfallið í bókmenntunum sem Hjalti hefur kennt við háskólann, hversu stór hluti höfundana eru eða voru nýtir þjóðfélagsþegnar sem skila sómasamlegum arði og afurðum rakleiðis í bláæðina á almenningi, ala upp gagnrýna hugsun fremur en vitstola hugsanir og leggja sitt af mörkum til samfélagsumræðunnar þótt hún sé mestmegnis ofstækisfullt kjaftæði.
Samtíminn er eins og jarmandi kór þar sem hver sakar annan um spillingu, fjöregginu er kastað á milli í von um að það springi í höndum einhvers annars. Mestu latínugránar sjá ekki út fyrir stærra söguskeið en fyrir/eftir kreppu. Heilu háskóladeildirnar renna saman við endalausan jarmkór samfélagsins og menn líma á sig marxísk heiðursmerki og óska sér hjartanlega til hamingju með róttækni sína, hversu broguð sem hún er, en blóta kapítalískri spillingu á laun og af heitara hjarta en nokkur kapítalisti. Hvað er yfirleitt um „meðvirkni kunningjasamfélagsins“ að segja? Ýmislegt eins og gengur. Það er margt í mörgu og hlutina má ræða, auðvitað. Háskóladeildin sem Hjalti Snær starfar við er til dæmis ekki beinlínis neitt kirkjuskrúðhús og nær að ætla að hún sé slétt sagt spillt því hún er rekin eins og fjölskyldufyrirtæki. Ástráður Eysteinsson prófessor hefur ráðið þar mágkonu sína til starfa, Heiðu Jóhannsdóttur, sem og svila, Björn Þór Vilhjálmsson. Við deildina starfar Guðni Elísson og einnig kona hans, Alda Björk Valdimarsdóttir. Nýverið voru tvær stöður auglýstar, mér er ókunnugt um hvort ættartré þurfi að fylgja umsóknum en löngu ljóst að deildin getur ráðið hvern sem henni sýnist og skutlað allri fagmennsku á fjóshauginn ef henni býður svo við að horfa.
Talaði einhver um meðvirkni kunningjasamfélagsins? Þetta er hreinn brandari. Háskóladeild þar sem helmingur starfsfólks er skyldur og venslaður. Hvar sem er í heiminum væri slík deild orðin að almennu athlægi. Auk þess veit ég ekki betur en að fyrirtæki hafi í sívaxandi mæli komið að starfi háskólans með sporslum sem eru göfgaðar með því að kalla þær „tengsl við atvinnulífið“ og áhöld um hversu meyfæðingarnar gerast við þannig aðstæður eins og gefur að skilja. Hvernig ætli vinir og kollegar hafi tekið á þessu? Með þögn og meðvirkni, hvað annað, þögn þess sem hefur afvanist því að lifa og hrærast í raunverulega krítísku umhverfi.
Úr þessu foraði finnst Hjalta Snæ við hæfi að ásaka Braga Ólafsson um spillingu. Og bæta því við að hann hafi ekkert haft að segja í tíu ár. Ekki hef ég ýkja margt heyrt úr ranni bókmenntafræðinnar undanfarin tíu ár nema ámóta dapurlega beyglaða sýn og birtist í grein Hjalta Snæs, þessa eymdarstunu úr ættarmóti, þetta niðurkoðnaða vandlætingartaut sem markast af átakanlegum skorti á reynslu af öllu lífi og öllum veruleika og áhugaleysi á bókmenntum, metnaðarleysi, hugleysi, aumingjaskap.
Bókmenntafræði er dauð. Hún hefur enga sögn um bókmenntir landsins og veruleika. Hún er, með heiðarlegum undantekningum, nokkurs konar ættarmót sem nötrar af ótta við sannkallaðar bókmenntir, fjallar enda sárasjaldan um bókmenntir, skrifar stundum greinar um háskólasamfélagið sem engan varðar neitt um og dælir út endalausum greinum um Vantrú, um bíómyndir, fabúlerar um táknaheim samtímans í útvatnaðri menningarfræði og skrifar svo heimskulega um umgjörð bóka og útgáfumál en gagnvart alvöru bókmenntum hefur fjölskylduboðið við bókmenntafræðideild Háskóla Íslands að mestu gefist upp. Bókmenntafræði er blaður. Þetta er búið. Ekkert eftir nema að grípa kindabyssu og skjóta þetta.
Höfundur er rithöfundur.