Flokkaflakkarinn

Birgitta Jónsdóttir viðurkennir að hún hafi aldrei kosið Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn, en styðji einna helst nýja flokka sem enn eru óskrifað blað.

Auglýsing

Ég var ekki alin upp við að giftast flokkum, heldur kjósa þann sem mér þykir bestur hverju sinni. Ég viðurkenni að ég hef aldrei kosið Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn, en ég hef kosið allskonar flokka og aðeins einu sinni skilað auðu. Ég hef einna helst kosið nýja flokka vegna þess að þeir eru enn óskrifað blað og hafa ekki fallið inn í viðjar hefða og boða og banna. Þar ríkir oftast orka nýsköpunar og framkvæmdagleði, þar ríkir von um breytingar og óbilandi trú á að nú sé komið að þeim breytingum sem fólkið þráir hverju sinni og hefur tekið sig saman um að bjóða upp á. Það er skemmtileg og drífandi orka sem auðvelt er að hrífast að og hrífast með. Eftir að hafa tekið þátt í að stofna tvo flokka úr engu nema þessari sömu orku og óbilandi trú á mikilvægi þess að gefa fólki sem aldrei hefur gengið með drauma um þingmennsku tækifæri til að finna röddu sinni og baráttuvilja farveg, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að sú svarthvíta mynd sem dregin er upp að mönnum og málefnum, stefnum, loforðum og auðvitað svikum er bara dægurfluga og skiptir ekki meginmáli til langtíma.  

Fyrir mér eru ráðherrasæti eða þingmennska ekki lokamarkmið stjórnmálaafla, heldur miklu frekar það sem er að gerast í grasrótinni óháð kosningum og öllu því róti  og spennu sem því fylgir.  Ef að rótin er vanrækt og ekkert súrefni að finna í jarðveginum þá er bara tímaspursmál hvenær nýjabrumið fellur án þess að bera nokkurt fræ inn í framtíðina og rot kemst í rót og allt fellur um sjálft sig og stöðnunarkórinn fyllist þórðargleði án þess að átta sig á að þeirra mikilfenglegu tré eru löngu hætt að bera fræ, grasrótin löngu horfin og enginn eftir nema þeir sem eiga einhverja hagsmuni að gæta við að viðhalda tálsýn um stöðugleika og halda dauðans heljartaki utan um leiktjöldin. En öll leiktjöld falla á endanum. 

Ástæða þess að flokkaflakkarinn ég, sem þó hef aðeins skráð mig í einn flokk utan sósíalista, en stofnað tvo að auki, hef ákveðið að taka þátt í grasrótarstarfi sósíalista er einföld. Grasrótin er full af lífi á milli kosninga. Sósíalistar hafa átt stóran þátt í endurreisn verkalýðshreyfinga þeirra sem mest eiga undir þegar barist er um réttindi verkafólks. Sósíalistar hafa átt stóran þátt í að hvetja áfram fólk til þátttöku í stjórnum allskonar hagsmunasamtaka sem berjast fyrir réttinum fólks á t.d. leigumarkaði. Sósíalistar hafa gert tilraunir með þátttökulýðræði eins og t.d. að nýta slembival til að velja fulltrúa í allskonar stefnumótum sem og val á lista flokksins. Það er nýjabrum byggt á aldagömlum hefðum og vilji til að prófa allskonar leiðir til valdeflingar þeirra sem flestir horfa fram hjá nema í kringum kosningar. 

Auglýsing
Þeir sem þekkja mig vel, vita að ég hef barist gegn ofbeldi yfirvalda, óháð hverskyns stefnu þau segjast aðhyllast, ég hef barist gegn yfirvöldum í Kína, Bandaríkjunum, Rússlandi, Ísrael og svo mætti lengi telja og get ekki ferðast til þessara ríkja vegna þess. Þannig að seint væri hægt að spyrða mig við einhverja blindni um hvað gerist ef yfirvöld verða gerræðisleg. Hvar ég er nákvæmlega á hinum pólitíska ási er ekki endilega auðvelt að segja, ég er alþjóðasinni, ég styð mannhelgi til handa öllum, hef barist fyrir alvöru valdatilfærslu til handa lýðnum í lýðræðinu. Ég hef barist fyrir réttindum fátækra, hef verið fátæk sjálfstæð móðir nær allt mitt líf að undanteknum árunum sem ég var á Alþingi og veit hvernig það er að eiga ekki fyrir mat. Ég hef barist og barist og ég held að ég muni aldrei geta almennilega hætt því, það er mér einfaldlega í blóð borið.  Ég þrái að búa í heimi, landi, borg, þar sem við erum öll jafnrétthá og þar sem við öll getum gengið að sömu tækifærum til lífsgæða. Græðgisvæðingin sem drífur áfram sérhagsmunahagvöxtinn er það sem hefur komið mannkyninu út á ystu nöf og ekki aftur snúið. Þessi græðgisvæðing varð til úr hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og brauðmolahagfræðina þar sem þeir allslausu geta lifað af brauðmolum sem falla af gnægtarborði þeirra sem kunna hve best að spila með kerfið sér til handa á meðan þeir þræla út ósýnilega einnota fólkinu. 

Ég gekk til liðs við sósíalista vegna þess að þar eru svo margir vinir mínir úr búsáhaldabyltingunni og svo mikið af fólki þar innanborðs sem skilur hvar þarf að kerfisbreyta fyrst og að það er ekki tjaldað til einna kosninga, heldur hugsað til langtíma, með yfirsýn þeirra sem hafa þroska og þor til að láta verkin tala, þar sem fólk nærir moldina áður en fræin falla og veigrar sér ekki við að rífa brenninetlur sjálfshyggjunnar með berum höndum. Ég hrífst af baráttufólki sem hefur á eigin skinni fengið að upplifa tímana tvenna og veit hvar kreppir að. Ég skora á alla þá sem vilja breyta óréttlæti í réttlæti að koma og taka þátt í að móta framtíðina saman og vera með nú en ekki síður eftir kosningar. Allar byltingar byrja innra með okkur og næsta skref þar á eftir er að átta sig á því að það verða engar breytingar nema að maður sjálfur sé tilbúinn að taka þátt í að gera þær að veruleika. Ef þér finnst mikilvægt að búa við jafnræði og félagshyggju þá ertu kannski bara sósíalisti eins og ég án þess endilega að hafa komið því áður í orð.

Höfundur er skáld.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar