Sjálfstæðisflokkurinn var langsamlega valdamesti stjórnmálaflokkur landsins á síðustu öld. Hann sat bæði langoftast í ríkisstjórn og hafði líka lengi vel meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur auk bæjarstjórna í allnokkrum sveitarfélögum. Lengst af beitti hann þessum völdum sínum tiltölulega skynsamlega og veitti til dæmis miklu fé til heilbrigðismála, skólamála og félagsmála. Og að sjálfsögðu var aflað tekna til þessara verkefna með hefðbundnum hætti: með tekjusköttum, eignasköttum, útsvari, neyslusköttum (nú virðisaukaskatti) og innflutningstollum.
En þessi dýrð stóð ekki endalaust því að nýfrjálshyggjan kom til skjalanna upp úr 1980, undir forystu Davíðs Oddssonar. Í verkfæratösku þessarar stefnu voru meðal annars tól til að draga úr fyrrnefndum útgjöldum hins opinbera, bæði leynt og ljóst. Eitt af þessum tólum getum við kallað „aðferð hinnar föstu krónutölu“: útgjöldum til stofnana og málaflokka var haldið föstum í krónutölum milli ára þannig að verðbólgan skerti verðmætið á hverju ári. Annað dæmi um sams konar „gervisparnað“ sneri að eignum hins opinbera; viðhaldi á þeim var haldið í lágmarki eins og við sjáum núna víða í kringum okkur eftir að áratugirnir hafa unnið sitt verk.
Aðhaldið í fjármálum hins opinbera tók smám saman á sig mynd trúarbragða þar sem tölurnar fengu miðlæga stöðu guðsins. Þær voru ræddar fram og til baka, oft án þess að menn veltu því verulega fyrir sér hvernig fénu væri varið. En smám saman rýrnuðu fjárveitingar til dæmis til heilbrigðismála, skólamála og félagsmála og staða okkar í samanburði milli þjóðríkja versnaði að sama skapi.
En svo má brýna deigt járn að bíti. Nú er svo komið að mikill meirihluti þjóðarinnar gerir sér skýra grein fyrir því að verkefnum hins opinbera er ekki sinnt sem skyldi og að umbætur muni koma við budduna með einum eða öðrum hætti. Í heilbrigðismálum er auk þess víðtæk samstaða um að hið opinbera þurfi að koma þar að verki, sjá mynd. Að vísu er ógaman að sjá að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins skilja sig mjög frá öðrum um þá spurningu, svo að vandséð er hvernig flokkurinn geti átt samleið með öðrum í þessum málaflokki.
Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn eiga í miklum kröggum um þessar mundir, að því er varðar fylgi, stefnu og samstarfshæfni. Á síðustu öld sótti flokkurinn ekki aðeins fylgi til atvinnurekenda heldur einnig til bænda og annarra einyrkja sem og til efnaðri millistéttar. En nú er svo komið að flokkurinn á erfitt uppdráttar hjá ungu fólki og smærri atvinnurekendur hafa farið frá borði. Þetta má að mínu mati rekja til úreltrar og staðnaðrar stefnu og afskipta, til dæmis í umhverfismálum og sóttvarnarmálum. Ofan á það bætist svo spilling og heimtufrekja. Hið fyrra birtist okkur reglulega til dæmis í því hvernig flokkurinn hefur sölsað undir sig réttarkerfið í landinu með pólitískum stöðuveitingum, og í vandræðalegri vörn flokksins fyrir stórfyrirtæki á borð við Samherja. Heimtufrekjan birtist okkur til að mynda þegar stuðningsmenn Vinstri grænna lýsa óánægju sinni vegna lélegs árangurs VG í stjórnarsamstarfinu en Sjálfstæðismenn eru þvert á móti bara ánægðir með sinn hlut.
Þá hefur flokkurinn komið sér upp því óorði að ekkert sé að marka loforð frá hans hendi. Sem dæmi má nefna þegar uppvíst varð fyrir nokkrum árum að flokkurinn hafði fengið milljónatugi í kosningasjóð frá stórfyrirtækjum á borð við Icelandair. Formaðurinn brást hart við og sagðist mundu endurgreiða styrkinn á nokkrum árum. Mér skilst að einhverjir milljónatugir hafa enn ekki verið greiddir.
Út yfir tekur þó núna í kosningabaráttunni þegar flokkurinn veifar „röngu tré“ – sem er gert úr tveimur bútum sem stangast á. Annars vegar segist flokkurinn þrátt fyrir allt vilja hlúa að heilbrigðiskerfinu en hins vegar syngur hann gamla sönginn um skattalækkanir eins og ekkert hafi í skorist. Margir almennir kjósendur sjá auðveldlega gegnum svona málflutning mótsagnanna: Fjárþörf heilbrigðiskerfisins er slík að henni verður ekki mætt með töfrabrögðum heldur þarf að benda á nýjar tekjur til að skapa trúverðuga mynd. Þetta hafa flestir aðrir flokkar séð og benda til dæmis á veiðigjöld vegna auðlinda sjávar; tekjulind sem kemur ekki við buddu almennings.
Sumir hafa sagt að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn að eins máls flokki, og er margt vitlausara. Flokkurinn virðist hættur að sinna hagsmunum almennings eða stórra hópa en einblínir í staðinn á hag hinna fáu, sérstaklega stórfyrirtækja í sjávarútvegi. Afstaða flokksins til annarra mála mótast oft af þessari þungamiðju hugsunarinnar. Hann virðist alls ekki láta það á sig fá þó að hann fórni bæði fylgi kjósenda og samstarfshæfni gagnvart öðrum flokkum fyrir þennan þrönga málstað sérhagsmunanna. Hann hefur týnt sjálfum sér.
Höfundur er prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu.