Eftir fjármálahrunið kom mikil upplausn á íslenska flokkakerfið. Fjórflokkurinn sem lengst af hafði samanlagt um og yfir 90% af fylgi í Alþingiskosningum fór niður í 75% árið 2013 og nú fær hann samanlagt um 64%. Tilkoma nýrra flokka og fleiri klofningar hafa breytt myndinni eftir hrun. Sundurleysi í flokkakerfinu hefur aukist og tengsl kjósenda við einstaka flokka eru orðin enn lausari en áður var. Fylgið verður því rótlausara og reikulla.
Vinstri menn hafa alla síðustu öld og allt fram á þennan dag mátt sætta sig við að hafa einungis lítil áhrif í stjórnmálum á Íslandi vegna síendurtekinna klofninga og meiri sundrungar en almennt hefur verið á hægri vængnum. Það eykst enn. Nú er hins vegar nýtt að á hægri vængnum gætir einnig meiri klofnings en áður, en samt hvergi nærri jafn mikið og á vinstri vængnum. Þess vegna tekst Sjálfstæðisflokknum að halda yfirburðastöðu sinni með einungis um 24% atkvæða.
Þessi langtíma saga klofninga og sundrungar á vinstri vængnum skýrir hvers vegna Ísland eitt Norðurlandanna hefur ekki haft sterkan og áhrifamikinn stjórnmálaflokk jafnaðarmanna. Hér hefur það öðru fremur orðið hlutskipti verkalýðshreyfingarinnar að halda uppi verkalýðsstjórnmálum og jafnaðarstefnu, oftast án stuðnings af öflugum stjórnmálaflokki jafnaðarmanna.
Samfylkingin var fyrsta tilraun vinstri manna til að sameinast og ná markmiðinu um norrænan flokk jafnaðarmanna sem virtist ætla að takast, þannig að mynda mætti mótvægi við ofurvald Sjálftæðisflokksins. Samfylkingin náði nálægt 30% fylgi í fjórum kosningum (1999 til 2009). En frá og með 2013 hrundi fylgi hennar og nú er hún undir 10% fylgi. Ráðvillt vinstra fylgið flæðir á víxl milli VG, Samfylkingar og nýrra flokka sem hafa misskýra stefnu og missterk tengsl við samfélagið.
Bæði Vinstri græn og Samfylkingin hafa misst tengsl við hefðbundið verkalýðsfylgi og lágtekjuhópa, líkt og algengt hefur verið með jafnaðarmannaflokka á Vesturlöndum í seinni tíð. Í staðinn er mest áberandi einkenni á fylgi þessara flokka háskólamenntað fólk sem oft starfar hjá hinu opinbera. Það er auðvitað hið besta fólk en þegar klassískir vinstri flokkar missa fylgi frá alþýðu og lægri tekjuhópum kjósenda þá breytast þessir flokkar – færast til hægri, verða meiri alþjóðasinnar en jafnaðarmenn, svo dæmi séu tekin. Nýir flokkar eru heldur ekki alltaf með beina skírskotun til þjóðfélagshópa, eins og til dæmis Björt framtíð og Píratar.
Pólitíkin verður meira ímyndapólitík en stéttapólitík við slíkar aðstæður. Jafnaðarstefna þessara «frjálslyndu» vinstri flokka beinist oft meira að jöfnuði milli kynja, kynhneigðarhópa og kynþátta en að því að draga úr mun lífskjara og tækifæra milli stétta. Þetta eru auðvitað lögmæt viðfangsefni mannréttindabaráttunnar en það er löstur ef þau koma nær alfarið í stað stéttastjórnmála, því þeirra er enn mikil þörf. Án sterkra stéttastjórnmála verður ekki dregið úr fátækt og lágtekjuvanda og viðnám gegn yfirgangi fjármálaafla verður ónógt, eins og við sáum á árum nýfrjálshyggjunnar (1995 til 2008). Sú óværa tórir enn þrátt fyrir að hafa laskast í hruninu.
Í kosningunum um síðustu helgi voru helstu tíðindin af vinstri vængnum þau, að þeir vinstri flokkar sem voru stærstir fyrir tapa fylgi, mest VG, síðan Samfylking og loks Píratar. Flokkur fólksins undir forystu Ingu Sæland sópaði til sín fylgi frá lágtekjuhópunum og virðist nú helsti fulltrúi þeirra hópa á Alþingi. Sósíalistaflokkurinn var með stuðning úr sömu áttum og Flokkur fólksins en náði ekki inn á þing vegna 5% þröskuldarins. Hvort sem Inga kallar flokk sinn vinstri eða miðjuflokk þá eru þau með klassísk vinstri málefni og klassískt vinstra fylgi.
