Þann 10. nóvember sl. birtist á Kjarnanum grein eftir Þórð Snæ Júlíusson undir fyrirsögninni „Beinir og óbeinir styrkir ríkissjóðs til bænda 29,1 milljarður króna í fyrra.“ Í næstu línu á eftir er vitnað í hagfræðiprófessor sem fullyrðir á Vísindavef Háskóla Íslands „…að íslenska landbúnaðarkerfið kosti íslenska skattgreiðendur að minnsta kosti tæplega 30 milljarða króna á ári í beina og óbeina styrki.“
Hér er sem sagt sömu upphæðinni teflt fram annars vegar sem beinum og óbeinum styrkjum ríkissjóðs og hins vegar sem kostnaði skattgreiðenda og neytenda. Hvernig getur þetta verið sama upphæðin? Styrkir ríkissjóðs geta aldrei numið hærri upphæð en því sem greitt er samkvæmt ríkisreikningi hér til landbúnaðar. Með öðrum orðum, fyrirsögnin er beinlínis röng.
Misskilningur um útreikninga OECD
Greinarhöfundur hefur þegar sent Vísindavefnum athugasemdir við fyrrnefnt svar á Vísindavefnum sem Þórólfur Matthíasson prófessor skrifaði. Þar byggir hann á útreikningum OECD um samanburð á stuðningi þjóðríkja við landbúnað sinn til að áætla tölulega heildarstuðning við landbúnað hér á landi. Hæpið er að nota þessi gögn OECD í þessu skyni.
Hvernig ber að skilja aðferðafræði OECD?
Þannig eru svokallaðar tilfærslur frá neytendum til framleiðenda metnar (í einföldustu mynd) sem margfeldi af magni á neyslu tiltekinnar afurðar sem framleidd er hér á landi og mismuni á verði til framleiðenda innanlands að frádregnu heimsmarkaðsverði vörunnar eins og OECD metur það (reference price), kominni í höfn á Íslandi. Við mat á viðmiðunarverði t.d. mjólkur á heimsmarkaði er byggt á heimsmarkaðsverði á smjöri og undanrennudufti. Vitaskuld eru þetta aldrei þau verð sem neytendur standa andspænis enda verið að meta tilfærslur til framleiðenda en ekki kostnað neytenda.
Þessi aðferðafræði er ekki hönnuð til þess að finna upphæð vergs eða hreins stuðnings við landbúnað í einstökum löndum, eins og ráða má af umfjöllun Þórólfs. Aðra aðferðafræði þarf til þess. Því er afar vafasamt, svo ekki sér meira sagt, að nota þessi gögn frá OECD á þann hátt sem Þórólfur gerir (og Kjarninn tekur upp án gagnrýni).
Kjarninn misskilur kjarna málsins
Kjarninn heldur síðan áfram og greinir frá því að beinir styrkir úr ríkissjóði til bænda hafi numið 16,3 milljörðum króna árið 2020 og óbeinir styrkir til þeirra 12,8 milljörðum króna, með hliðsjón af efni OECD. Aftur er gefið til kynna að metnar tilfærslur, sem hér eru kallaðar óbeinir styrkir, séu útgjöld ríkissjóðs (þótt það sé að einhverju leyti leiðrétt í næstu málsgrein á eftir). Hvað varðar beina styrki úr ríkissjóði til bænda fullyrðir Kjarninn að þeir nemi 16,3 milljörðum króna og jafnframt tekið svo djúpt í árina að fullyrða að hér sé um að ræða framúrkeyrslu í búvörusamningum sem nemur fyrrnefndum 16,3 milljörðum kr. að frádregnum 13,2 milljörðum kr. Það eru sú upphæð sem ritstjóri Kjarnans segir vera meðaltals útgjöld á ári samkvæmt samningum bænda og ríkisins frá 17. febrúar 2016 (ekki kemur fram hvort eða hvernig sú fjárhæð er framreiknuð til verðlags ársins 2020). Staðreyndin er hins vegar sú að því fer fjarri að öll þau útgjöld sem standa að baki samtölunni sem vitnað er til frá OECD (16,3 m.kr.), falli undir búvörusamninga. Þar munar mest um framlög til Matvælastofnunar sem standa undir alls kyns þjónustu við landbúnað og eru sögð nema 644 milljónum kr. árið 2020.
Rökvilla í meginmáli
Í svari Þórólfs Matthíassonar er ekki látið staðar numið við að fjalla um mat OECD á útgjöldum og tilfærslum heldur fullyrðir hann að bændur nýti endurgjaldslaust alla afrétti landsins með ósjálfbærum hætti. Fyrir það fyrsta er óumdeilt að nýting fjölmargra afrétta landsins er sjálfbær og fer það hlutfall vaxandi. Í annan stað leggja bændur víða í mikinn kostnað og vinnu við uppgræðslu á afréttum landsins með þeim árangri að þeir eru metnir í framför. Þó ríkið leggi vissulega sitt til í því eru framlög bænda óumdeild. Í þriðja lagi bera bændur skaðann af ofnýttum afréttum. Það er því enn ein rökvilla Þórólfs að þeir afréttir sem enn kunna að vera nýttir með ósjálfbærum hætti séu það endurgjaldslaust af hálfu bænda.
Sameining afurðastöðva skilar hagræðingu í landbúnaði
Niðurlagsorð Þórólfs í svarinu á Vísindavefnum eru einhliða, og bregst hann þar vart aðdáendum sínum. Hann fullyrðir án þess að geta heimilda að vísbendingar séu um að takmarkaðar undanþágur sumra vinnslugreina landbúnaðar frá samkeppnislögum (sem eru miklu takmarkaðri hér en t.d. í ESB) hafi þrýst upp verði á framleiðslunni. Hverjar eru þessar vísbendingar? Þvert ofan í það sem Þórólfur telur sig hafa vísbendingar um, hefur nýlega verið sýnt fram á gríðarlegt hagræði og þar með verðlækkun af sameiningu og hagræðingu í mjólkuriðnaði hér á landi, (sjá skýrslu frá Hagrannsókum sf. 2021, Framleiðni í íslenskri mjólkurvinnslu,) sem byggir á umræddri undanþágu frá samkeppnislögum (sjá lög nr. 99/1993). Í ljósi þess að gríðarlegt hagræði náðist í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði má gera ráð fyrir því að sambærilegt hagræði náist einnig með auknu samstarfi eða sameiningu fyrirtækja í kjötiðnaði.
Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.
Athugasemd ritstjórnar Kjarnans: Fyrirsögn umræddrar fréttar var breytt kl 14:14 þann 11. nóvember 2021, eftir ábendingu greinarhöfundar. Upphaflega stóð að beinir og óbeinir styrkir úr ríkissjóði til bænda væru 29,1 milljarður króna. Það er ekki nákvæmt heldur er réttara að segja að beinir og óbeinir styrkir hins opinbera nemi þeirri upphæð, miðað við þær upplýsingar sem vitnað er til í fréttinni. Að öllu öðru leyti stendur ritstjórn Kjarnans við fréttina þar sem skýrt er tekið fram að hún byggi á svari á Vísindavef Háskóla Íslands.