Umræður hafa staðið yfir um launakjör í heilbrigðisgeiranum. Læknar vilja hærri laun og eftirspurn er eftir þeirra kröftum erlendis. En það er kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið að mennta lækna og reka heilbrigðiskerfið. Hvað er til ráða til að leysa hnútinn? Það þarf að auka árangurstengd laun og fjölga erlendum læknum. Tengja mætti niðurfellingu skólagjalda við störf á Íslandi eftir nám.
Hærri laun tengd við starfsaldur og árangur
Björn Hauksson.
Þegar kjör lækna eru endurskoðuð þyrfti ekki bara að hækka grunnlaunin heldur mætti líka tengja laun við starfsaldur, við rekstrarárangur og jafnvel við afkomu hins opinbera. Tenging við starfsaldur í fyrirtækjum virkar þannig að starsfólk fær vilyrði um kaupauka í lok árs, en getur einungis innleyst kaupaukann að þremur árum liðnum í starfi. Þetta hvetur til lengri starfsaldurs. Kaupauki gæti einnig verið tengdur við árangur í starfi. Árangur væri mældur með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með könnun meðal sjúklinga og samstarfsfólks. Í öðru lagi hækkar kaupaukinn eftir því sem rekstur stofnunarinnar er nærri áætlun. Í þriðja lagi mætti greiða út hærri kaupauka þegar rekstur hins opinbera skilar afgangi, samkvæmt fyrirfram ákveðnum viðmiðum.
Fjölgun erlendra lækna
Samkvæmt forstjóra Útlendingastofnunar hefur oft á tíðum reynst erfitt fyrir innflytjendur að fá menntun sína frá heimalandinu viðurkennda á Íslandi. Þessu þarf að breyta. Einnig þarf að auglýsa erlendis eftir læknum. Sækjast eftir læknum í löndum þar sem laun lækna eru lægri eða svipuð og á Íslandi. Ekki hika við að sækja fólk frá öðrum heimsálfum líkt og til dæmis Bretland hefur gert með góðum árangri. Enskumælandi læknar geta séð um sjúklinga sem tala ensku, og stuðst við túlk í öðrum tilfellum. Í núverandi stöðu þarf að nálgast málefnið með opnu hugarfari.
Niðufelling skólagjalda tengd við störf á Íslandi
Ísland býður uppá niðurgreitt nám í læknisfræði. Eftir námið er læknum svo frjálst að fara til vinnu erlendis án þess að þjóðfélagið fái nokkuð til baka. Um þriðjungur lækna með íslenskt leyfi starfar erlendis. Meðal yngri lækna er rúmlega helmingur starfandi erlendis. Miðað við einkaskóla erlendis má ætla að skólagjöld fyrir fjögurra ára grunnnám lækna ættu að vera um 25 mkr. Í stað þess að allir læknar fái ókeypis nám mætti bjóða uppá styrk fyrir þá sem vilja. En honum fylgi þá það skilyrði að unnið sé á Íslandi í ákveðinn árafjölda eftir útskrift. Þetta er þekkt fyrirkomulag með styrki erlendis. Ef brottfluttir læknar ákveða að þiggja ekki styrkinn og greiða frekar námsgjöldin, þá hefði Háskólinn hærri tekjur og gæti menntað fleiri lækna.
Jafnvægi næst í fjölda lækna á Íslandi
Eftir nokkur ár gætum við þá verið með mun hærra framboð af læknum, íslenskum sem erlendum. Læknar væru ánægðari í starfi því þeir sem starfa lengi á Íslandi fengju það greitt til baka með niðurgreiddri skólagöngu, og ríflegum kaupauka þegar vel gengur.
Höfundur er hagfræðingur.