Á hægri vængnum er Viðreisn náttúrulega klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum. Miðflokkurinn var upphaflega klofningur út úr Framsóknarflokknum en hefur prófílerað sig sterklega sem hægri flokk og í kosningabaráttunni nú fullyrtu talsmenn hans að þeir væru hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Hið gamla slagorð Sjálfstæðisflokksins «Báknið burt!» skreytti meira að segja auglýsingaspjöld Miðflokksins í kosningabaráttunni, í bland við þjóðernishyggju-popúlisma. Góður sigur Framsóknarflokksins í kosningunum um helgina fólst að stærstum hluta í því að stuðningur færðist frá Miðflokknum til Framsóknar, en að auki bætti flokkurinn vel við sig í kjördæmi Ásmundar Einars Daðasonar í Reykjavík.
Það er nokkuð ljóst að aukin óánægja með flokka eða lausari tengsl flokka við samfélagið er ástæða aukinnar upplausnar í stjórnmálum, ekki síst á vinstri vængnum. En þýðir það að kjósendur hafi breyst? Hafa þeir færst meira til hægri en áður eða meira yfir á miðjuna?
Ný sýn á stöðu stjórnmálanna
Rannsóknir stjórnmálafræðinga hafa bent til þess að Íslendingar staðsetji sig á hægri-vinstri kvarða á svipaðan hátt og kjósendur hinna Norðurlandanna. Vinstri kjósendur eru ekkert færri hlutfallslega hér en á hinum Noðurlöndunum. Þessi hægri-vinstri einkenni hafa haldist tiltölulega stöðug, líka eftir hrunið. Kjósendur sem heild hafa því ekki breyst að ráði en flokkakerfið hefur breyst, væntanlega vegna óánægju með þá flokka sem fyrir voru. Aukin sundrung og útþynning áhrifa er útkoman.
Merki um þetta má sjá á mynd 1 sem sýnir fylgi einstakra flokka í kosningunum um síðustu helgi og einnig fylgi hægri og vinstri blokka í heildinni (lituðu súlurnar). Skipan flokka í blokkir á myndinni fylgir mati almennings á staðsetningu flokkanna á hægri-vinstri ás og mati á stefnumálum og kosningabaráttunni. Flokkarnir raðast á myndinni frá vinstri til hægri.
Það er óþarfi að rekja fylgi einstakra flokka en það sem er áhugaverðast við myndina er fylgi blokkanna. Blokkirnar sýna hvernig heildarfjölda vinstri og hægri kjósenda reiddi af í kosningunum, í samanburði við Framsókn á miðjunni.
Samanlagt fylgi þeirra flokka sem hér teljast vinstra megin er um 44% og hefur minnkað frá 2017, en þó einungis um 1,1 %-stig. Hægri blokkin er minni nú, með um 38%, og hefur minnkað um 4,7 %-stig, einkum vegna hruns í fylgi Miðflokksins og lítillegrar lækkunar á fylgi Sjálfstæðisflokksins. Framsókn sem samkvæmt þessari flokkun telst eini miðjuflokkurinn er með 17% og bætti við sig 6,6 %-stigum, mest frá Miðflokknum. Ef Miðflokkurinn hefði talist sem miðjuflokkur (sem hann er ekki ef marka má stefnumál þeirra og kosningabaráttuna) þá hefði þessi sveifla á hægri vængnum inn á miðjuna komið fram sem tilfærsla innan miðjunnar.
Ef við hefum flokkað Flokk fólksins, Pírata, Miðflokkinn og Viðreisn alla sem «miðflokka» ásamt Framsókn þá hefði vinstri blokkin haft um 27%, miðjan 43% og hægri blokkin um 24%. Ég tel þó að flokkunin sem er á myndinni sé raunsærri miðað við stefnumál og samsetningu á fylgi, og einnig út frá því hvernig almenningur raðar flokkum á H-V ás í könnunum.
Stóra vísbendingin í þessu er sú, að vinstri blokkin á alla möguleika á að vera stærsta fylking stjórnmálanna á Íslandi, ef hún heldur saman, í einum breiðflokki jafnaðarmanna, líkt og verið hefur á hinum Norðurlöndunum. Stofnun Samfylkingarinnar var stór skref í þessa átt. Sú staðreynd að VG kaus að taka ekki þátt í sameiningunni stóð vexti Samfylkingarinnar fyrir þrifum frá byrjun.
Síðan gerð Samfylkingin sín eigin mistök með áhrifalausri stjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokki 2007. Þá voru gerð nokkur mistök í vinstri stjórn Samfylkingar og VG 2009-2013 sem urðu afdrifarík, svo sem ófullnægjandi skuldaúrræði fyrir heimilin, umsókn um aðild að ESB sem enginn meirihluti var fyrir og klaufaleg meðferð Icesave-málsins. Almennt varð Samfylkingin of höll undir Blair-isma, einkum ESB-aðild og markaðshyggju, um leið og verkalýðspólitík flokksins þynntist út. Þá gerði Samfylkingin mikil mistök í kosningabaráttunni 2013 sem gerðu endanlega að verkum að fylgishrun varð óhjákvæmilegt.
