Ég man sterkt eftir Guðmundi Jaka. Alltaf þegar hann kom fram og tjáði sig um mál sem snéru að fólkinu á gólfinu þá var hlustað. Hann var formaður Verkamannasambands Íslands á þessum tíma (1975 til 1991) og þingmaður Alþýðubandalagsins sömuleiðis meðfram þeim störfum þó ég muni frekar eftir honum sem verkalýðsleiðtoga en þingmanni.
Hann hafði sérstaka framkomu með dimmri röddu og hægum talanda. En það sem var mest einkennandi við hann var sannfærandi framkoma fyrir hönd fólksins á gólfinu. Með framkomu sinni tókst honum líka að setja stjórnmálamenn og stjórnvöld undir pressu og þannig hafa áhrif á það hvernig mál komust á dagskrá, hina pólitísku forgangsröðun.
Baráttan ekki jafn augljós
Ég sakna þess, ekki síst sem fjölmiðlamaður, að verða ekki jafn augljóslega var við stéttabaráttu núna eins og var í tíð Guðmundar Jaka og kollegga hans. Stéttabaráttan núna er á margan hátt máttlaus miðað við það sem áður var.
Ég held að ástæðan sé ekki veikir forystumenn í verkalýðshreyfingunni. Í henni eru mörg dæmi um öfluga talsmenn.
Talsambandið milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálamanna, ekki síst á vinstri vængnum, virðist vera veikara nú. Áður fyrr var sambandið oftar beintengt í gegnum fólk sem var á báðum vígstöðum, eins og reyndin var með Guðmund Jaka. Færri dæmi eru um þetta núna. En það sem vegur þyngst er að stjórnmálamenn hafa ekki eins mikinn áhuga á stéttabaráttunni, að því er virðist.
Veikróma rödd frá vinstri
Á undanförnu ári hafa verkföll verið tíð. Fólkið á gólfinu hefur verið að berjast fyrir betri kjörum og opinberir starfsmenn sömuleiðis, kennarar, flugmenn og flugvirkjar svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir þetta hafa vinstri flokkarnir, Vinstri græn og Samfylkingin, með engum hætti tekið þau mál til sín og gert stéttabaráttuna að sínum helstu baráttumálum. Veikróma rödd úr þessum áttum hefur engri athygli náð og það hefur verið staðfest með könnunum á fylgi og síðan slæmum úrslitum í kosningum.
Sérstaklega hefur þetta verið augljóst í tilviki Samfylkingarinnar. Hún er vængbrotin þessa dagana, með afar veika málefnalega stöðu eftir að Íslendingar höfnuðu fyrirsjáanlega í kosningum þeirri leið sem Samfylkingin hefur lagað allt sitt málefnastarf að á undanförnum árum; Evrópusambandinu (ESB). Ísland er órafjarri því að uppfylla Maastricht skilyrðin fyrir inngöngu í ESB og glímir enn við bráðavanda í efnahagslífinu sem rekja má til hruns fjármálakerfisins og setningu fjármagnshafta í kjölfarið. Sérstaklega er skuldastaða ríkissjóðs langt frá því að samræmast viðmiðinu um skuldir upp á 60 prósent af árlegri landsframleiðslu sem þarf að uppfylla til þess að geta orðið hluti af ESB, svo eitt þungavigtaratriði sé nefnt. Jafnvel þó meirihluti Alþingis hafi samþykkt 16. júlí 2009 að sækja um aðild að ESB þá var ljóst frá upphafi að pólitískur meirihluti var ekki að baki aðildarferlinu. Fögur orð um að innganga tæki aðeins tvö ár, eða í lengsta lagi fjögur ár, reyndust orðin tóm. Núna er síðan nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean Claude Juncker, búinn að lýsa því yfir að ESB muni ekki stækka næstu fimm árin. ESB er því fjarlægur möguleiki í augnablikinu og ætti ekki að vera jafn stór hluti af pólitískri rökræðu eins og það er núna.
Í ljósi þess hversu miklir hagsmunir eru í húfi – og þar hefur Samfylkingin rétt fyrir sér – þá voru það herfileg mistök að halda að þetta væri góður tímapunktur til þess að sækja um aðild eins og forysta Samfylkingarinnar hélt fram. Eins og tíminn hefur leitt í ljós var svo alls ekki. Forysta flokksins greindi stöðuna kolrangt þegar hún reyndi að selja almenningi það að umsóknin væri eins og björgunarhringur í efnahagslegum ólgusjó.
Stéttabarátta, hvar er hún?
