Í Silfri Egils fyrir rúmri viku síðan var athyglisvert viðtal við Bjarna Bjarnason, sem verið hefur forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í rúman áratug og lætur senn af störfum. Umfjöllunarefnið var orkuþörf og hvernig ná megi markmiðum um orkuskipti hér á landi. Sjónum var sérstaklega beint að vindorku og þar kom m.a. fram að OR muni líklega fara í slík verkefni. Ýmislegt fleira áhugavert kom fram í viðtalinu, sem vert er að rekja.
Háhitasvæðin munu bæta litlu við raforkuframboð
Viðtalið byrjaði á umfjöllun um hitaveituna. Þar lýsti forstjóri OR því að búast megi við að á næstu áratugum aukist notkun á heitu vatni langt umfram það sem unn er að framleiða í dag. Þess vegna þurfi að fara í meiri framkvæmdir og fyrst og fremst að nota varmaorku háhitasvæðanna við höfuðborgarsvæðið fyrir hitaveituna. Fremur lítið af henni muni fara til aukinnar raforkuframleiðslu.
Þessi áform OR um að háhitasvæðin í nágrenni Reykjavíkur muni skila takmarkaðri nýrri raforku virðast reyndar ekki í samræmi við það hvernig verkefni fyrirtækisins eru kynnt í gildandi Rammaáætlun. Samkvæmt þeirri áætlun hefur OR áform um nokkrar jarðhitavirkjanir á Hellisheiðar- og Hengilsvæðinu til umtalsverðrar nýrrar raforkuframleiðslu. Af umræddu viðtali má aftur á móti ráða að þær virkjanir verði ekki að veruleika í þeirri mynd sem Rammaáætlun gefur til kynna. Því má segja að nýlega uppfærð Rammaáætlun sé í reynd strax orðin úrelt.
Verður álveri Norðuráls senn lokað?
Næst var í viðtalinu vikið að orkuskiptunum. Þ.e. markmiði íslenskra stjórnvalda um að innlend endurnýjanleg raforkuframleiðsla og afurðir af þeirri starfsemi (svo sem rafmagn, grænt metan, metanól o.fl.) leysi innflutt jarðefnaeldsneyti sem mest af hólmi. Forstjóri OR álítur ekki raunhæft að uppfylla þau markmið með nýjum virkjunum eingöngu. Til að ná markmiðum um orkuskipti þurfi sennilega a.m.k. eitt álver hér að hætta starfsemi svo raforkan sem þangað hefur verið seld geti farið til orkuskipta.
Í þessu sambandi er vert að nefna að OR selur mjög stóran hluta af raforkuframleiðslu sinni til álvers Norðuráls á Grundartanga og er álverið langstærsti viðskiptavinur OR. Þeir stóru raforkusamningar renna að mestu út eftir einungis örfá ár. Raforkusamningar hinna tveggja álveranna hér eru við Landsvirkjun og gilda til 2036 og 2048. Fróðlegt verður að sjá hvort OR hyggst endurnýja samninga við Norðurál eða ekki.
Bjóðist OR gott verð fyrir áframhaldandi raforkusölu til álversins á Grundartanga er vandséð annað en að raforkusala OR til álversins muni halda áfram. Og í ljósi loftslagsmála og losunar kolefnis er reyndar varla heppilegt að hér loki álver, því álverin hér eru mun umhverfisvænni en flest önnur álver heimsins. Þess vegna er raunsæja sviðsmyndin sú að hér þurfi að bæta verulega í raforkuframleiðslu. Enda er OR að skoða möguleika á aukinni raforkuöflun. Og horfir þar að sjálfsögðu m.a. til vindorku.
OR áformar virkjun vindsins
Já – þriðja meginatriðið sem fjallað var um í viðtalinu við forstjóra OR voru áform um að virkja vindinn til raforkuframleiðslu. Þar lýsti forstjórinn því að fyrirtækið fari líklega í rannsóknir og mögulega uppbyggingu vindmyllugarðs við Hellisheiðarvirkjun og einnig geti komið til greina að OR reisi vindmyllur við Nesjavallavirkjun.
Er OR umhugaðra um loftslagið en öðrum orkufyrirtækjum?
Forstjóri OR, sem sjálfur virðist býsna jákvæður gagnvart vindorkuverkefnum hjá fyrirtækinu, segir áformin sem fáein fyrirtæki í erlendri eigu hafa kynnt um vindorkuuppbyggingu hér á landi vera óraunhæf, fela í sér mikið umhverfistjón og vera ógnun við ferðaþjónustu. Að auki er hann lítt hrifinn af undirbúningi og framsetningu erlendu fyrirtækjanna. Tiltók forstjórinn það sérstaklega að þau fyrirtæki séu drifin áfram af „ágóða“ og „ekki að bjarga loftslaginu“.
