Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er haldinn nú undir kjörorðinu „frelsi“. Formaður flokksins ku hafa nefnt orðið frelsi 30 sinnum í setningarræðu við upphaf fundarins.
Þrátt fyrir þetta vísar sagan fremur til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé stjórnlyndur forsjárhyggjuflokkur sem áratugum saman hefur strokið vinum og fylgdarsveinum meðhárs undir ógagnsærri hulu sem flokkurinn hafði sveipað yfir samskipti og ákvarðanir sem teknar voru á mörkum stjórnmála og einkamarkaðarins. Vart þarf að hafa mörg orð um áratuga skömmtunarkerfi og klíkuskap á fullveldistímanum eftir 1944 að ekki sé talað um helmingaskipti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um arðinn af setuliði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.
Einar Olgeirsson, einn helsti oddviti íslenskra sósíalista á síðustu öld, lýsti því í bókinni Í skugga heimsvaldastefnunnar hvernig stjórnvöld refsuðu fyrir andstöðu gegn veru Bandaríkjahers í landinu og þrengdu kosti þeirra og tækifæri á vinnumarkaði: „Hernámssinnar, sem titluðu sig lýðræðissinna, veigruðu sér hvergi við að beita persónunjósnum, atvinnuofsóknum og beinni og óbeinni skoðanakúgun. Fátt eitt af þessum ófögru athöfnum þeirra hefur verið skrásett, enda hafa aðeins fáeinir, sem urðu fyrir barðinu á þessum ófögnuði, sagt frá reynslu sinni opinberlega. Þögnin um þessa óhæfu stafar af því meðal annars að menn hafa óttast reiði yfirvalda og ekki viljað láta koma sér algerlega út úr húsi.“
Frelsi hverra?
Í þessu öllu felst sérstakur skilningur á frelsi og einkennileg þversögn: Flokkur sem hefur stjórnað landinu 75 prósent lýðveldistímans gerist sekur um að svipta suma frelsi, þ.á.m. atvinnufrelsi, og frelsi til viðskipta s.b.r. meðferð íslenskra stjórnvalda á Halldóri Laxness sem að undirlagi manna í Sjálfstæðisflokknum var sviptur möguleikum til tekna af verkum sínum í Bandaríkjunum. Einnig má nefna afskipti núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins af ritstjórastöðu sem Þorvaldi Gylfasyni hagfræðingi bauðst á Norðurlöndum.
Þetta athæfi finnst Sjálfstæðisflokknum eðlilegt vegna þess að hann er stjórnlyndur forsjárhyggjuflokkur og hefur ræktað slíka stjórnmálamenningu á lýðveldistímanum. Hún er óheilbrigð og bakar þjóðinni vandræði enn þann dag í dag.
Þessi atburðarás gat aðeins orðið ofan á í krafti leyndarhyggju og ógagnsæis. Tortryggni almennings gagnvart ógagnsæi og launung í stjórnmálum og viðskiptum er ekkert ný af nálinni. Í september 2008, fáeinum vikum fyrir fall bankanna, voru kynntar niðurstöður könnunar á vegum Capacent. Spurt var um persónuleg gildi þjóðarinnar og stuðst við fræði Richards Barrett, en hann var þá kunnur fyrirlesari um mikilvægi gilda og gildismats fyrir samstarf og árangur í rekstri fyrirtækja. Barrett kynnti sjálfur niðurstöðurnar og ályktaði að lykilvandinn hér á landi væri skortur á leiðtogum í stjórnmálum og viðskiptum, þar sem ríkjandi leiðtogar leggðu of ríka áherslu á eigin hagsmuni að lesa mætti úr könnuninni að Íslendingar vildu draga úr spillingu, efla ábyrgðartilfinningu leiðtoga sinna og draga úr áhuga þeirra á að komast yfir forréttindi og mynda yfirstétt.
Frelsi og gagnsæi
Eva Joly rannsóknardómari fletti fyrir aldarfjórðungi ofan af stóru spillingarmáli í Frakklandi. Meðan hún vann að málinu þurfti hún að hafa lífverði árum saman. Það kostar sitt. Hér á landi, 20 árum síðar, er búið að draga úr opinberum framlögum til héraðssaksóknara þegar hann rannsakar stórt spillingarmál.
Eva átti frumkvæði að því árið 2003 ásamt 14 öðrum rannsóknardómurum í mörgum löndum að semja svonefnda Parísaryfirlýsingu sem átti að vera einskonar leiðsögn um sterkari úrræði réttar- og dómskerfis þjóða gegn spillingu.
Ein meginregla þeirrar yfirlýsingar hljóðar svo: „Gagnsæi er eðlileg fylgiregla frelsis; gagnsæi án frelsis brýtur í bága við mannréttindi. Ef ógagnsæi fylgir frelsinu greiðir það leið til lögbrota.“
Nú krefjast Sjálfstæðismenn frelsisins á landsfundi sínum. Þeir tala lítið sem ekkert um gagnsæi. Vilja þeir m.ö.o. halda huliðshjúpnum og ógagnsæinu sem klíkuþjóðfélagið og spillingin nærist á?
Eru þeir ósammála því að frelsi án gagnsæis sé gróðrarstía spillingar og lögbrota?
Höfundur er blaðamaður.