Í byrjun vikunnar birti Efling-stéttarfélag fyrsta tölublað af Kjarafréttum,sem verður reglubundin útgáfa er kemur á framfæri staðreyndum um lífskjör láglaunafólks. Þar voru sýnd ný gögn frá OECD um örlæti barnabóta í aðildarríkjunum, þ.m.t. Íslandi.
Þar kom skýrlega fram að örlæti barnabóta til einstæðra foreldra sem eru nærri lágmarkslaunum, með tvö börn (6 og 9 ára), er með minna móti á Íslandi í samanburði við hin aðildarríkin og miklu minna en á hinum Norðurlöndunum. Samt er þetta sá hópur sem fær hæstu barnabæturnar út úr íslenska kerfinu.
Hjón og sambúðarfólk, einnig með tvö börn á sama aldri, sem hafa tekjur mitt á milli meðallauna og fátæktarmarka, fá lökustu barnabæturnar af öllum aðildarríkjunum sem á annað borð eru með barnabætur fyrir hjónafólk. Einungis þjóðir á mun lægra hagsældarstigi en Íslendingar og þjóðir sem búa við afar slök velferðarkerfi eru neðar en við (t.d. Bandaríkin).
Þetta er afleit útkoma fyrir hagsældarríki eins og Ísland sem vill vera með lífskjör sem eru samkeppnishæf við hinar norrænu þjóðirnar.
Viðbrögð fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brást við fréttum RÚV af málinu og sagði að horft væri framhjá því að Ísland er með há útgjöld til annarra þátta fjölskyldumála, einkum í rekstur leikskóla og í fæðingarorlof.
Boðskapurinn var sem sagt sá, að fyrst við erum með góða leikskóla fyrir nær öll börn til 5 ára aldurs þá þurfi fólk ekki að fá háar barnabætur (til 18 ára aldurs). Menn ættu að vera ánægðir með stöðuna eins og hún er.
Annað sem Bjarni Benediktsson nefndi er að í samanburði sem gerður var á vegum ráðuneytisins fyrir nokkrum árum (skýrsla Axel Hall o.fl.) þá kom fram að „óskertar barnabætur" væru ekki áberandi lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.
Það er rétt, en segir bara hluta sögunnar, því þá er horft fram þeirri sérstöðu Íslands að hér eru bæturnar skertar harkalega og það strax við lágmarkslaun. Það fá því fáir fullvinnandi foreldrar óskertar barnabætur á Íslandi, nema helst þeir sem eru á strípuðum lágmarkslaunum og svo skattsvikarar sem gefa ekki upp neinar launatekjur.
Þegar lægst launaða fólkið freistar þess að auka vinnu sína til að bæta hag barna sinna þá hverfa barnabæturnar hratt og lengja leiðina til raunverulegra kjarabóta. Þetta er afleiðing af því hversu neðarlega í launastiganum skerðingin hefst.
Þess vegna er gerður samanburður á „greiddum barnabótum" í gögnum OECD, sem Kjarafréttir Eflingar styðjast við. Það er auðvitað það sem máli skiptir, hvað fólk fær í hendurnar - og útkoma er sem sagt afleit fyrir Ísland.
Það þriðja sem Bjarni Benediktsson nefnir og telur mikinn kost við íslensku barnabæturnar er að þær fari mest til þeirra tekjulægri. Tekjutengingar eru út af fyrir sig þolanlegar á barnabótum ef þær eru til að skerða út alvöru hátekjufólk (í Danmörku er byrjað að skerða við um 1,3 milljónir á mánuði). En á Íslandi eru bæturnar skornar hratt niður um leið og fólk skríður upp fyrir lágmarkslaun (351.000 á mánuði, fyrir skatt) og eru að mestu búnar að fjara út þegar fólk nær meðallaunum.
Með þessu er búið að breyta barnabótum á Íslandi úr borgararéttindum fyrir launafólk í ölmusu til þeirra allra fátækustu (og til skattsvikara), með miklu offari í skerðingunum. Viðunandi kerfi ætti að vera þannig að skerðingar hefjist ekki fyrr en við meðaltekjur eða nálægt þeim. Þá myndi kerfið virka eðlilega og létta barnafjölskyldum framfærslubyrðarnar.
Til hvers eru barnabætur?
Barnabætur eru ekki styrkur til foreldra, heldur tekjutilfærsla milli tímabila á starfsævinni. Fólk fær barnabætur á fyrri hlutanum, þegar það er að stofna fjölskyldu og koma sér upp húsnæði, það er þegar framfærslubyrðin er mest og launin lægst. Þær eru greiddar út sem lækkun á álögðum tekjuskatti.
Svo á seinni hluta starfsævinnar þegar börnin eru farin úr hreiðrinu og launin orðin hærri, þá greiðir sama fólkið hærri tekjuskatt til að fjármagna barnabætur til næstu kynslóðar á eftir. Þetta er því fyrirkomulag til að dreifa framfærslubyrðinni jafnar milli skeiða á lífshlaupinu og fólkið greiðir fyrir þetta sjálft.
Að meðhöndla barnabætur eins og ölmusugreiðslur, eins og sumir stjórnmálamenn gera, er því bæði rangt og algerlega óviðeigandi. Þetta er bæði skynsamlegt og réttlátt fyrirkomulag.
Á Íslandi er því verk að vinna við að laga stórgallað barnabótakerfi.
Höfnudur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.