Í vikunni hringdi Fréttablaðið í nærri 1.300 Íslendinga og spurði þá hvað ætti að gera við peningana sem munu fást með stöðugleikasamningum við kröfuhafa föllnu bankanna eða sérstökum stöðugleikaskatti á slitabúin. Stjórnvöld búast við því að þegar allt verður talið munu um 650 milljarðar renna til ríkisins við losun fjármagnshafta. Um 57 prósent aðspurðra sögðust vilja nota hluta peninganna til að byggja nýjan spítala.
Það er gaman að láta sig dreyma um hvað gera má við helling af peningum. Sem dæmi hefur leikurinn Frúin í Hamborg notið vinsælda á Íslandi um áratugaskeið. Í leiknum kaupir fólk sér stór hús, flotta bíla og fer í utanlandsferðir, allt án þess að segja „já, nei, svart eða hvítt“. Fæstir aðspurðra í Frúnni í Hamborg segjast ætla að greiða niður skuldir.
Afleiðingar þess að alþingismenn spili Frúna í Hamborg með kröfuhafapeninga yrðu dýrkeyptar öllum. Að nota peningana í ríkisútgjöld frekar en að greiða niður skuldir myndi að mörgu leyti virka eins og peningaprentun, verðbólga myndi rýra virði íslensku krónunnar enn frekar og verðtryggð lán heimilanna hækka. Í frumvarpi fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt er sérstaklega kveðið á um að ráðstafa skuli fjármununum þannig að það samrýmist markmiðum um efnahagslegan stöðugleika. Til að ekki fari illa þurfa stjórnvöld að standa við það og því tilgangslaust að velta því upp hvort byggja eigi nýjan spítala fyrir peningana eða ekki.