Frjáls viðskipti milli landa er undirstaða hagsældar. Stór skref í átt að viðskiptafrelsi voru stigin með aðild að GATT (síðar WTO), EFTA og EES. Þessi skref voru stigin þrátt fyrir mikla andstöðu sumra stjórnmálaflokka. Með aðildinni að EES varð íslenska hagkerfið aðili að fjórfrelsinu sem er hornsteinn samvinnu þjóða innan EES og ESB. Með aðild að innri markaðnum gegnum fjórfrelsið hefur hagkerfið myndað sterk tengsl við hagkerfi Evrópusambandsins. Hér á landi gildir einn mikilvægasti hluti Evrópulöggjafarinnar. Það sem einkum stendur eftir er aðgangur að háborði ákvarðanatöku sambandsins, aðild að peningastefnunni og aðild að byggða- og landbúnaðarstefnunni.
Íslenska peningastefnan er ótraust
Traustur gjaldmiðill er forsenda fyrir frjálsum viðskiptum. Núverandi peningastefna hefur ekki skapað traustan gjaldmiðil. Mikill kostnaður fylgir óstöðugri örmynt sem er í reynd veruleg viðskiptahindrun fyrir atvinnulífið. Eftir að fastgengisstefna tíunda áratugarins gekk sér til húðar var núverandi peningastefna flutt inn og mótuð eftir uppskrift af verðbólgumarkmiði. Þessi peningastefna var hugsuð fyrir mun stærri hagkerfi en hið íslenska, hagkerfi með djúpa fjármagnsmarkaði og fjölbreyttan inn- og útflutning. Smæð innanlandsmarkaðarins og mikil áhrif gengisbreytinga á verðlag gera útfærslu verðbólgumarkmiðs mjög erfiða. Upphaflega var gert ráð fyrir sjálfstæðum seðlabanka með eitt stýritæki, vexti. Smám saman hafa fleiri stýritæki bæst við sem beinast einkum að fjármagnsmarkaðinum. Hugtök eins og fjármálastöðugleiki og þjóðhagsvarúð réttlæta viðskiptahindranir á fjármagn.
Engin leið er að sjá ávinning af óstöðugu gengi ásamt flókinni og ógegnsærri yfirbyggingu peningastefnunnar. Gengi krónunnar sveiflast upp og niður, vaxtastig er mun óhagstæðara en í nágrannalöndunum og traust á gjaldmiðlinum er lítið. Þessi staða leiðir til mikils viðskiptakostnaðar fyrir atvinnulífið.
Fylgendur krónunnar telja mikils um vert að hægt sé að grípa til gengisfellingar ef þjóðarskútan verður fyrir ágjöf, þannig sé hægt að leiðrétta stefnuna og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Reynslan hefur sýnt að gengisfelling er engin lausn á vanda sem hlýst af tekjutapi. Aðeins við mjög sérstakar aðstæður er gengisfelling nauðsynleg. Fyrir hrun var gengi krónunnar orðið alltof hátt vegna innflæðis á erlendu lánsfé sem kynnti undir stjórnlausri útlánaþenslu. Leiðrétting var óhjákvæmileg. Svo virðist sem gleymst hafi hvernig staða útflutningsatvinnuvega var í aðdraganda hrunsins þegar dalurinn fór vel undir 70 krónur. Hefði Ísland notað evru hefði atburðarrásin orðið önnur. Að vísu getur ekkert bjargað bönkum sem eru rændir innan frá af eigendum sínum. Höggið á almenning og fyrirtæki hefði orðið mun minna.
Tvær leiðir til upptöku evru fyrir inngöngu í ESB
Jafnvel þótt samningaviðræður hefjist við ESB um fulla aðild tekur samningsgerðin tvö til þrjú ár. Eftir inngöngu getur Ísland orðið hluti af ERM II sem er biðsalur evrunnar og dvölin þar er að lágmarki tvö ár. Hægt er að ná fram kostum stöðugs gjaldmiðils að talsverðu leyti strax eftir tveimur leiðum: Í fyrsta lagi með einhliða upptöku evru. Í öðru lagi með hefðbundnu myntráði við evru.