Af þessum sökum er væntanlega ekki nægur áhugi nú á að endurtaka stofnun breiðfylkingar vinstri manna. Hins vegar er hægt að ná sömu markmiðum að miklu leyti með virku samstarfi vinstri flokka, það er með myndun blokkar í kosningum. Þá sammælast flokkarnir um að standa saman að stjórnamyndun eftir kosningar sem blokk. Raunar má segja að Samfylkingin, Píratar og Sósíalistar hafi gert þetta í kosningunum í ár með því að útiloka fyrirfram samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það vantaði bara að VG og Flokkur fólksins hefðu gert hið sama.
Með slíkri blokkamyndun, sem raunar tíðkast í miklum mæli í grannríkjunum á Vesturlöndum, þá hefði vinstrið og mið-vinstrið mun meiri möguleika á áhrifum í ríkisstjórnum en nú er.
Fulltrúar vinstri kjósenda væru samstilltari og markvissari á þingi. Á mynd 2 má sjá hvernig vinstri og hægri blokkir sem heildir tengjast helstu þjóðfélagshópum samfélagsins. Sýnt er samanlagt fylgi vinstri og hægri blokkanna á mynd 1 og Framsóknar í einstökum þjóðfélagshópum (kyn, aldurshópar og tekjuhópar). Gögnin koma úr samanlögðum þremur síðustu könnunum MMR fyrir Morgunblaðið.
Vinstri blokkin er þarna stærri en hægri blokkin. Vinstri blokkin hefði meira fylgi hjá konum en körlum og hún hefði mjög sterka stöðu hjá ungum og miðaldra kjósendum. Hægri blokkin væri sterkari í eldri aldurshópum.
Þá væri vinstri blokkin með mun sterkari stöðu hjá lágtekjufólki og einnig hjá millitekjufólki, á meðan hægri blokkin hefur sína yfirburði hjá hæstu tekjuhópunum, sem er eðlilegt fyrir íhaldssaman nýfrjálshyggjuflokk eins og Sjálfstæðisflokkurinn er.
Svona blokkamyndun skapar þannig miklu eðlilegri farveg fyrir hagsmuni helstu þjóðfélagshópa samfélagsins á þingi og í ríkisstjórnum. Möguleikarnir á að stefnumál í þágu lágtekju- og miðtekjuhópa næðu fram að ganga aukast verulega frá því sem nú er.
Slík vinstri blokk sem byggð væri á samstarfi milli margra áhrifalítilla smáflokka gæti búið til ný samlegðaráhrif, samhliða því að hver flokkur hefði sín sérkenni. Hagsmunir almennings fengju meira vægi í stjórnmálunum í stað þess að hagsmunir yfirstéttarinnar gangi oftast fyrir, eins og reynslan hefur lengst af verið. Auðvitað þarf að viðhalda þróttmiklu atvinnulífi en kjörum og tækifærum venjulegs fólks væri hægt að sinna mun betur á Íslandi en nú er.
Niðurstaða
Ef vinstra fólk og þau sem eru vinstra megin á miðjunni ætla ekki að sætta sig við áframhaldandi áhrifaleysi í stjórnmálum til langrar framtíðar þá er augljóst að núverandi flokkakerfi eða starfsháttum flokka þarf að breyta. Það gæti auðvitað gerst með samruna flokka, sem þó er erfitt. Að stofna nýja flokka er einnig hægt, en ekki gallalaust. Hættan er sú að fjölgun flokka leiði ekki lengra en að auka sundrungu á vinstri vængnum, fjölga áhrifalitlum smáflokkum, eins og reynslan eftir 2013 bendir til. Atkvæði vinstri kjósenda tvístrist sífellt meira uns þau verða að engu. Atkvæði lágtekjuhópanna fóru nú á Flokk fólksins, hvert fara þau næst? Kannski á Sósíalista?
Hin leiðin er blokkaskipan sem felur í sér að mynda kosningabandalag vinstri flokka og vinstri miðju um samstarf í ríkisstjórnum eftir kosningar. Með því væri hægt að breyta dreifingu valdsins í samfélaginu og gefa almenningi samstilltari fulltrúa á þingi og í ríkisstjórnum. Með því væri hægt að skapa þann pólitíska grundvöll sem nýttist til að byggja upp norrænu velferðarríkin á hinum Norðurlöndunum, en þau hafa lengi haft sérstöðu í heiminum.
Framtíðin í alþjóðavæddum kapítalisma kallar á að almenningur sé mun betur varinn gegn þeim peningaöflum sem draga fram aukinn ójöfnuð, hamfarahlýnun og niðurrif velferðarríkjanna sem byggð voru upp með verkalýðsstjórnmálum á síðustu öld.
Ef ekki tekst að breyta flokkakerfinu eða starfsháttum á vinstri vængnum þá þarf verkalýðshreyfingin að sjá um verkalýðspólitíkina og jafnaðarstefnuna.
Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.