Ég hef stundum sagt sögu af því opinberlega þegar ég fékk í heimsókn skólafólk frá Bretlandi. Eitt af markmiðum þeirra í Íslandsheimsókninni var að leita leiða til að gera nemendur sína (sem voru eingöngu drengir) færari á sviðum utan þess bóklega. Að mati Bretanna var hápunktur heimsóknarinnar að vera viðstaddir larp úti í skógarlundi. Larpið var lokahnykkurinn á umfjöllun um Hungurleikana. Börnin léku sem sagt hungurleika. Skömmu áður en leikarnir voru settir gerðist hið óumflýjanlega. Nokkrir strákar rottuðu sig saman og ætluðu aldeilis að stúta öllum hinum. Þegar merkið gall hljóp þessi strákahópur strax af stað til að leggja undir sig heiminn og allir hinir nemendurnir tvístruðust í allar áttir. Flestar stelpurnar skríkjandi.
Búið var að sigra
Þar sem ég stóð og spjallaði við gestina safnaðist stöðugt í hóp fórnarlambanna. Niðurlútir gengu til mín nemendur sem búið var að sigra. En skyndilega gerðist atburður sem enginn, hvorki ég né aðrir, hafði búist við. Drengjaklíkan kom hlaupandi í ofboði fram í rjóðrið og tvístraðist þar í allar áttir. Á eftir þeim komu allar stelpurnar í einni hjörð. Þær höfðu safnað sér saman inni á milli trjánna og bundist samkomulagi að ganga frá strákunum. Eftir þetta var aldrei spurning hvernig leikar myndu enda. Strákarnir áttu enga möguleika. Stelpuhópurinn gekk markvisst til verks og þeir fáu strákar sem reyndu að berjast á móti voru afgreiddir hratt og örugglega.
Áttu ekki til orð
Bretarnir áttu ekki til orð. Þeir töluðu lengi á eftir um það sem þeir sáu. Samtakamátturinn, harkan og sjálfsöryggið var eitthvað sem þeir töldu sárlega vanta í breska heldri drengi.
Þessir atburðir rifjuðust upp þegar ég sá konu úr forystusveit Framsóknarflokksins lýsa því yfir að #freethenipple væri plebbaskapur.
Mér finnst eiginlega alveg augljóst að þvert á móti er átakið eitthvað það svalasta sem við höfum orðið vitni að á seinni tímum. Ungar konar senda þau skilaboð út í heiminn að þær þurfi í fyrsta lagi ekki að skammast sín fyrir nekt sína en í öðru lagi að nekt þeirra er ekki undirseld valdi annarra.
Við vitum öll að til eru síður og samfélög drengja á netinu þar sem gjaldmiðillinn er nekt stúlkna. Og að áróður dynur sífellt á ungum stúlkum. Þær eiga ekki undir neinum kringumstæðum að láta myndir af sér komast í umferð. Þær eiga að óttast að nekt þeirra komist fyrir augu annarra.
Uppreisn
Nú hefur kynslóð sem alin er upp við þessi viðmið gert uppreisn. Og það sem meira er, uppreisnin snýst ekki að litlu leyti um það að taka afstöðu með kynsystrum sem lent hafa í mannorðsmulningsvélinni vegna þess að myndir af þeim fáklæddum hafa komist í umferð.
Auðvitað er mjög auðvelt að hugsa sem svo að átakið sé misráðið. Stelpurnar átti sig ekki á því að þær séu að gefa strákfíflunum nákvæmlega það sem þeir vilja, þ.e. myndir af brjóstum.
Það er reginmisskilningur að halda að stelpurnar átti sig ekki á því. Málið er að þær setja þessar myndir af sér á netið ÞRÁTT FYRIR að til séu strákar af því tagi. Fyrst og fremst vegna þess að álit slíkra drengja skiptir bara nákvæmlega engu máli.
Stelpurnar birta þessar myndir sjálfviljugar og enginn mun nokkru sinni geta notað myndirnar til að pukrast með þær eða til að hafa vald yfir þeim sem á myndunum eru. Með þessu framtaki slær stór hópur kvenna skjaldborg um minni hóp sem hingað til hefur liðið sárlega vegna einhverra þeirra ömurlegustu afla sem þrífast í samfélagi okkar.
Hvað sem öðru líður er sú hlið gjörningsins ein og sér stórkostlega virðingarverð. Það að sjá hópa ungra kvenna brjóta sig undan valdi drengja og karla, setja sér sína eigin mælikvarða og fylgja þeim eftir með athöfnum er frábært – og staðfestir í raun það sem við höfum mörg verið að segja árum saman. Ólíkt því sem margir vilja halda fram er ungdómurinn ekki að fara til helvítis. Hann hefur aldrei verið betur heppnaður.
Á endanum skiptir engu máli hvaða viðhorf við, miðalda fólkið, höfum til uppátækisins. Hér er ný kynslóð að tjá sig með þeim hætti sem hún kýs. Sagan ætti að hafa kennt okkur að þegar það sem unga fólkið segir stangast á við það sem eldra fólkið vill heyra – er það yfirleitt ábending um það að hinir eldri þurfa að hlusta betur. Það eru nefnilega ekki bara breskir unglingsdrengir sem hefðu gott af því að vera pínulítið líkari ungum, íslenskum konum.