Á sama tíma og deilt hefur verið um ESB, oft í óþarflega miklu kastljósi okkar fjölmiðlamanna, þá hefur stéttabaráttan farið fram næstum hljóðalaust. Vegna veikrar tengingar af vinstri vængnum inn í verkalýðshreyfinguna og við fólkið á gólfinu þá er vígstaða þess í baráttu við atvinnurekendur og hagsmunasamtök þeirra veikari. Fólkið á gólfinu hefur lítinn pólitískan stuðning. Þetta hefur ekki síst orðið kristaltært í baráttu flugmanna og fleiri starfsmanna Icelandair fyrir betri kjörum. Þeim hefur verið stillt upp sem efnahagslegum bastörðum sem svífast einskis og hafa kröfur þeirra verið keyrðar niður með lögum í sumum tilfellum. Í mínum huga var barátta þeirra sem stóðu í henni, og gera raunar enn, virðingarverð. Einfaldlega dæmigerð barátta forystu fagstéttar fyrir betri kjörum framtíðarkynslóðar. Og ef stjórnmálamenn hefðu horft á þetta mál út frá víglínum stéttabaráttunnar þá hefðu flugmenn fundið fyrir miklu meiri samstöðu meðal stjórnmálamanna sem hugsa um hag fólksins á gólfinu.
Önnur dæmi mætti nefna um þetta. Munur á launaþróun stjórnenda fyrirtækja og fólksins á gólfinu á undanförnum árum hefur sárasjaldan verið ræddur á hinu pólitíska sviði. Hjá langstærsta smásölufyrirtæki landsins, Högum, sem lífeyrissjóðir landsins stýra í krafti meirihlutaeignar, þá hefur launaþróunin verið með miklum ólíkindum. Sex æðstu stjórnendur Haga fengu 240 milljónir króna í formi launa og bónusa í fyrra, eða að meðaltali 3,3 milljónir króna á mánuði á hvern stjórnanda allt árið. Rekstur Haga byggir ekki á eldflaugavísindum, frumkvöðlastarfsemi, einkaréttarvörðum uppfinningum, einstöku hugviti eða snilligáfu einstaklinga. Alls ekki. Um er að ræða markaðsráðandi aðila á sviði innflutnings og sölu á dagvöru og nauðsynjum, matvöru þar á meðal, á einu minnsta markaðssvæði í veröldinni þar sem samkeppnin er ekki alþjóðleg.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur fólkið á gólfinu lítinn stuðning í þessu umhverfi í hinu pólitíska landslagi. Stjórnmálamönnunum virðist vera alveg sama og verkalýðshreyfingin, í gegnum aðild sína að stjórnum lífeyrissjóða, sýnir ekki í verki að þessi þróun sé ekki henni að skapi. Ein ástæðan er vafalítið sú að það er ekkert pólitískt aðhald fyrir hendi, engin stéttabarátta sem heitið getur.
Elítan þarf að líta sér nær
Elíta íslenskra stjórnmálamanna í öllum flokkum þarf að líta sér nær. Hún hefur of lítið fyrir því að setja sig inn í stéttabaráttuna, ekki síst á landsbyggðinni. Einu sinni var hún vígvöllur stjórnmálanna. Þó alþjóðapólitísk staða Íslands, þar á meðal spurningin um ESB-aðild eða ekki ESB-aðild, snúist um langtímahagsmuni almennings þá má fólkið á gólfinu ekki vera afskiptalaust í stjórnmálunum frá degi til dags. Þetta á við um alla flokka, en sérstaklega hefur þetta verið áberandi þegar Samfylkingin er annars vegar. Út á við er hún eins og ofdekrað borgarbarn sem hefur sárasjaldan komið út fyrir borgarmörkin eða unnið á gólfinu. Fylgið við hana er líka þannig; sterk staða í Reykjavík, reyndar vegna mikils persónulegs fylgis við Dag B. Eggertsson borgarstjóra, og afleit á landsbyggðinni.
Hennar helsta baráttumál hefur verið aðild að ESB í næstum áratug, og það hefur bitnað á sambandi við fólkið á gólfinu og landsbyggðina meðal annars. Svo virðist sem Samfylkingin sé í ógöngum, með málefnalegan leiðarvísi í sínu pólitíska starfi þar sem ESB er alltaf ljósið við enda ganganna. Í ljósi efnahagslegrar stöðu landsins þá grefur þessi mikla áherslu á að ESB og evra geti bjargað okkur – þegar og ef okkur tekst að uppfylla skilyrði um inngöngu – undan því að tekið sé af festu á málum líðandi stundar. Samfylkingin hefur ekkert plan B og planið um ESB og evru er farið út um þúfur.
Hvernig sem vinstri vængurinn á eftir að þróast í íslenskum stjórnmálum þá virðist hann ekki geta gert annað en að koma sér betur fyrir meðal fólksins á gólfinu. Þar stóð Guðmundur Jaki yfirleitt og las mönnum pistilinn, ýmist með réttu eða röngu.