Við Íslendingar lítum gjarnan til Noregs sem fyrirmynd um hvað er hægt að gera vel í stjórnun ríkis. Eiginlega í öllu tilliti. Og svo sannarlega í velferðarmálum. Nú hafa Norðmenn skilað rauðu. Þeir höfðu vit á því. Enda eina leiðin sem raunhæf er til framtíðar. Okkur gefst einstakt tækifæri núna í þessum kosningum að fara að fordæmi Norðmanna og skila rauðu. Sósíalistaflokkurinn boðar það og biður fólk að skila rauðu.
Norðmenn höfnuðu áframhaldandi hægri stjórn í nýafstöðnum kosningum þar í landi og treysta frekar alvöru vinstri mönnum fyrir því að stýra landinu. Sósíalistar fengu góða kosningu og munu hafa mikil áhrif á framvindu mála í Noregi. Niðurstaðan þýðir að líkegast vænkast hagur þeirra sem veikt standa í Noregi, fátækra, öryrkja og einstæðra mæðra. Auk þess er mjög líklegt að skattar muni hækka á hina ríku en lækka á almenning. Það sama mun gerast á Íslandi ef fólk styður Sósíalistaflokkinn. Skilar rauðu í kosningunum þann 25. sept.
Stefna sósíalista er ofin úr þráði sem heitir kærleikur. Það er verið að reyna að sverta þennan kærleiksþráð með því að segja hann öfga. En það er svo langt í frá. Við erum að boða það sem almenningur vill. Flest fólk er kærleiksríkt og vill öllum vel. Styður gildi eins og samkennd, samvinnu, mannhelgi og hlýju. Það er einmitt þess vegna að þau viðhorf almennings mælast í könnunum að vilja draga úr ójöfnuði og gera samfélagið betra fyrir alla. En stjórnmálamenn sem setið hafa á Alþingi og vilja vera þar áfram, hafa ekki hlustað á vilja almennings. Núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks fer alls ekkert eftir vilja almennings. Tökum nokkur dæmi.
- Samkvæmt nýlegri könnun töldu tæp 80 prósent landsmanna að auðugasta fólkið á Íslandi ætti að greiða hærri skatta. Aðeins örfárir töldu að skattar á ríkasta fólkið ætti að lækka. Það er ótrúlegt að flestir flokkar sem setið hafa á Alþingi sl. 4 ár og bjóða nú fram hafa ekki í hyggju að hækka skatta á þá ríkustu. Og það þótt tekjur þeirra ríku hafi aukist töluvert á undangegnum árum. Það er ekkert hlustað á almenning.
- Meirihluti þjóðarinnar vildi ekki selja í Íslandsbanka, samkvæmt könnunum. Vildi heldur að þjóðin ætti bankann áfram saman. En stjórnmálamenn á Alþingi tóku hagsmuni fjármagseiganda fram fyrir vilja þjóðarinnar. Það er ekkert hlustað á almenning.
- Meirihluti almennings vill að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarps um nýja stjórnarskrá. Er hlynntur Nýju Stjórnarskránni. En Alþingi og ríkisstjórn hlusta ekkert á það. Ennþá hefur ekkert gerst raunhæft í Stjórnarskrármálinu. Það er ekkert hlustað á almenning.
- Í einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, Kvótamálinu, sýna kannanir að mikil meirihluti landsmanna er á móti núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Meirihlutinn telur beinlíns að Kvótakerfið ógni lýðræðinu. Þarna eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina. Til þjóðarinnar myndu renna svo stórar upphæðir, fengi fólk arðinn að auðlindinni sinni, það ég get ekki einu sinni haft það eftir í fjárhæðum. En kvótagreifarnir stjórna öllu í krafti auðs. Stjórnmálamenn á Alþingi og ríkisstjórnin hlýðir sérhagsmunaöflunum á öllum sviðum. Og ekki er búið að breyta Kvótakerfinu. Það er ekkert hlustað á almenning.
Þetta eru bara örfá dæmi. Kærleikshagkerfið sem sósíalistar boða, fjallar einmitt um að auka lýðræði, hlusta á vilja almennings og fara eftir honum. Styðja við þá veiku og fátæku. Lýðefla jarðarsetta hópa. Taka vel á móti fólki frá útlöndum. Sýna mannúð í hvarvetna og þá ábyrgu hagstjórn að allir geti lifað mannsæmandi lífi, búið í góðu húsnæði, sótt sér ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu, geti sinnt hugaðarefnum sínum, farið í sumarfrí, sinnt börnunum sínum og fjölskyldu. Lifað með reisn. Hættum að hygla þeim ríku og förum að hugsa um venjulegt fólk. Skilum rauðu. X-J.
Höfundur er oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.