Einhliða upptaka evru þar sem evra verður lögeyrir í stað krónunnar er afgerandi leið sem tryggir algeran gengisstöðugleika sem ekki er hægt að breyta með spákaupmennsku gegn gjaldmiðlinum. Þessi leið er dýr þar sem umtalsverður myntsláttuhagnaður hverfur úr landi. Jafnframt er slík upptaka evru lítt þóknanleg Seðlabanka Evrópu sem hefur lagst gegn því að ríki fari þannig „bakdyramegin“ inn í evrusvæðið án þess endilega að uppfylla stöðugleika skilyrði evrunnar.
Myntráð við evru hefur nánast sömu efnahagslegu áhrif og einhliða upptaka evru. Helsti mismunurinn er sá að myntsláttuhagnaður helst innanlands og sveigjanleiki er meiri. Í hefðbundnu myntráði er hver útgefin seðill tryggður með evrum og jafnan hægt að skipta íslenskum seðlum fyrir evrur hjá myntráðinu. Auk peningaútgáfu varðveitir myntráðið gjaldeyrisforða sem nægir til að baktryggja allt lausafé í krónum þar með talið skammtíma innstæður viðskiptabanka hjá myntráðinu. Myntráð ákveður ekki vexti. Þeir taka mið af vöxtum á evrusvæði. Seðlabankinn í núverandi mynd verður óþarfur. Þetta einfalda peningakerfi hefur verið notað í áratugi víðsvegar um heiminn og sjaldan eða aldrei brugðist (Argentína, sem oft er vitnað til sem dæmi um myntráð sem féll, notaðist ekki við hefðbundið myntráð, það voru ósjálfbær ríkisfjármál sem grófu undan peningakerfinu).
Innbyggt í þetta peningakerfi er agi í hagstjórn. Óraunhæfir kjarasamningar eða ósjálfbær fjármál hins opinbera er ekki hægt að breiða yfir með peningaprentun. Þetta telst varla galli á myntráðinu sem slíku. Önnur ruglingsleg rök hafa verið færð fram gegn myntráði svo sem vöntun á lánveitanda til þrautavara. Ef þörf er á slíku fyrirbæri er það ríkissjóður sem á að vera lánveitandi til þrautavara. Aðeins með þeim hætti fylgir pólitísk ábyrgð lánveitingum til peningastofnana sem hafa spilað rassinn úr buxunum. Reynslan af lánveitingum Seðlabankans á hrunárunum, þegar gjaldeyrisforðanum var fórnað í vanhugsuðum björgunaraðgerðum, undirstrikar hættuna sem fylgir þessu hlutverki. Ekki má gleyma því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur hlaupið undir bagga eftir ýmsum leiðum ef útflutningstekjur dragast skyndilega saman svo sem með ádrætti á kvóta og SDR úthlutun.
Breytt viðhorf
Þegar Ísland sótti um aðild að ESB árið 2009 hófst mikil hatursherferð gegn ESB í málgagni stórútgerðarinnar og víðar. Áróðurinn hefur haldist óbreyttur fram á þennan dag. Ekki verður annað sagt en að árangurinn af þessari áróðursherferð hafi verið umtalsverður. Stór hluti þjóðarinnar hefur trúað því að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið utan ESB og evrusvæðisins, þrátt fyrir að Ísland hafi innleitt mikilvægustu viðskiptalöggjöf ESB. Vegna stríðsátaka í Evrópu virðist sem augu almennings hafi nú opnast fyrir mikilvægi ESB ekki aðeins á sviði efnahags- og stjórnmála heldur einnig sem brjóstvörn fyrir lýðræði og mannréttindi. Aðild að NATO tryggir visst hernaðarlegt öryggi fyrir Ísland. Smáríki eins og Ísland þarf mun meira skjól til að tryggja sjálfstæði, efnahagslegan stöðugleika og framfarir.
Sú staðhæfing að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB er byggð á sandi. Þvert á móti er mikill ávinningur fyrir Ísland að stíga skrefið til fulls og verða fullgildur meðlimur í Evrópusambandinu.