Í frétt Kjarnans frá því í gær kemur fram að Happdrætti Háskóla Íslands vilji opna svokallað spilavíti á Íslandi sem og að bjóða upp á fjárhættuspil á netinu. Tillaga þess efnis er í minnisblaði sem fjölmiðillinn hefur undir höndum, en hann greinir frá því að í blaðinu sé notast við annað orðalag en spilavíti og lagt til að leyfi verði veitt til að opna „spilahöll (casínó)“.
Þetta hljómar eins og eitthvað sem mafían myndi gera. Auk þess að reka casínó myndi mafían kannski standa í stórtækri fíkniefnasölu og sölu á vændi. Mafían myndi þó kannski ekki reyna að beita fyrir sér röksemdafærslu eða koma með hina eilífu afsökun; fólk er hvort eð er að kaupa vændi og fíkniefni svo hví getur HHÍ ekki boðið upp á sömu þjónustu?
En svipuð orð voru einmitt notuð í rökstuðningi tillögunnar frá HHÍ þar sem segir að Íslendingar í dag hafi greiðan aðgang að erlendu og ólöglegu peningaspili á netinu. „Það skýtur því skökku við að innlendir sérleyfishafar hafi ekki mátt bjóða upp á peningaspil á Netinu og þarf að leiðrétta það misræmi.“
Ég hef ekki sótt tíma í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands en gengur hún ekki einmitt út á eitthvað þveröfugt við þetta batterí? Ég viðurkenni að ég er enginn sérfræðingur i þessum efnum en persónulega finnst mér ekki rétt að halda áfram að byggja stærstu menntastofnun landsins á eymd og þjáningu fólks með alvarlegan fíknivanda.
Samkvæmt frétt sem birt var í Guardian fyrr á árinu glíma um 1,4 milljónir manna á Bretlandi við spilafíkn og eru enn fleiri, eða um 1,5 milljónir, í áhættuhópi. Í sömu grein segir að spilafíkn kunni að vera níu sinnum algengari en þjónustur sem bjóði upp á fjárhættuspil telja. Þetta kemur fram í árlegri rannsókn Gamble Aware.
Spilafíkn er alvarlegt vandamál víða um heim. Nieves Murray, framkvæmdastjóri Suicide Prevention í Ástralíu, stofnun sem beitir sér fyrir því að koma í veg fyrir sjálfsvíg, kallaði nýlega eftir úrræðum og lagaumbótum vegna spilafíknar þar í landi.
Hvernig getur ríkisstjórn Íslands tekið á þessum lýðheilsuvanda þegar stærsta menntastofnun landsins hagnast á því að viðhalda vandanum og vill nú ganga enn lengra en að reka bara spilakassa og opna hreint og beint spilavíti og auk þess bjóða upp á fjárhættuspil á netinu? Liggur ekki fyrir að tíðni sjálfsmorða eigi eftir að rjúka upp í kjölfarið?
Maður myndi líka halda að einmitt Háskóli Íslands, þar sem margt sniðugt, gott og vel gefið fólk starfar, geti fundið gáfulegri og betri lausn við uppbyggingu innviða. Ábyrg fjárhættuspilun er líka bein mótsögn. Getum við ekki tekið ábyrgð sjálf, brotið heilann og beitt skynseminni? Það hlýtur að vera hægt að finna betri lausn við því að byggja upp menntastofnun á Íslandi en að reka casínó, opna vændishús eða selja fíkniefni.
Höfundur er rithöfundur.