Íslensk, nýtanleg jarðefni eru fábreytt. Mest er um byggingarefni úr jarðlögum. Grjót, malar- sand- og gjóskunám var og er yfirgnæfandi. Af öðru mætti nefna kísilgúr, leir og mó. Kannanir á málmum, perlusteini og fleiru hafa ekki leitt til námureksturs. Þar koma við sögu t.d. lágar magntölur, dýrar vinnsluaðferðir og breytt eftirspurn. Langflestar stórar bergefnisnámur eru á suðvesturhluta landsins. Þar stór sér á nokkrum fjöllum og ásum, allt frá Stapafelli austan Keflavíkurflugvallar til Ingólfsfjalls, eftir rekstur leyfisskyldra náma sem er mismikil sátt um. Almennt er þó viðurkennt að einhvers staðar verður að taka öll tonnin.
Litla-Sandfell við Þrengslaveg er þegar illa farið af fyrra málarnámi, árum saman.
Námarekstur er að öllu samanlagður ósjálfbær. Það eyðist sem af er tekið og ekki er unnt að endurnýja. Líkt og skerðing á náttúrulegu umhverfi vegna raforkuvinnslu og hitaveitu er hóflegur námugröftur óhjákvæmilegur og unnin að kröfu alls þorra fólks. Ávallt og samtímis eru leiðandi spurningar jafn óhjákvæmilegar um nauðsyn, staðsetningu, umfang, hagsýni og tilgang, auk mótvægisaðgerða slíkra náttúrunytja. Spurninganna vegna var lögfest mat á umhverfisáhrifum og sjálfbærni framkvæmda, áætlana eða reksturs. Spurninganna vegna er einnig fráleitt að samsama verklegar framkvæmdir, almennt eða oftast, við eyðileggingu umhverfisins. Sérhvert samfélag verður að leita jafnvægis milli náttúrunytja og verndar. Sem betur fer hefur verndin eflst en ekki nægilega hratt og vel.
Efnin breyta eiginleikum sements og steypu og minnka óæskilega losun lofttegunda. Magn flugösku dregst nú saman vegna lokunar kolaorkuvera. Þau eru þó enn afar algeng. Innan Evrópusambandsins á að fasa þau út á árabilinu 2023 til 2038. Miklu af flugösku hefur lengi verið fargað með því að koma henni fyrr á sérstakan hátt í gömlum kolanámum og allvíða í vegalögnum. Þetta gerist enn þrátt fyrir meiri eftirspurn eftir flugösku í sementsframleiðslu.
Fróðleg, og sum umdeilanleg, svör fyrirtækjanna við umsögnum allmarga aðila hafa undanfarið birst í Kjarnanum. Að þeim verður ekki vikið enda sérfróðir menn til svara beggja megin borðs. Aðeins bent á að bæði fyrirtækin leggja ofuráherslu á hve mikill ávinningur bygging aðstöðunnar, rekstur námanna og útflutningurinn verður í andófi gegn hlýnun jarðar. Svo er bent á við flytjum inn sement (sem áður var framleitt innanlands) og berum þar með ekki ábyrgð á efnalosun vegna framleiðslunnar. Einföld eru þau rök.
Móberg er misgróf eldgosaaska og getur innihaldið smáa vikurmola og bergmylsnu. Hún er samanlímd með „steingerðum“ útfellingum og efnafræðilega breytt vegna áhrifa vatns og varma. Móberg er allvíða til í heiminum þar sem gosið hefur í jöklum eða upp úr sjó og vötnum Gífurlega mikið er af móbergi innan eldvirka beltisins á Íslandi og í nágrenni þess; tindaraðir, stök fjöll (t.d. stapar og keilur), fell og ásar, mjög víða með samblandi af ösku og hraunbrotum (þursabergi) og bólstrabergi (ávölum hraunbólstrum). Vinnanlegur vikur, sbr. Hekluvikur, sem enn er fluttur út, finnst víða um heim. Á meginlandi Evrópu er hann t.d. til á Ítalíu, í Tyrklandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Þýskalandi og Frakklandi. Milljónir tonna eru unnar úr námum, einkum í þremur fyrstnefndu löndunum.