Þessar fullyrðingar forstjóra OR um loftslagið og meintan ásetning fyrirtækja sem hyggja á samkeppni m.a. við OR eru býsna sérkennilegar. Hér verður þó ekki velt vöngum um það hvort OR eða eitthvert annað orkufyrirtæki á Íslandi, í Noregi eða annars staðar sé áhugasamast um að bjarga loftslaginu. Enda hljóta umrædd ummæli forstjóra OR að vera eitthvað vanhugsuð.
Önnur óvænt ummæli forstjórans voru þau að vindorkuverkefni hér geti skapað aðstæður sem jafnist á við hrun bankakerfisins 2008 og jafnvel þjóðargjaldþrot. Þetta er satt að segja furðulegur hræðsluáróður gagnvart þeim fyrirtækjum sem hér hafa fjárfest í rannsóknum á vindi og umhverfismati á nokkrum stöðum og horfa til þess að rannsaka fleiri staði með það að markmiði að þróa skynsamleg vindorkuverkefni hér. Að forstjóri OR segi mögulega uppbyggingu annarra en OR og Landsvirkjunar í vindorku vera líklega til að skapa hættu á efnahagslegum hamförum er fyrirtækinu varla sæmandi.
Hugsar OR ekki um ágóða?
Stöldrum nú aðeins við þá meintu ágóðavon erlendu vindorkufyrirtækjanna sem forstjóri OR minntist á í viðtalinu. Greinarhöfundur starfar einmitt fyrir eitt af þessum erlendu fyrirtækjum. Sem er Zephyr Iceland; dótturfélag norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS sem er í eigu tveggja norskra vatnsaflsfyrirtækja sem bæði eru í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja.
Meðal markmiða Zephyr er að þjónusta viðskiptavini sína vel og að reisa og reka vindmyllur af fagmennsku. Greinarhöfundur skal þó fyrstur manna fallast á það að auk þessara markmiða þá er Zephyr vissulega áhugasamt um að starfsemi fyrirtækisins, hvort sem er í Noregi, Svíþjóð eða á Íslandi, skili ágóða. Fremur en tapi.
Slíkt markmið um ágóða er varla sérstaklega bagalegt né óvenjulegt. Væntanlega hefur OR nákvæmlega samskonar markmið, þ.e. að vera almennt rekið með hagnaði fremur en tapi. Því er erfitt að átta sig á hvað forstjóri OR nákvæmlega á við með umræddum orðum sínum um að norska Zephyr sé drifið áfram af ágóða (og ekki því að bjarga loftslaginu). En hvað svo sem hann á við þá ætti öllum að vera ljóst að forstjórinn er þarna á nokkuð hálu svelli í málflutningi sínum.
Eru vindorkuverkefni OR betri en hjá Zephyr Iceland?
Forstjóri OR virðist hafa töluverðar áhyggjur af því að norska Zephyr og önnur erlend vindorkufyrirtæki muni fara einhverju geggjuðu offari í fjárfestingum sínum hér. Greinarhöfundur getur ekki svarað fyrir önnur fyrirtæki en Zephyr Iceland. En vill af þessu tilefni benda á að móðurfélag Zephyr Iceland, norska Zephyr, er nú með um 800 MW af vindorku í rekstri í Noregi og er einnig með starfsemi í Svíþjóð. Þessi verkefni hafa gengið vel og ekki eru neinar vísbendingar um að Zephyr fari fram með verkefni af kæruleysi eða offari. Eigendur fyrirtækisins eru sveitarfélög og fylki í nágrenni Osló með nokkur hundruð þúsund íbúa og þar eru kröfur um varfærni, skynsamlega uppbyggingu og góða viðskiptahætti varla síðri en hjá eigendum OR.
Það er líka til marks um gæði og orðspor vindorkufyrirtækisins Zephyr að fyrir fáeinum mánuðum keypti hið þaulreynda sænska systurfyrirtæki Landsvirkjunar, þ.e. sænska ríkisorkufyrirtækið Vattenfall, stóran hlut í umfangsmiklum vindorkuverkefnum sem Zephyr er með í þróun þar. Þó svo forstjóri OR virðist lítt treysta útlenska Zephyr þá er því a.m.k. treyst af einu reyndasta ríkisorkufyrirtæki heims á sviði endurnýjanlegrar orku. Kjarni málsins er auðvitað sá að það er engin ástæða til að ætla annað en að norska Zephyr bæði vilji og geti þróað vindorkuverkefni hér af fagmennsku.
