Mörg mikilvæg mál voru rædd í Silfri RÚV hinn 6. febrúar sl. og umræðurnar voru mjög upplýsandi. Orkumál landsins bar á góma enda hafa þau verið í deiglunni undanfarnar vikur. Efnistök reyndar nokkuð ýkt á köflum og jafnvel talað um orkuskort þó staðreyndin sé sú að Ísland framleiðir mestu orku á mann í heiminum. Aðalheiður Ámundadóttir ræddi einmitt umræðuhefðina, hversu skautuð hún er, hinar ýmsu „sjóðheitu kartöflur“, hversu flókin orkumál oft eru og því vandmeðfarin í fjölmiðlum. Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar ræddi hve miklir fjárhagslegir hagsmunir liggi í orkugeiranum, kannski skýrir það hvað heitu kartöflurnar eru margar og heitar.
Orkumál – orkuskipti: nauðsynleg umræða
Árið 2015 var áhugi minn á þróun íslenska orkugeirans vakin fyrir alvöru. Mér var bent á brilljant kandidata í nýsköpun orkugeirans og hversu mikilvægt væri að hefja undirbúninginn hið fyrsta. Það er mikilvægt að fjölga konum í orkugeiranum (og nýsköpun) og því reyndi ég ásamt ráðgjafa mínum (2016-2017) að koma á koppinn rafeldsneytis-verkefni (þróun) með þátttöku Sunfire í Þýskalandi. Ekki féll hugmyndin í frjóan jarðveg hér.
Ekki bólaði heldur á fjölmiðaumfjöllun um málefnið. Þegar okkur þótti einsýnt að orkugeirinn myndi ekki hefja umræðuna tókum við til hendinni:
21.1.2019: Hvert ætlum við með orku landsins?
28.6.2020: Vetni framtíðar orkumiðill
1.6.2020: Hlutverk vetnis í orku- og loftslagsmálum
Það sem rekur mig til að skrifa aftur um þessi mál nú er framlag fulltrúa iðnaðarins, Sigurðar Hannessonar, í Silfrinu. Eða réttara sagt hvað vantaði. Það er ekki í takt við tímann og loftslagsástandið að nota aðeins, eða a.m.k., sjá aðeins rafmagn eða olíu. Hátæknivæddar loftslagsmeðvitaðar þjóðir nýta sem flestar orkuauðlindir sínar, m.a. lífúrgang, og það verður þannig a.m.k. á umskiptatímanum. Á heimasíðu Samtaka iðnaðarins undir málefnahausnum „Orka og umhverfi“ má sjá stefnu samtakanna í málaflokknum. Aðeins eina skýrslu er þarna að finna og fjallar hún um samkeppnishæfni íslensks rafiðnaðar.
Orkuskipti og hugarfarsbreyting
Umræða er góður og nauðsynlegur undanfari breytinga. Raforkan er gríðarlega mikilvæg í orkuskiptunum, en í umskiptafasanum, ekki síst vegna loftslagsvandans, er mikilvægt að breikka sviðið, gera það fjölbreyttara, nota fleiri orkumiðla, nýta orkuna betur og leggjast í tilraunastarfsemi, ekki síst í iðnaðinum þar sem byggja þarf upp nýja þekkingu. Þekkingin auðveldar svo síðari tíma breytingar. T.d. kemur þekking á nýtingu gass sér vel við meðhöndlun vetnis í framtíðinni.
Af hverju fylgja Íslendingar Evrópu ekki eftir í orkunýtnistefnu? Hví ekki að fylgja stöðlum ESB um meiri einangrun húsa? Með betri einangrun þarf minna upphitunarvatn; minni ásókn í heitt vatn þýðir að jarðhitaholur endast lengur, það seinkar þörf á nýjum holum = betri auðlindanýting = sjálfbær þróun. Einnig væri hægt að nota varmadælur til að auka nýtingu upphitunarvatns o.s.frv.
Best fer á að kortleggja orkuauðlindir Íslands, stöðu orkamála (m.a. þekkingu og tækni) og móta orkustefnu að teknu tilliti til hringrásafræðanna. Landvernd telur að Ísland sé tveimur áratugum á eftir mörgum grannþjóðum okkar í loftslagsaðgerðum (sjá hér). Getur verið að það eigi líka við um orkutækni og orkuskiptin?
Fordæmi
Á fyrsta tug aldarinnar lagði Þýskaland mikla áherslu á lífgasframleiðslu í landbúnaði og þúsundir bænda settu upp gasver til raforkuframleiðslu og seldu inn á landsnetið (niðurgreiðsla frá ríkinu fylgdi), seldu varma fyrir fjarvarmaveitu og ýmislegt fleira. Þýska ríkið undirbjó þetta átak mjög vel, bændur fengu allar upplýsingar upp í hendurnar, svo sem um arðbærni og gashæfni hinna ýmsu hráefna. Hér á landi fellur til mikill og margvíslegur lífúrgangur sem ekki er nýttur nægilega í dag. Tæknin er komin vel á legg og ætti að vera hægur vandi fyrir t.d. fjarvarmaveitur að fara í samstarf við handhafa lífúrgangs, og hver veit nema hægt sé að keyra loðnubræðslu á metani eða metanóli (Carbon Recycling). Af hverju ekki að athuga og prófa það?
Undirbúningur orkuskipta
Rannsóknir og þróun eru nauðsynlegur undirbúningur orkuskiptanna. Einhverjar rannsóknir hafa farið fram. Veit það því ég tók þátt í slíkum, þ.e. nýtingu á lífúrgangi. Þar var m.a. skoðað hversu mikla orku mætti fá úr mykju íslenskra kúa og sláturúrgangi. Áætlað orkumagn metans úr tonni sláturúrgangs er á við nærri 90 lítra af bensíni. Því miður er sláturúrgangur vannýtt auðlind á Íslandi og meðhöndlun hans yfirhöfuð ekki í ásættanlegum farvegi. Reyndar svo slæmum að dómsmál vofir yfir þjóðinni vegna þess hjá eftirlitsdómstól EFTA.
Hér að ofan má sjá vel heppnaða skýringarmynd: Hversu langt kemstu á afurð 1 hektara lands, miðað við mismunandi framleiðsluaðferðir en alltaf sama bíl. Myndin er úr ranni Austurríska landbúnaðar- og umhverfisráðuneytisins (Bundesministerium für Land- und Forstwirtschaft, Umwelt und Wasserwirtschaft) , sótt 2008.
Það er líka mikilvægt að fræða almenning og gera flókin fræði skiljanleg fyrir ákvarðanatöku, sem er jú hjá stjórnendum, ekki síst stjórnmálastéttinni. Jebbs kominn tími til að hefjast handa.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.
Heimildir:
[SG1]. Fachagentur Nachwachsende Rohstoffe e.V. (FNR),, 2006. Handreichung, Biogasgewinung und Nutzung 2004. Institut für Energetik und Umwelt gGmbH, Bundesforschungsanstalt für Landwirtschaft, Kuratorium für Technik und Bauwesen in der Landwirtschaft. Gülzow, af www.fnr.de