Flugaska hefur orðið til í miklum mæli. Samkvæmt bókarkafla eftir indverska sérfræðinga (DOI: 10.5772/intechopen 82078) átti Indland heimsmetið 2018, heil 112 milljón tonn (Mt). Kína framleiddi þá 100 Mt, Bandaríkin 90 Mt og sex valin Evrópuríki 60 Mt, þar af Þýskaland 40 Mt og Danmörk 2 Mt. Tveimur árum fyrr voru um 9 Mt af flugösku í fimmtán ES-löndum nýtt til byggingariðnaðar en rúm 3 Mt til vegagerðar. Allar þessar tölur hafa auðvitað breyst en eru til marks um stærðargráðuna. Flugaskan gæti smám saman horfið úr sementsiðnaði á næstu áratugum.
Vistvænn byggingariðnaður er afar mikilvægur. Sem vistvænust steypa, tré og önnur efni, unnin úr lífheimi, gler, endurunnið járn, stál og ál og fleiri efni koma þar í stað margra eldri steypugerða. Hér á land hefur verið þróuð afar vistvæn steypa á borð vð ECOcrete (á meðan Nýsköpunarmiðstöðin starfaði). Gaslosun úr sementsiðnaði fellur undir ETS-kerfið, þ.e. verksmiðjur kaupa losunarheimildir á alþjóðlegum markaði. Íslenskt móberg og Kötlusandur getur vissulega gert gagn og lækkað kolefnisspor sements en beina ábyrgðin er þá framleiðandans en ekki landsins sem leyfir námareksturinn. Óbein ábyrgð varðar Ísland, rétt eins og notkun jarðolíu eða innflutningur trjávara. Í loftslagsmálum er enginn eyland.
Hvað sem ábyrgðinni líður stendur upp á okkur að hafna eða leyfa námurekstur og útflutning óunnins eða unnins íblöndunarefnis í sement. Það fæst annars staðar en á Íslandi, ýmist flugaska (t.d. innan og utan Evrópu í nokkra áratugi) eða heppilegur vikur. Í þeim efnum horfir hagnaðardrifinn framleiðandi sements líklega stíft til kostnaðar af hráefnisöfluninni. Af okkar hálfu er margt að kanna áður en ákvörðun er tekin.
Hér á landi ber fyrst af öllu og taka tillit til orkustefnu landsins, raforkustöðunnar og orkuskipta, ásamt orku eftirsprun í grænum iðnaði er skilar sem mestum umhverfisávinningi, einkum í framleiðslu matvæla, fæðubótarefna og lyfja. Sjálfbærni atvinnuvega og hringrásarhagkerfi eru aðal keppikeflin. Krefjast mætti LCA-greiningar á ferli íslenska efnisins, þ.e. lífsferilsgreiningar frá töku þess og flutningi, allt til áhrifa af notkunin á erlendri grund.
Námurekstur vegna efnisútflutnings er ekki fyrirfram sjálfsagður í ramma gjörbreyttrar framtíðar. Hann verður enn fremur að henta nærsamfélögum sem hýsa hann. Áraun vegna hans á samgöngur (á landi og sjó) og annan atvinnurekstur verður að vera í samræmi við stöðuna þar, allt öryggi og enn fremur framkvæmanlegar áætlanir, t.d. samgönguáætlun, loftslagsaðgerðaráætlun, landbúnaðar- og matvælastefnu og sjálfbærni. Skoða mætti íslenska fullframleiðslu á vistvænu sementi til samanburðar við fyrirhugaðan rekstur erlendu aðilana í samvinnu við þá innlendu, vilji menn ganga lengra. Nóg er til af reynslu af ólíkum verkefnum sem hafa farið á ýmsa lund: Kísilgúrvinnsla, kísilmálmiðja á Suðurnesjum, ófullburða álver, vikur- og gjallútflutningur, sements- og áburðarframleiðsla.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður VG.