Fallið vindmastur OR
Það er athyglisvert að fyrir nokkrum árum reisti OR mastur til vindmælinga á fjalli ofan við Hellisheiðarvirkjun. Forstjóri OR nefndi þetta þegar þáttastjórnandi Silfursins spurði hann út í vindorkuframkvæmdir OR. Skemmst er frá að segja að það verkefni tókst illa. Mastrið þoldi ekki vindinn, eins og forstjórinn lýsti í viðtalinu og hló aðeins við. Hvort stjórn eða eigendur OR tóku þessu fallna vindmastri jafn létt er ekki vitað. Miðað við kostnaðinn við alvöru vindmastur þá fuku þarna nokkrir tugir milljóna króna úr vösum OR út í loftið.
Í stað þess að hnýta í Zephyr Iceland eða önnur fyrirtæki sem kunna að veita OR samkeppni í að þróa vindorkuverkefni á Íslandi væri kannski ráð fyrir OR að einbeita sér meira að sínum verkefnum á sviði vindsins og undirbúa þau verkefni betur en gert hefur verið. Og vegna þess hversu brösótt þetta hefur gengið hjá OR fram til þessa, væri mögulega upplagt fyrir fyrirtækið að leita eftir samstarfi við eitthvert þeirra „ágóðadrifnu“ erlendu fyrirtækja sem hér eru og tryggja þannig aðgang sinn að þekkingu og reynslu í þróun vindorku. Slíkt myndi kannski auka líkur á farsælli uppbyggingu þeirra vindorkuverkefna sem OR hefur hug á. Fróðlegt verður að sjá hvort stjórn OR og nýr forstjóri muni íhuga slíkar leiðir, fremur en að reyna með lítt málefnalegum hætti að gera Zephyr Iceland og fleiri fyrirtæki tortryggileg.
Ímyndaðar þúsund stórar vindmyllur
Í viðtalinu lýsti forstjóri OR einnig þeirri skoðun sinni að núverandi áætlanir fyrirtækja hér feli það í sér að hér kunni að rísa þúsund stórar vindmyllur sem muni dreifast á meira en þrjátíu staði. Og að það myndi valda miklu umhverfistjóni og tjóni fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Þarna er gengið býsna langt í fullyrðingum. Talan þúsund vindmyllur sem forstjóri OR nefndi í viðtalinu er óviss heildartala vegna samanlagðra margra verkefna hinna ýmsu fyrirtækja. Þar að auki byggir talan á þeirri ályktun forstjóra OR að vindorkuverkefni á Íslandi geti ekki verið hagkvæmt nema lágmarksfjöldi vindmylla sé um 30 talsins. Sem er einfaldlega rangt. Og jafnvel þó svo þetta væri raunsönn tala um samanlagðan vindmyllufjölda allra þeirra áforma sem þessi fyrirtæki eru að skoða í vindorku, þá segir þessi tala ekkert um það hvaða vindorkuverkefni hér eru líkleg til að verða að veruleika, né hver heildarfjöldi vindmylla verður.
Hófleg virkjun vindorku framundan
Öll þau verkefni í vindorku sem eru til skoðunar, að einu undanskildu, eiga það sameiginlegt að vera fremur skammt á veg komin. Undantekningin er s.k. Búrfellslundur sem Landsvirkjun áformar við Þjórsá ofan Búrfells, gegnt Heklu, enda hefur það verkefni verið mun lengur í undirbúningi en vindorkuverkefni Zephyr Iceland eða annarra. Einhver verkefnanna kunna að falla niður. Einhver verkefnanna kunna að verða töluvert og jafnvel miklu minni en sú hámarksstærð sem svæðin gefa færi á. Einungis nokkur verkefnanna eru komin í ferli mats á umhverfisáhrifum. Og faglegar vindmælingar hafa enn ekki átt sér stað nema í örfáum verkefnanna.
Sennilegast er að uppbygging vindorku hér fari fremur rólega af stað, enda eru þetta flókin verkefni sem kalla á verulegar rannsóknir og þurfa að fara í gegnum strangt umhverfis-, skipulags- og leyfisferli og eru líka háð því að kaupandi að raforkunni sé til staðar. Þetta og ýmislegt fleira, eins og t.d. það að aðgangur að varaafli er takmarkandi þáttur, veldur því að virkjun vindorku hér á Íslandi verður sennilega fremur hógvær. Hógvær, en engu að síður hagkvæm og góð viðbót við raforkukerfið og um leið hluti af því ferli að íslenskt samfélag geti í auknum mæli gengið fyrir innlendri endurnýjanlegri orku fremur en innfluttu bensíni og olíu.
