Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur sent Kjarnanum grein til birtingar vegna byssumálsins svokallaða. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.
Höfum gætt lands og miða án þess að hleypa af skoti í 40 ár
Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar
Mikið hefur verið fjallað um byssur frá Noregi sem hingað voru fengnar til að endurnýja byssukost íslenskra löggæslustofnana, þar á meðal Landhelgisgæslunnar. Málsatvik hafa valdið nokkrum ruglingi og jafnvel orðið til að skapa tortryggni hjá almenningi um hvernig að þessari endurnýjun hafi verið staðið. Allt þolir það dagsljósið en ég tel að við hjá Landhelgisgæslunni hefðum getað upplýst betur okkar þátt málsins strax í upphafi. Það er miður og munum við draga af því lærdóm.
Löng hefð fyrir samskiptum við Norðmenn
Norðmenn hafa reynst Íslendingum hjálplegir á sviði öryggismála, t.d. hvað varðar viðhald ratsjárstöðva, ýmsan búnað til eftirlits og búnað og fallbyssur fyrir skip Landhelgisgæslunnar. Þrátt fyrir að í samningnum sé áætlað verðmæti sendingarinnar þá var okkar skilningur sá að ekki kæmi til greiðslu vegna þessa, líkt og í fyrri tilfellum þar sem við höfum fengið búnað frá Norðmönnum. Landhelgisgæslan hefur hvorki farið fram á leynd vegna afhendingarinnar né að greiðslum væri frestað fram á nýtt fjárhagsár. Allt liggur þetta eins og við höfum lýst. Ekki er ljóst hvernig Norðmenn hyggjast afgreiða málið stjórnsýslulega, og á meðan verða byssurnar ekki teknar í notkun.
Hvers vegna vopn?
Umræðan hefur einnig snúið að tilganginum með tilvist slíkra vopna hér á landi. Það er skiljanlegt í ljósi þess hversu stór hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóðar felst í því að við séum herlaus þjóð. Það er vissulega gæfa okkar sem búum á Íslandi hvað við búum í öruggu samfélagi enda erum við eitt af fáum ríkjum heims þar sem löggæslusveitir bera ekki vopn frá degi til dags. Þótt Íslendingar séu friðsöm þjóð þurfum við, eins og aðrir, að huga að því hvernig við tryggjum öryggi okkar í víðum skilningi.
Verkefni innanlands
Vegna stærðar landsins og strjálbýlis þurfum við á stofnun eins og Landhelgisgæslunni að halda, sem sinnt getur bæði björgun og eftirliti á fáförnum svæðum á landi og sjó. Landhelgisgæslan ber ábyrgð á að verja landamæri okkar og tryggja að engir stundi rányrkju, valdi mengunarslysum eða stundi aðra ólöglega starfsemi á yfirráðasvæði Íslands. Það er mikilvægt að árétta að Landhelgisgæslan hefur ekki hleypt af skoti í tengslum við löggæsluverkefni sín á Íslandi frá því í þorskastríðunum fyrir tæpum fjörtíu árum síðan.
Verkefni á óróasvæðum
Landhelgisgæslan hefur tekið að sér landamæraeftirlit á sjó fyrir Evrópusambandið á Miðjarðarhafi og við vesturströnd Afríku þar sem óöld hefur ríkt. Skip og flugvélar í slíkum verkefnum á mjög ótryggu svæði hafa verið vopnum búin í samræmi við kröfur þeirra stofnana sem við störfum með þar. Í þessum verkefnum hefur Landhelgisgæslan bjargað lífi yfir þúsund flóttamanna en hefur, sem betur fer, ekki þurft að hleypa af skoti.
Fjöldi vopna ekki vegna aukins vopnaburðar
Hvað fjölda vopnanna varðar þá var það mat okkar sérfræðinga að í dreifðri starfsemi sem okkar, þá sé nauðsynlegt að geyma vopn á öruggan hátt á nokkrum stöðum. Þá var hugmyndin að nýta hluta af byssunum í varahluti. Það er ekki leyndarmál í sjálfu sér hvaða vopnum Landhelgisgæslan býr yfir, en við höfum ekki talið það vera hlutverk okkar að gefa upp nákvæma tölu yfir það. Rétt er að ítreka að umrædd vopn ættu að geta enst Landhelgisgæslu Íslands næstu áratugi.
Samskipti við hernaðaryfirvöld
Landhelgisgæslan er ekki hernaðarleg stofnun heldur borgaraleg löggæslustofnun. Ísland þarf reglulega að eiga samskipti við hernaðaryfirvöld í öðrum löndum og gilda í mörgum tilfellum mjög ákveðnar reglur um slík samskipti. Landhelgisgæslan hefur því oft fengið það hlutverk að vera milliliður í samskiptum borgaralegra stofnana hér á landi við hernaðarlegar stofnanir í nágrannalöndunum.
Landhelgisgæsla friðsamrar þjóðar
Við hjá Landhelgisgæslunni erum stolt af því að hafa gætt lands og miða án þess að hleypa af skoti í nær fjóra áratugi. Þess verður vonandi langt að bíða við þurfum að grípa til þeirra vopna sem við höfum til umráða.
Landhelgisgæslan fylgir þeim lögum sem sett eru af þjóðkjörnu Alþingi og mun ekki eiga frumkvæði að breytingum á þeim hefðum sem ríkt hafa á Íslandi um vopnabúnað. Upplýsingagjöfin hefði getað verið betri í upphafi þessa máls en þó teljum við að umræðan, sem málið hefur vakið, muni á endanum reynast gagnleg.
Við vonumst til að njóta áfram þess mikla trausts sem landsmenn hafa haft á störfum Landhelgisgæslunnar fyrir land og þjóð.
Höfundur er forstjóri Landhelgisgæslunnar