CarT, mRNA og siRNA skipta máli
Áður en lengra er haldið er rétt að halda því til haga að frumu-, RNA- og genalækningar snúast um fólk. Það þrá allir að sjá einhverja von fyrir sig eða ástvini sína sem gæti hjálpað þeim til betra lífs. Það er því nauðsynlegt í upphafi að ítreka að þótt aðferðarfræðin sé í hraðri þróun er enn talsvert í land og allsendis óvíst hvort og hvenær leyfi fyrir mismunandi meðferðum fæst samþykkt hjá eftislitsstofnunum víða um heim. Heilbrigðisstarfsfólk hérlendis sem erlendis fylgist mjög vel með þessum framförum og reynir eftir bestu getu að koma tækninni til sinna sjúklinga eins fljótt og mögulegt er.
Sprenging í klínískum rannsóknum frumu-, RNA- og genalækninga.
Árið 2019 gaf Matvæla-og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) út yfirlýsingu vegna mikillar fjölgunar umsókna um frumu-, RNA- og genalækningar. Þar gerðu þeir grein fyrir að þeir væru þegar farnir að undirbúa sig í samstarfi við alla hagsmunaaðila með ráðningu fleiri sérfræðinga á þessum sviðum. Í þeirri skýrslu gerðu þeir ráð fyrir að frá árinu 2025 yrðu samþykktar u.þ.b. 10-20 nýjar meðferðir tengdar frumu-, RNA-, og genalækningum árlega. Meiri hluti þeirra meðferða sem verið er að vinna að á þessu sviði eru tengdar mismunandi tegundum krabbameins og sjaldgæfum sjúkdómum.
Hvað eru frumu- , RNA- og genalækningar?
Í fyrsta lagi má skipta frumu-, RNA- og genalækningum í tvennt á grundvelli þess hvort um sé að ræða erfðabreytingar eða ekki. Í öðru lagi snýst aðferðafræðin í grófum dráttum um að a) koma af stað framleiðslu ákveðinna efna sem vantar í líkamann vegna stökkbreytinga/genagalla, b) stöðva ferli ákveðinna stökkbreyttra próteina, c) koma af stað ferli sem eyðir út t.d. krabbmeinsfrumum byggt á breytingum sem hafa orðið í þeim. Til þess að skýra málið nánar er hægt að taka dæmi um splunkunýjar meðferðir sem voru samþykktar á öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Car-T, breyttar T-frumur frá sjúklingi notaðar til að drepa æxlisfrumur
Á árinu 2022 hefur meðferðin „Carvykti“ frá fyrirtækinu Legend Biotech verið samþykkt í Bandaríkjunum, Evrópu og Bretlandi við mergæxlum (e. Multiple Myeloma). Í þessum plasma-krabbameinsfrumum hefur orðið breyting sem veldur því að þessar frumur skipta sér örar í beinmerg en eðlilegar plasmafrumur. Meðferðin notar svokallað „CarT“ kerfi til að keyra upp mótefnasvar við krabbameinsfrumunum.
Hún byggir á því að taka T-frumur (ónæmiskerfisfrumur) úr einstaklingnum/sjúklingnum og erfðabreyta þeim þannig að þær þekki próteinið BCMA sem er tjáð í miklum styrk á yfirborði krabbameinsfrumnanna en í lágum styrk á eðlilegum plasmafrumum. T-frumunum er síðan sprautað aftur inn í sjúklinginn þar sem þær fjölga sér, leita uppi og taka þátt í að eyða frumum sem hafa þetta prótein á yfirborði sínu. Þannig sér ónæmiskerfi einstaklingsins sjálft um að eyða óæskilegum frumum.
Car-T kerfið fyrir mismunandi krabbamein er sú aðferð sem undanfarið hefur mest verið sótt um leyfi fyrir hjá FDA.
Hömlun óæskilegrar próteinframleiðslu/uppsöfnunar með siRNA
Árið 2022 var Amvuttra (innhaldsefni vutristran) samþykkt í Bandaríkjunum sem meðferð við arfgengum transtýretín mýlildissjúkdóm (hATTR amyloidosis) hjá fullorðnum einstaklingum með fjöltaugakvilla. Sjúkdómseinkenni koma fram vegna stökkbreytingar í geni sem skráir fyrir TTR próteini sem framleitt er í lifur. Sú stökkbreyting veldur uppsöfnun próteinsins í líffærum og margháttuðum einkennum tengdum því. Amvuttra meðferðin felst í að gefa sjúklingnum svokallað siRNA (short interferance RNA) sem kemur í veg fyrir að mRNA TTR gensins sé þýtt yfir í prótein. Framleiðslu próteinsins er þannig hamlað og uppsöfnun þess minnkar/hættir. Sumir sjúklingar sem tóku þátt í klínískum tilraunum endurheimtu hluta taugastarfsemi sinnar en hjá öðrum hægði verulega á skemmdum af völdum uppsöfnunar próteinsins.
mRNA bóluefni til að örva ónæmiskerfið til að þekkja og drepa óæskilegar frumur
Hér verður að lokum að nefna þá aðferðafræði sem notuð var til að búa til mRNA bóluefni við Covid-19. Sú reynsla sem fengist hefur af notkun bóluefnisins gefur vísibendingar um að hægt sé að nota aðferðarfræðina til að búa til mRNA bóluefni gegn t.d. krabbameinsfrumum sem hafa breyst á þann hátt að hægt sé að örva ónæmiskerfið til að leita uppi og drepa eingöngu þær frumur.
Hver er staðan núna?
Samtals eru í gangi rúmlega 3600 rannsóknir sem skráðar eru hjá eftirlitsstofnunum, bæði forklínískar og klínískar tengdar frumu-, RNA- og genalækningum. Þar á meðal eru aðferðir til að koma nýjum genum inn í erfðaefni fruma, breyta erfðaefni frumna og aðferðir til að aðgreina heilbrigðar frumur frá krabbameinsfrumum. Margar þeirra munu falla niður vegna ófullnægjandi árangurs eða aukaverkana en einhverjar munu ná alla leið til sjúklinga. Við getum líka búist við að fyrstu árin verði þessar meðferðir kostnaðarsamar enda meðferðin sérhæfðari og sjúklingahópurinn þar af leiðandi minni. Það er nokkuð ljóst að á næstu 10-15 árum verða stórstígar framfarir á þessum sviðum sem sér ekki fyrir endann á.
Höfundur starfar í djúptækni.