Vandvirkni er lykilatriði
Greinarhöfundur er algerlega sammála forstjóra OR um að vanda þurfi til verka við uppbyggingu vindorku. Þó það nú væri. Og ef að sporin hræða forstjórann, líkt og hann nefndi og vísaði til meintrar hjarðhegðunar og gjaldþrota hér í refarækt og laxeldi á síðustu öld, þá vill svo til að þaulreynt vindorkufyrirtæki líkt og norska Zephyr er satt að segja nokkuð líklegt til að framkvæma verkefni af þessu tagi af fagmennsku og viðeigandi varkárni. Og hefur jafnvel burði til að gera það eins vel ef ekki betur en OR, sem hefur fjarska litla reynslu af vindorku.
Það má líka taka undir þau sjónarmið hjá forstjóra OR að það er vissulega vandasamt verkefni fyrir Ísland að ætla að fara í alger orkuskipti. Þar er um að ræða langtímamarkmið og mikil óvissa er enn um það hvort eða hvernig markmið þar að lútandi munu nást. Vindorka verður vafalítið hluti af því að auka hlutfall innlendrar endurnýjanlegrar orku á kostnað innflutts jarðefnaeldsneytis. En hvernig þetta allt mun þróast er ekki fyrirséð og að sjálfsögðu er geysilega mikilvægt að vanda þar til verka og m.a. forðast að valda náttúrspjöllum. Þetta á auðvitað ekki bara við um nýtingu vindorku, heldur líka virkjun vatnsafls og jarðvarma og margt fleira.
Eftir því sem vinnu Zephyr Iceland við verkefnin hér vindur áfram og hinir ýmsu staðir eru rannsakaðir meira mun skýrast hvaða verkefni fyrirtækisins eru best og raunhæfust til að verða að veruleika. Stærð þeirra er enn óviss og umfangið mun eðlilega m.a. haldast í hendur við raforkueftirspurn. Vegna þessara og fleiri óvissuþátta er skynsamlegast að taka kynntum áformum um afl á hverjum stað með fyrirvara og vikmörkin þar geta verið umtalsverð.
Fagleg erlend fjárfesting
Vert er líka að nefna að verkefni Zephyr Iceland eru nú þegar byrjað að skapa margvíslega vinnu hér og tekjur fyrir t.d. íslenska fornleifafræðinga, fuglafræðinga, náttúrufræðinga, skipulagsfræðinga og verkfræðinga. Sú vinna er greidd með eigin fé fyrirtækisins sem kemur inn í landið frá Noregi í formi erlends gjaldeyris.
Þetta nefnist erlend fjárfesting, sem margir stjórnmálamenn og fleiri eru einmitt sífellt að kalla eftir og segja mikilvæga fyrir okkur Íslendinga. Og þó svo þetta séu engar risa upphæðir hjá Zephyr Iceland enn sem komið er, þá er þarna um að ræða fjármagn og þekkingu sem OR ætti ekki að óttast. Á næstu þremur árum má gera ráð fyrir að Zephyr verji hér sem nemur um hálfum milljarði króna í meiri rannsóknir. Í framhaldi af því ætti að verða unnt að reisa fyrsta vindmyllugarð fyrirtækisins hér, sem gæti orðið fjárfesting upp á um tuttugu milljarða króna. Eftirspurn eftir raforku gæti þó kallað á meiri fjárfestingu þá þegar, en um það er of snemmt að segja.
Hvað náttúruvernd og ferðaþjónustu snertir þá er skiljanlegt að sumum þyki mikið að tugir mögulegra vindorkuverkefna séu í skoðun út um allt land. En eins og fyrr sagði þá þarf margvíslegar athuganir og rannsóknir á þessum stöðum áður en unnt er að sjá fyrir sér hvort og hversu mikið vindafl mun rísa og það verður sennilega fremur hógvært. Um þetta er vissulega erfitt að spá, en allt mun þetta skýrast smám saman. Og það mun enginn hlaupa í að reisa hér vindmyllugarða bara af því hér er vindur.
Það er kannski eðlilegt að OR kæri sig lítt um samkeppni frá erlendum fagaðilum í vindorku. En æskilegt væri að umfjöllun af hálfu forstjóra þessa mikilvæga borgarfyrirtækisins vegna Zephyr Iceland og annarra erlendra vindorkufyrirtækja hér, væri a.m.k. örlítið málefnalegri en sú sem birtist í umræddu viðtali og greinarskrifum forstjórans.
Höfundur er framkvæmdastjóri Zephyr Iceland, nátúruunnandi og útivistarmaður.