Að herja merkir að fara með her gegn einhverjum. Skylt sögninni er nafnorðið samherji sem hefur reyndar yfir sér jákvæðan blæ í herlausu landi. Í ljóði Huldu um land og þjóð segir m.a.:
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Nýlega skrifaði ég vini mínum afmæliskveðju á Facebook og byrjaði svohljóðandi: „Til hamingju með daginn, kæri vinur, sveitungi og samherji.“ Ég hikaði við og strikaði út orðið samherji. Hvers vegna? Ástæðan er sú að búið er að að tjarga og fiðra þetta annars fallega orð, gengisfella það og eyðileggja. Það hafa stjórnendur fyrirtækis nokkurs með sama heiti gert, útgerðar sem hagnast hefur á gjafakvóta, sem fært hefur þeim afl og tækifæri til að fara um víðan völl með vafasömum hætti, út fyrir öll siðmörk. Þeir eru þess nú megnugir í krafti auðs að reka sína eigin leyniþjónustu með mönnum sem svífast einkis og leggja fólk í einelti sem gagnrýnir framgöngu þeirra hér á landi, í Færeyjum, Namibíu og vítt og breitt um heiminn. Helztu forkólfar fyrirtækisins hafa nú réttarstöðu sakborninga á Íslandi og eru sumir eftirlýstir erlendis. Háttsemi þeirra skaðar ekki aðeins fjárhag þessa lands og ímynd heldur skaðar það um leið sjálft tungumálið!
Samþjöppun auðs í höndum manna með skert siðvit er lýðræðinu hættulegt. Hættan er fólgin í því að menn geti haft óeðlileg áhrif á skoðanir fólks með því m.a. að kaupa upp fjölmiðla og stjórna þannig umræðunni í landinu eins og dæmin sanna.
Hollt er að þekkja siðvit og speki Hávamála:
Svo er auður
sem augabragð
hann er valtastur vina.
Til er annað orð sem mér er hugleikið þessa dagana og það er orðið mótherji sem merkir andstæðingur, leikmaður í andstæðu liði. Nú hafa stjórmálaflokkar þeir sem eru sannkallaðir samherjar Samherja náð völdum á Íslandi og ætla engu að breyta sé horft til réttlætis handa landsins börnum. Þessir samherjar Samherja hafa þar með gerst mótherjar eigin þjóðar og lýst yfir stríði á hendur henni sem er svo skyni skroppin að hafa kosið andstæðinga réttlætisins yfir sig.
Árgalli
Nýliðnar kosningar voru okkur sem þjóð einskonar próf í siðviti. Árið 2009 ritaði Njörður P. Njarðvík grein í DV er bar heitið: „Ef árgalli kemur í siðu.“ Hann vitnar í Konungs skuggsjá þar sem rætt er um erfitt árferði en svo er farið skrefi lengra og dýpra með þankann eins og fram kemur í þessari tilvitnun:
Nú er sá einn ótaldur árgalli er miklu er þyngri einn en allir þessir er nú höfum vér talda, ef óáran kann að koma í fólkið sjálft er byggir landið eða enn heldur ef árgalli kemur í siðu þeirra og manvit og meðferðir er gæta skulu stjórnar landsins. ... En ef óáran verður á fólkinu eða á siðum landsins þá standa þar miklu stærstir skaðar af, því að þá má ei kaupa af öðrum löndum með fé, hvorki siðu né manvit ef það týnist eða spillist er áður var í landinu (Kgs45, 51).
Margar eru raunir manna. Siðvit telst til auðs, til verðmæta hjá hverri þjóð. Siðvit er ákveðinn höfuðstóll, einskonar gjaldeyrisforði, sem nú virðist hafa rýrnað hræðilega.
Hinir nýju „sigurvegarar“ kosninganna, eru sannkallaðir samherjar Samherja og mótherjar fólksins í landinu. Allt of margir kjósendur hafa illu heilli orðið fyrir árgalla á siðu. Þjóðin veit ekki lengur sitt rjúkandi ráð.
Þorskastríðin
Forseti vor, Guðni Th. Jóhannesson, ritaði bókina Þorskastríðin þrjú. Þau kostuðu miklar fórnir en ávinningurinn varð mikill. Þessi ávinningur hefur nú verið afhentur nokkrum fjölskyldum á silfurfati og þær ásamt mótherjum þjóðar sinnar vilja nú sem fyrr engu breyta í „landi tækifæranna“ þegar kemur að réttlátri skiptingu auðæfa þjóðarinnar. Land tækifæranna er auðvitað um leið land tækifærissinna. Mótherjar þjóðarinnar hafa ögrað henni með alvarlegum hætti, svikið hana og beitt órétti, háð stríð gegn henni.
Hvað er þá til ráða? Þjóðin þarf að taka til varna í þessu Fjórða þorskastríði. Varnir þær eru ekki mót erlendri þjóð heldur innlendum árásarher. Þetta er innanlandsstríð, borgarastyrjöld um grundvallarmannréttindi. Forréttindastéttin í landinu hefur kostað öllu til að halda bæði völdum og veraldargæðum sem tilheyra þjóðinni, þér og mér, okkur öllum.
Þyngra er það en tárum taki að þurfa að grípa til vopna í eigin landi. Við verðum að berjast sem þjóð gegn svikunum því þau er svo himinhrópandi óréttlát. En vopn okkar eru ekki úr málmum eða byssupúðri, heldur vopn raka og orðræðu, réttlætis og sannleika.
Réttlætið mun sigra
Við, sem eigi unum órétti, munum vinna þetta stríð með siðvitið að vopni, en um leið þarf að byggja það upp aftur hjá þeim sem hafa glutrað því niður í holtaþokum flokkanna, sem hrannast hafa upp að undirlagi samherja Samherja og mótherja þjóðarinnar. Þeir hafa nú enn á ný dregið þjóðina á asnaeyrum hennar sjálfrar og það tókst því siðvitinu var kastað á glæ í kjörklefum landsins.
Við sem þráum réttlætið ætlum að vinna þetta stríð með snörpum rökum og siðvit að vopnum.
Málflutningur flokkanna og fyrirtækjanna sem háð hafa stríð á hendur eigin þjóð á ekki framtíð fyrir sér.
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.
- - -
*Samherji í þessari grein er pars pro toto/hluti fyrir heild, samheiti notað um útgerðaraðalinn í landinu.
**Formaður Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson, notaði heitið Fjórða þorskastríðið í málflutningi sínum fyrir kosningarnar 2021. Þetta sama heiti hefur mallað innra með mér um langt skeið en ég hef ekki notað það í grein fyrr en nú. En þökk sé Gunnari Smára fyrir að hafa sett það á flot í umræðunni. Kannski gerðu fleiri einmitt það sama? Ég veit það ekki.